Hvað er kynferðisofbeldi?

Mig langar að tala aðeins um kynferðisofbeldi.

Hvað er kynferðisofbeldi?

Lengi vel hélt ég að kynferðisofbeldi væri það sama og nauðgun. Það er að segja, ég var með ákveðna hugmynd um nauðgun. Ég sá fyrir mér stelpu sem lá í húsasundi og maður ofan á henni, hún annaðhvort dauðadrukkin og rænulaus eða öskrandi, bítandi og klórandi.

Nýlega komst ég að því að það eru til margar tegundir af nauðgunum. Hvað þýðir orðið nauðgun? Ef maður greinir það? Nauð-gun. Að vera tekinn nauðugur. Að vera neyddur til kynlífs. Aðal áherslan er á að maður sé neyddur til einhvers.

Ein besta lýsingin á því sem ég er að tala um kemur fram í sketchi í "fáðu já" myndbandinu. Þegar stelpan neyðir hamborgarann ofan í strákinn. "Jú fáðu þér smá.. svona.. fáðu þér!!" 

Ég veit ekki hver skilgreiningin á nauðgun er. En ég veit að þegar maður er neyddur til að gera eitthvað sem maður vill ekki, þá líður manni illa. Þegar mörkin manns eru ekki virt, þá líður manni illa.

Þegar ég heyrði "nei þýðir nei" frasann sem unglingur, þá sá ég fyrir mér að strákurinn væri að reyna að fá stelpu til að stunda kynlíf með sér, hún segði nei, og þá réðist hann á hana með ofbeldi og nauðgaði henni.

Ég hef hinsvegar verið í þannig aðstæðum að ég hef valið að stunda kynlíf með einstaklingi, sem vildi gera hluti sem ég vildi ekki. Þegar ég sagði nei, nauðaði viðkomandi í mér. Ég sagði nei þrisvar sinnum, en ég gafst upp á endanum. Auðvitað er ábyrgðin mín megin. Ég fór heim með honum. Ég stundaði kynlíf með honum. Ég fór gegn eigin innsæi. EN ábyrgðin er líka hans megin! Þó að ég sé ekki öskrandi á hann: "NEIII!! HÆTTUUU!!" þá þýðir það ekki að ég sé að samþykkja hvað sem er. Við þurfum að geta sagt nei ef við viljum ekki gera eitthvað og við þurfum að treysta því að hinn aðilinn virði það!!!!

Ég skrifa þetta blogg til að vekja fólk til umhugsunar. Þá sérstaklega stráka, án þess að gera þá að "vonda kallinum".

Ég sendi viðkomandi einstaklingi póst og sagði honum mína upplifun, að hann hefði ekki virt mörkin mín og mér hefði hreinlega liðið eins og mér hefði verið nauðgað eftir þetta. Hann var alveg miður sín. Sagði að hann hefði alls ekki upplifað þetta þannig og honum fannst hræðilegt að heyra mig nota orðið nauðgun.

Mér fannst mjög gott að fá þetta svar, en það staðfestir líka grun minn um að karlmenn átti sig oft ekki á því að þeir eru að vaða yfir mörk okkar kvennanna. Við konurnar erum heldur ekki nógu duglegar að virða eigin mörk og standa fast á okkar. En mér finnst alveg mega vekja karlmenn til umhugsunar hvað þetta varðar. Ef þið eruð að stunda kynlíf, hvort sem það er "one night stand", kærasta, bólfélagi eða eiginkonan. Ef hún segjir nei. Plís, virðiði það!!!! Útkoman er svo miklu betri en annars því þannig fáið þið að öllum líkindum konu sem treystir ykkur og líður vel með ykkur. Og þið getið verið fullkomlega sáttir með að hafa sofið hjá henni vitandi að hún hafi viljað það og notið þess alla leið! Ef það er eiginkonan þá eru örugglega miklu fleiri gjafir sem þið fáið á móti, miklu betri en ein fullnæging. Ást, virðing, vinátta, kærleikur, jafnvægi, öryggi, samvinna...

Klámvæðingin hefur brenglað hugsunarhátt okkar allra varðandi kynlíf. Við konur erum ekki kynlífsdúkkur sem stynjum eftir pöntun og við lítum ekki út eins og barbídúkkur.

Konur, lærum að njóta kynlífs, hættum að gera "það sem honum finnst gott" og menn, hlustið á hvað konurnar eru að reyna að tjá!!!!

Með þessu meina ég þó ekki að okkur beri aðeins að hugsa um okkur sjálf í kynlífi. En ef við erum ekki að hlusta á okkur sjálf og hvað okkur finnst gott, til hvers erum við þá að þessu? Til að hinum líði vel? :)

Það er eins og að fá sér ís af því vini manns langar í ís og maður vill ekki að honum líði illa að borða hann einn. Ef við njótum hans ekki, afhverju þá að borða hann!!?? 

Fyrir utan það að besta kynlífið er klárlega þegar hinn aðilinn nýtur sín, svo það græða báðir á því að við hlustum á okkur sjálf, virðum eigin mörk - OG virðum mörk hins!!!! 

Og hananú! ;) 


Þunglyndissjúklingar - veikasti hlekkurinn?

Ég varð að skjóta inn einni hugleiðingu hér..

 

Ég var hjá sálfræðingi í dag, ég var að byrja hjá nýjum.

 

Á leiðinni heim fór ég að hugsa.

 

Ég man að ein af þeim skaðlegu hugsunum sem tóku sér bólfestu í huga mínum þegar myrkrið var hvað mest var þessi: Survival of the fittest. Ég taldi mér trú um að vegna þess að í grunnin erum við dýr, lífverur, alveg eins og dýrin í náttúrunni, þá í rauninni samkvæmt þessum hugmyndum "ætti ég ekki skilið að lifa af". Af því ég var "brotin", "gölluð". Ég hafði upplifað svo mörg áföll á lífsleiðinni að ég var ekki fær um að lifa eðlilegu lífi og sjá um sjálfa mig. Þar af leiðandi samkvæmt náttúrunnar lögmálum var ég veiki hlekkurinn og mannkynið væri bara sterkara ef ég væri ekki á lífi til að íþyngja því. Ég sé það núna þegar ég skrifa þetta niður að þetta er ískyggilega nálægt því að vera sjálfsmorðshugsanir, en ég fór samt aldrei það langt. En ég hugsaði með mér að kannski væri þetta bara rugl að vera að reyna að "laga" fólk eins og mig sem greinilega væri bara veikt og væri öruglega bara að fara að íþyngja hinum í samfélaginu.

 

En á leiðinni heim frá sálfræðingnum í dag rann upp fyrir mér ljós. Við erum EKKI bara dýr, lífverur. Jú vissulega erum við lífverur og dýr, en við erum samt svo einstakar lífverur. Það að við séum gædd þeim hæfileikum að geta hjálpað okkur sjálfum og öðrum, hjúkrað okkur til heilsu og orðið sterkari en áður, er eitt af því sem aðskilur okkur frá dýrunum.

Það læddist einnig að mér þessi hugsun: "Hvaða fólk er það sem veitir öðrum hvað mestan innblástur? Hvaða fólk er það sem er athyglisverðasta fólkið? "duglegasta" fólkið?" og niðurstaðan var einföld: "Fólkið sem rís upp gegn mótlæti. Fólkið sem á við einhver vandamál að stríða sem það sigrast á."

Þar af leiðandi get ég ekki litið á þunglyndissjúklinga eða hvers kyns "veikburða" einstaklinga sem "vírus" í samfélaginu eða veikasta hlekkinn. Þau, og við erum bara fólk eins og allir aðrir. Og ég tel ástæðuna fyrir því að við lítum svona upp til fólksins sem rís upp gegn mótlæti vera þá að við þekkjum öll þessar tilfinningar og hugsanir. Minnimáttarkenndina, óöryggið, óttann. Og okkur finnst gott að sjá að aðrir eigi þessar tilfinningar líka til, að þeir geti tekist á við þær og sigrast á þeim. Það veitir okkur innblástur.

 

Þetta er að mínu mati annað sem aðgreinir okkur frá dýrunum. Við hugsum svo mikið að við eigum flest öll við einhvers konar vanlíðan að stríða sem við þurfum að læra að takast á við á einn eða annan hátt. Og það er hluti af lífinu. Það er hluti af því að vera mannvera að díla við þennan ofhugsandi heila.

 

Við erum svo mögnuð dýrategund. Við getum hugsað okkur í vanlíðan, en við höfum líka möguleikann á að rísa upp gegn þessari þróun og til eru allskonar aðferðir sem hægt er að nota og allskonar fólk sem er tilbúið að hjálpa. Við erum samfélag og það er mun meiri stuðningur og kærleikur til staðar en maður gæti haldið þegar maður er í myrkrinu. Ef við erum tilbúin að sjá þetta og opna fyrir það. Leita okkur hjálpar, opna fyrir umhyggjunni og ástinni.

 

Ást og baráttuhugur!!

 

Elskum hvort annað <3 


Stelpudrama

Hvað er stelpudrama? Afhverju lendum við stelpurnar í því að þurfa að takast á við hluti á þennan hátt? Ég hef lent í nokkrum stelpudrömum á lífsleiðinni. Þeim lauk þó sem betur fer fyrir mörgum árum vegna þess að ég og vinkonur mínar höfum þroskast upp úr þessum "kjánaskap". Eða það hélt ég.

Án þess að fara út í smáatriði þá lenti ég í einu heljarinnar stelpudrama fyrir nokkrum vikum þar sem stelpuhópurinn splundraðist og allir í fílu út í einhvern. Nánast allir karlmenn sem ég sagði frá þessu brugðust við á sama hátt. Þeim virtist ekki finnast þetta neitt mál. En málið er að svona hlutir eru rosalega erfiðir, særandi og taka andlega mikið á. Það að vera í vinahóp þar sem ákveðnir einstaklingar "stjórna" hópnum er álíka tilfinning eins og að vera í ofbeldissambandi. Því þetta má vel kalla andlegt ofbeldi. Þetta er líka svipað og að vera í alkóhólista-fjölskyldu, þar sem "stjórnandinn" tekur á sig hlutverk alkans, og allir hinir eru fjölskyldan hans, aðstandendurnir sem hlaupa í hringi ef "stjórnandinn" geltir. 

Ég fór að spá í þessu, hvað karlmenn virðast ekki skilja hversu alvarlegt þetta geti verið. Ég gerði sjálf grín að þessu að sagði "æi ég er að standa í einhverju stelpu-drama" eins og þetta væri afar saklaust. En það var það ekki. Ég svaf illa og þetta hafði mikil áhrif á mig. En það má velta upp þeirri spurningu hvort við viljum standa í þessháttar "veseni" og í mínu tilfelli tók ég þá ákvörðun að það væri komið nóg af drama í mitt líf án þess að ég veldi mér vini sem biðu upp á meiri dramatík. Því er ég ekki lengur í þessum vinskap. Það er mín leið til að hætta þessari "vitleysu" og velja líf án stelpu-drama. Ég vel mér stelpur í mitt líf sem eru sammála um að slíkt sé óþarfi og skaðlegt. Ég vel mér stelpur í mitt líf sem vilja elska og styðja vini sína, ekki rífa þá niður.

 

En afhverju gerum við þetta? Af hverju leysum við stelpurnar okkar mál á þennan hátt? Á þann hátt sem vekur hjá strákunum hlátur og undrun yfir þessari "vitleysu"? Ég er með smá kenningu...

Það er opinbert og viðurkennt að karlmenn eru keppnisdýr. Þeir keppast. Það er það sem þeir gera og það er allt í lagi. Og þeir vilja gera það. Einhvern tíma var mér bent á að þegar litlir strákar rífist fari þeir einfaldlega í slag og þegar slagurinn er búinn standi þeir eftir sem vinir eins og ekkert hafi í skorist. En stelpur baktala hverja aðra og koma öðrum í hópnum upp á móti hvorri annari. Svo þeirra rifrildi eru "undir rós", ekki á yfirborðinu. Og standa oft yfir í mun lengri tíma og valda öllum viðstöddum andlegum kvölum. 

 

Mín hugmynd er sú, að vegna þess að karlmenn mega og EIGA AÐ keppast samkvæmt hugmyndum samfélagsins þá geti þeir útkljáð mál sín á mun "skynsamari" hátt en konurnar. Vegna þess að við konur erum aldar upp til þess að vera "góðar, ljúfar, skilningsríkar.."  og þar frameftir götunum. Hvort sem við erum í raun "aldar upp" með þetta fyrir augum eður ei, eins og í mínu tilfelli þar sem ég var síður en svo alin upp til þess að bera þessa eiginleika, en samfélagið setti svoleiðis stimpil á mig í gegn um tímann að ég var orðin lituð af þessum eiginleikum allt í gegn, jafnvel án þess að gera mér grein fyrir því, eða áhrifum samfélagsins á mig. Engu að síður eru þetta eiginleikar sem við margar hverjar "pikkum upp" á lífsleiðinni að séu ákjósanlegir eiginleikar. Móður minni var jafnvel kennt af sinni móður að hún "yrði að vera" manipulative til þess að fá sínu framgengt! Þetta var viðurkennt í þá daga, að minnsta kosti á meðal kvenna, að þær yrðu að vera manipulative, því þannig gætu þær stjórnað. Ekki með því að segja bara hvað þær vildu líkt og körlunum var kennt.

Kannski þetta sé ástæðan fyrir þessari furðulegu tilnheigingu kvenmanna til að útkljá mál sín. Við "megum ekki" keppast, við "megum ekki" vera agressívar. Við "þurfum að vera" ljúfar, góðar og skilningsríkar. Þessvegna getum við brosað á yfirborðinu en verið algjörar "tíkur" undir niðri..... ???

 

... Þetta er hugleiðing ... :)

Hvað finnst ykkur? 


Ragneiður... Ég neita að vera meðvirk!!! :)

Kunningjavinkona mín Sigga Soffía sem er dansari og vinnur við að ferðast um heiminn og dansa í margskonar sýningum skrifaði status á facebook um daginn þar sem hún var að hvetja Íslendinga til að hætta að vera svona meðvirkir áhorfendur. Hún gagnrýndi það hvernig við klöppum eins og við eigum lífið að leysa og stöndum upp á nánast hverri einustu sýningu. Hún sagði eitthvað á þá leið: Hættið að vera svona meðvirk! Ef þið fílið ekki sýninguna, ekki klappa, og það má líka bara púa!

Ég ætla að taka hana mér að fordæmi og halda áfram að efna áramótaheitið mitt um að segja allt sem mér finnst ég þurfa að segja jafnvel þótt ég sé hrædd, og segja mína skoðun á nýju íslensku óperunni Ragnheiði sem frumsýnd var síðasta laugardag. 

Ég ætla að voga mér að segja það hér á veraldarvefnum að ég var ekki hrifin af tónlistinni. Ég virðist þó vera á meðal afar fárra sála þessarar skoðunar. 

Ég veit ekki hvað það er. Mér fannst tónlistin falleg. En mér fannst hún eiginlega OF falleg. Mér fannst ekki vera neitt í gangi. Ég held ég hafi heyrt fyrstu spennuna í hljómi þegar var liðið á seinni hluta annars kafla, og kórinn söng einradda alveg þar til í blálokin - sem mér fannst bara vera sóun á góðum kór! Mér finnst fallegt að láta kóra syngja einradda svona inn á milli sem ákveðinn effect, en að mínu mati skiptir fjölbreytni afar miklu í tónlist. Að nota hljóðfærin sem maður er með á sem fjölbreyttastan máta og nýta það sem maður hefur. Mér finnst léleg nýting á svona flottum kór að láta hann syngja einradda nánast allan tímann.

Mér leiddist fyrsta hálftímann vegna þess að mér leið eins og ég væri að "af-læra" það sem ég hef lært í Listaháskólanum. Eins og heilanum mínum væri ofboðið því þetta var allt of auðmelt. Eins og ég væri neydd til að borða barnamat þegar líkaminn minn vill fá brokkolí, eitthvað staðfast, almennilegt til að melta. Ég íhugaði það alvarlega að labba út því mér fannst þetta bara óþæjilegt! En svo eftir þennan fyrsta hálftíma fannst mér þetta aðeins skána og eitthvað aðeins farið að gerast í tónlistinni.

Mér fannst vanta allt "krydd", eitthvað til að gera þetta áhugavert, spennandi, nýstárlegt. Hvað er nýsköpun? Tónlist er sífellt að þróast og má sérstaklega nefna að síðan í byrjun 20. aldar hafa afar flottir hlutir verið að gerast. Afturhvarf í gamla stíla getur verið mjög athyglisvert og fallegt, en mér finnst samt persónulega alltaf nauðsynlegt að bæta einhverju við. Mér leið eins og ég væri að horfa á Disney mynd. Ekki misskilja, ég elska Disney tónlist, en mig langar ekki að horfa á Disney-óperu.

Reyndar fannst mér annar kaflinn betri en sá fyrsti, og þegar tók að líða á seinni hluta kaflans gerðust nokkrir svolítið áhugaverðir hlutir.

Mér finnst tækifæri eins og þetta, ný al-íslensk ópera bjóða upp á svo mikla möguleika á sviði nýsköpunar og þykir mér miður að nýta ekki svoleiðis tækifæri til fulls. Við eigum ótal mörg glæsileg tónskáld sem hafa setið á skólabekkjum í mörg ár og stúderað tónlist fram og til baka. Af hverju var ekki eitt af þeim fengið til að semja tónlistina?

Mér fannst allt annað við sýninguna frábært; Söngurinn, leikurinn, búningarnir, ljósin, sviðsmyndin, hljómsveitin. Ég hefði viljað heyra þetta með tónlist eftir alvöru tónskáld. Sorrý með mig.

 


Útlitsdýrkun - BLESS!!!

P1020025

Hvað felst í orðinu útlitsdýrkun? Þýðir það að maður hugsar meira um útlitið en allt annað og mestur hluti tíma manns fer í áhyggjur af því hversu fallegur maður sé? Já það held ég bara. En þetta er þó aðeins flóknara að mínu mati.

IMG 8602 copy

Ég var haldin gífurlegri útlitsdýrkun. Hún beindist að mestu gagnvart sjálfri mér en ég setti "fallegt fólk" á stall og þótti "minna fallegt fólk" óæðra. Mikill tími og orka fóru í að öðlast útlit sem mér þótti ákjósanlegt og þegar það ekki tókst þótti mér ég EINSKIS VIRÐI. Nú hef ég komist að því að þetta er órökréttur hugsunarháttur. Það er fullkomlega eðlilegt og mannlegt að vera "fallegri" suma daga en aðra. Ég set orðið fallegur í gæsalappir vegna þess að hugmynd mín um fegurð hefur breyst töluvert síðan ég fór að reyna að brjóta mig út úr þessum hugsunarhætti. Samkvæmt þessum nýju hugmyndum mínum tel ég að allir séu fallegir. Og sú vinsæla setning, fegurðin kemur að innan, þykir mér um margt sönn. Þegar fólk elskar sig sjálft, sýnir sjálfum sér og öðrum umburðarlyndi og virðingu....... vá.... Þá er hreinlega eins og fólk glói af fegurð!

Vala show must go on sætIMG 8585 copy

Hugmynd mín um fegurð var, eins og líklega á við um flesta, miðuð við staðla sem settir hafa verið af fjölmiðlum. Hávaxið, grannvaxið fólk með há kinnbein, langar lappir, fullkomið hár, fullkomna húð og flatan maga. Konur með þykkar varir, plokkaðar augnbrúnir, helst málaðar - samt ekki of mikið (líta út fyrir að vera "náttúrulega fallegar" með aðstoð make-ups). 

P1020024vala brosP1020065

Ég passa inn í nokkra af þessum stöðlum. Ég er hávaxin, grannvaxin, með langa leggi og fallegt hár, þykkar varir og há kinnbein. Ég var aldrei með flatan maga, hárið mitt var aldrei neitt svakalega spes og ég hef verið með alvarleg húðvandamál síðan ég var unglingur. Ég er 30 ára í dag og er enn að glíma við svæsnar unglingabólur. Ég þarf að passa gífurlega hvað ég borða, hvað ég set á andlitið á mér og hvernig ég hirði um húðina. Í dag er ég mjög ánægð með hárið mitt. Fyrir nokkrum árum tók ég þá ákvörðun að leyfa því að vera eins náttúrulegu og hægt væri. Ég læt klippa hárið þannig að náttúrulegir eiginleikar þess fá að njóta sín, og ég hætti að lita það. Ég er að læra að vera sátt við mallann minn, krúttið mitt. Greyjið, ég hef staðið í stríði við hann síðan ég var 12 ára. Hann er nokkuð flatur í dag, en hann breytist mikið dag frá degi. Ef ég er stressuð þá blæs ég út og verð eins og ég sé ólétt, ef ég borða eitthvað sem fer illa í mig, sef illa eða er á túr, þá verður hann svona mjúkur og stór og það myndast einskonar fellingar og kekkir í fituna á maganum. Ég er næstum því farin að elska magann minn þegar hann er beinn og fínn. Næstum því. En þegar hann er það ekki þá er ég voðalega vond við greyjið. En ég er að vanda mig. Mér var ráðlagt að standa fyrir framan spegilinn í engu nema nærbuxum og horfa á líkamann minn og hugsa hvað hann sé fallegur. Sama hversu "fallegur" hann er í raun (sbr. staðla fjölmiðla!!) - Þetta kann að hljóma furðulegt, en þetta virkar! Ég mæli með þessu :)

Vala syngja teP1020034Í dag þykir mér útlitsdýrkun hafa snúist upp í andstæðu sína. Að sífellt sé verið að predika að það "eigi að borða nógu mikið" og "ekki svelta sig", og maður "eigi ekki að vera of grannur"!!! Ég þoli ekki þetta orð "eiga að"!!! Þetta er eitt hættulegasta orð sem ég hef kynnst á ævinni! Ég hef þurft að losa mig við allskonar "átt að" sem hinir og þessir hafa sagt við mig á lífsleiðinni. Ég hef bitið í mig að þetta sé hin gullna regla og ef ég færi ekki eftir henni þá gerðist eitthvað HRÆÐILEGT! Hugsið ykkur óttann! Þetta er ekki hollt!IMG 8587 copy

 

 

P1020064

Í dag einbeiti ég mér að því að HLUSTA Á SJÁLFA MIG. Hlusta á líkama og sál. Hvað þarf ég NÚNA? Og veita mér það. Og smám saman er ég að taka hænuskref í átt til þess að verða sú sem ég vil vera. Sú sem ég ER!! Sú sem ég er innst inni en er búin að ýta henni lengst út í horn og nánast kæfa með "átt að" staðhæfingum sem öskruðu á hana þar til hún skrapp saman í ekki neitt! Og ég heyrði ekki í henni lengur!!!!

P1020047

Sem dæmi um þetta get ég sagt frá því þegar ég stóð eitt sinn við spegilinn sem barn, ca. 4-6 ára og DÁÐIST AÐ ÞVÍ HVAÐ ÉG VAR FALLEG!!! Hugsið ykkur fegurðina í litlu barni!! Og ég sá það! Og fannst það gaman. Mér fannst gaman að velta fyrir mér andliti mínu og augum og dást að þessu. Það er kraftaverk að við séum á lífi, með andlit, nef, augu, eyru. Megum við ekki bara dást að þessu og þakka fyrir þetta? 

IMG 8562 copyP1020044

En móðir mín er mikill feministi og finnst ekki að maður eigi að hugsa um útlit svo hún sagði við mig: "Vala hættu að horfa svona mikið á þig í spegli, maður á ekki alltaf að vera að horfa á sjálfan sig í speglinum!" ...............

...."Á ekki að".....

Þessi setning sat í mér. Ég man ennþá eftir þessu. Tuttugu og eitthvað árum síðar...

Það finnst mér svakalegt.

En móðir mín gerði ekkert rangt, hún ól mig upp samkvæmt eigin hugsjónum og trú á lífið og tilveruna. Ég er hinsvegar þeirrar skoðunar að við "eigum að" leyfa börnunum okkar að vera egóistar vegna þess að við erum ALLTAF að rífa okkur niður og það reynist okkur svo erfitt að hugsa jákvætt um okkur sjálf. En við "eigum að" hugsa fallegt til okkar sjálfra og annarra :) 

... Þetta er snúið en það er hægt!!

P1020045

 

En hver er hugmynd okkar um fegurð ef við náum að af-heilaþvo skoðanir fjölmiðla? Ég er viss um að skoðanirnar eru eins margar og við erum mörg. Mér þykir fallegt að vera grannur. Mér þykir náttúrulegt að vera grannur. Í náttúrunni þurftum við virkilega að vinna fyrir því að finna okkur mat og það var sko ekki í stórum skömmtum. Mér þykir ekkert að því að finnast fallegt að vera grannur. En nú er, að mínu mati, nánast orðið tabú að hafa þessa skoðun. Ég var á tímabili farin að halda að það væri betra að vera með aukafitu á líkamanum. Staðreyndin er sú að hinn vestræni heimur er sífellt að glíma við meiri offituvandamál. Samkvæmt mínum skoðunum má rekja þetta til þess lífsstílsmynsturs sem nútímasamfélag af okkur krefst. Við lifum í svo miklu stressi og pressu á að "standa okkur" og "gera allt rétt", ná að tékka í alla réttu kassana á réttum tíma. Starf, íbúð, maður, barn - tékk!! Við gleymum að hlusta á þarfir okkar. Og systemið okkar fer í köku. Svo við förum og borðum. Þetta er mín reynsla. Núna þegar ég hef verið að hlusta á líkama minn og innsæi þá er mataræðið lítið vandamál. En þetta gengur auðvitað í bylgjum.

P1020048 

 

 

 

Mig langar að vera grönn. En mig langar ekki að vera í svelti. Mig langar að vera "náttúrulega grönn", þeas; MIG LANGAR AÐ VERA MEÐ LÍKAMANN SEM NÁTTÚRAN GAF MÉR. Ef ég treð í mig óhollustu sem líkaminn nær ekki að vinna úr þá er ég ekki með líkamann sem náttúran gaf mér vegna þess að ég er að kæfa sjálfa mig í mat. En stundum þarf maður að gera þetta og það er allt í lagi. Ég er ekki að dæma það. En samkvæmt minni reynslu er það ónáttúrulegt og óhollt. Mér líður aldrei vel eftir á og er jafnvel slæm í maganum í nokkrar vikur á eftir. (Ef ég neita líkama mínum um næringu sem hann þarf á að halda, og held inni maganum svo ég get ekki andað djúpt, til þess að reyna að vera með líkama sem ég ekki er með, þá er ég heldur ekki með líkamann sem náttúran gaf mér. Ég hef þurft að læra inn á þetta smám saman. Finna ákveðið jafnvægi.)

Photo on 8 25 12 at 2.22 AM #3P1020046

 

En líkaminn minn á eftir að breytast. Núna er ég 30 ára. Hann verður öðruvísi þegar ég er 40 ára. Og 50, 60, 70, 80, og 90, 100 ef ég er heppin. En hann heldur áfram að vera fallegur. Allir líkamar eru fallegir!!!

P1020058

 

Hættum að skipta okkur af öðrum og hlustum á okkur sjálf!!!!!!! Hættum að segja öðrum hvernig þeir eigi að haga sér, hreyfa sig, borða og líta út. Horfum á okkur sjálf, elskum okkur sjálf NÁKVÆMLEGA EINS OG VIÐ ERUM Í DAG, þökkum fyrir að eiga þennan líkama sem gerir svo ótrúlega margt fyrir okkur. Og komum svo fram við líkama og sál af virðingu og munum að elska okkur sjálf. <3

Vala Holly golightly

 

 

P1020037P1020057

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P.s. myndirnar setti ég inn til þess að brjóta mig út úr fegðurðarstöðlum og útlisdýrkun!!!

P1020055P1020040P1020049

Þunglyndi

 

Ég heiti Vala og ég er þunglynd.

Þunglyndi er ennþá tabú í þjóðfélaginu og mjög misskilinn sjúkdómur.

Oft ruglað við aumingjaskap eða leti.

Mig langar að stuðla að viðhorfsbreytingu hvað þetta varðar og hef ég í þessu skyni ákveðið að segja frá minni baráttu við þennan sjúkdóm.

Ég tel að það gæti gert mikið fyrir þjóðfélagið að stuðla að meiri úrlausnum fyrir fólk sem glímir við þennan sjúkdóm, því ef við erum öll upp á okkar besta þá hlýtur það að fæða af sér orkumeiri starfskrafta með meiri lífskraft og innblástur.


Hjálpumst að til að gera hvort annað að bestu útgáfu okkar sjálfs.

Elskum okkur sjálf, elskum hvort annað. Eflum hvort annað, styrkjum og hvetjum.


Við erum öll eins, og við þurfum öll sömu hlutina.

Ef við erum duglegri að veita okkur sjálfum og hvoru öðru þessa hluti þá eru möguleikarnir endalausir!!



Ég komst að því nýverið að ég hef verið að glíma við alvarlegt þunglyndi allt mitt líf. Síðan ég var unglingur nánar tiltekið. Reyndar vissi ég að ég væri þunglynd þegar ég var orðin tvítug og hef barist við þetta síðan þá, en ég fékk ekki að sjá á hversu alvarlegu stigi það væri fyrr en nýverið.

Þegar ég komst að þessu upplifði ég blendnar tilfinningar. Ég upplifði mikla sorg yfir því að ég væri virkilega á svona slæmum stað og að glíma við svona alvarleg veikindi. En ég fann líka til mikillar vonar vegna þess að þá loksins sá ég fram á það að ég gæti unnið bug á þessum djöfli, og loksins LOKSINS orðið sú manneskja sem ég veit að býr innra með mér. Sú manneskja sem mig hefur alltaf langað til að vera, en aldrei komist nema hálfa leið í að gera að raunveruleika.

Síðustu mánuði hef ég barist við þennan sjúkdóm af allri minni orku. Ég fór lengra niður en ég hef nokkru sinni farið, en núna er ég að komast á stað sem ég hef aldrei verið á áður. Ég hef unnið mig út úr vandamálum sem hafa dregið mig niður allt mitt líf og ég hef öðlast meiri skilning á lífinu, lífskraft, þakklæti, ánægju, og umfram allt sálarró. Ég er að verða þess aðnjótandi að kynnast fjölskyldu minni og vinum á nýjan hátt, nánari og afslappaðri. Mér líður gífurlega vel með þeim, og ég er að læra að elska. Virkilega elska, þannig að ég finni það innra með mér, hita og hamingju. Ég er að læra að taka á móti ást frá þeim sem í kring um mig eru, sem ég lengi vel ýtti frá mér eftir mesta megni - þó þess aðnjótandi að sjá þessa hegðun og útskýra fyrir fólki af hverju ég gerði þetta. Ég á marga góða og yndislega að og nú er ég loksins að fá tækifæri til að virkilega taka á móti þessari ást og njóta hennar - og gefa ást á móti af öllu hjarta. Hún styrkir mig, og ég er EILÍFLEGA þakklát öllum sem hafa staðið með mér í gegn um árin. Án ykkar hefði ég ekki komist hingað.

Eitt af því sem ég er að tileinka mér er að hlusta á innsæið mitt, því ég trúi því að geri maður það rati maður á þann stað sem manni er ætlað að vera. Áreynslulaust. Upp að vissu marki, auðvitað þarf maður stundum að leggja eitthvað á sig! En ég trúi því að fari maður að fylgja þessari litlu rödd þá komi til manns hlutir sem mann óraði ekki fyrir. Hlutir sem leiða mann á þá braut sem fyrir manni sé ætluð. Braut velgengni, hamingju og þakklætis.

Eftirfarandi er lýsing á ástandinu sem ég upplifði sem þunglyndissjúklingur. Ég vona að með því að deila þessu fái ég tækifæri til að vekja fólk til umhugsunar varðandi þennan alvarlega og þó afar algenga sjúkdóm.

Með því að ræða hlutina opinskátt tel ég að hægt sé að vinna að því markmiði að útrýma fordómum og sýna fólki með sjúkdóminn skilning, umburðarlyndi og kærleika. Við eigum öll okkar kosti og galla en öll eigum við það skilið að vera elskuð. Það er ekkert flóknara!

Ég vil taka það fram að eftirfarandi orð eru ekki skoðanir mínar, heldur sjúkdómurinn að tala í gegn um mig. Hugsanirnar komu fram þegar ég var langt niðri, yfirtóku mig og gerðu mér ókleyft að takast á við þær eða bæja þeim frá.

Ég var orðin það langt leidd að ég var í alvöru farin að hugsa: “Kannski á ég ekkert að vera að

ætlast til þess að ég megi fá hjálp við að vinna mig út úr þessari óhamingju.” “Kannski á ég þetta skilið af því pabbi minn er aumingi og það er okkur sjálfum að kenna fyrir að vera svona miklir aumingjar í þessari fjölskyldu að við lifum í volæði. Að það sé ekki vandamál ríka fólksins þó að pabbi minn hafi komið þannig fram við mig að ég fékk mörg áföll í æsku sem urðu smám saman til þess að áföllin urðu fleiri í lífi mínu sem gerðu það að verkum að ég var algjörlega ófær um að lifa eðlilegu lífi, sjá fyrir mér og öðlast þá hamingju og ná þeim markmiðum sem mig dreymdi um að ná."

 

"Kannski er bara eðlilegt að það sé misjöfnuður í samfélaginu og mér var útdeilt það hlutverk að vera aumingi af því ég fæddist í þannig fjölskyldu. Þá eigi ég bara að taka þessu hlutverki og ekki ætlast til þess að ég fái nokkra hjálp við það að koma mér út úr því hlutverki, að ég sé verri en fólkið sem á peninga og lifir fallegu og eðlilegu lífi og skortir ekkert, og getur vaknað á morgnana og unnið fyrir peningunum. Sem hefur þann lífskraft vegna þess að enginn hefur barið hann niður í þeim, til þess að eltast við draumana sína, þá orku innra með sér til að sjá fyrir sér eitthvað sem þau geta unnið úr höndum og geta gert það. Geta stofnað þetta fyrirtæki t.d, og komið því í gang og stjórnað því. Eignast alla peningana sem því fylgir."

"Verið svona duglegt fólk sem á skilið að sitja á öllum auðæfunum sem þau eiga, af því þau voru svo dugleg að vinna fyrir þeim. Að það sé ekki þeim að kenna að þau hafi alist upp í fjölskyldum þar sem þau fengu stuðning, þar sem fólkið í kring um þau voru líka svona duglegt fólk svo þau ólust upp með það fyrir augunum allan daginn að ef þú vilt gera eitthvað þá geturðu gert það, þau eru með það fyrir augunum á sér allan daginn að ef þú hefur trú á sjálfum þér og ætlar þér eitthvað og ert tilbúinn að vinna fyrir því, þá er það hægt."

En ekki eins og ég sem ólst upp með það fyrir augunum að lífið væri erfitt og ómögulegt og sama hvað ég reyndi þá yrði ekkert úr mér. Ég trúði því ekki alveg svo ég reyndi smá. En ég reyndi bara 50% af því hin 50% orkunnar fóru í að rífa mig niður, svo ég var alltaf ógeðslega þreitt og veik og hafði oft ekki tök á því að gefa mig 100% í neitt.

Ég gaf mig 100% af því ég er dugleg og metnaðarfull, en þegar ég var búin að gefa mig 100% í eitthvað verkefni (sem ég gerði alltaf), þá þurfti ég langan tíma til að jafna mig sem þýddi að ég gaf 0% í einhvern annan þátt í lífi mínu, t.d. vini og fjölskyldu (sem þýddi minna af félagslegum tengslum og meira þunglyndi), í að vinna mér inn pening (keyrði mig út í skólanum og gat ekki verið í vinnu líka- eða ég var í vinnu og féll í skólanum), að halda hreinu í kring um mig og hugsa um mig að öðru leiti, t.d. elda (sem þýddi drasl sem þýddi niðurrif og enn meira þunglyndi.)


"En þetta er allt bara mitt vandamál, þetta er ekki neitt sem ríka fólkið á að spá í. Hvernig ég geti lifað af með 55 þúsund á mánuði. Ég meina, ég á það skilið er það ekki? Ég er aumingi. Ég get ekki unnið með skólanum, ég er 30 ára og er enn í námi. Tónlistarnámi meira að segja. Er það ekki bara mér að kenna líka að ég valdi tónlistarnám? Ég vissi að það væri óstöðugur bransi. Er það ekki bara fólkið sem er ótrúlega duglegt og getur verið í fullri vinnu og samið tónlist sem getur gert eitthvað í tónlist? Er ég ekki bara algjör hálviti að hafa farið út í þetta, vitandi að ég sé svona mikill aumingi, að ég geti aldrei orðið þessi duglega sem meikar það. Á ekki bara fólk sem getur ekki meikað það að fara í eitthvað hagnýtt nám og vinna vinnu þar sem það gerir eitthvað fyrir samfélagið? Þarf nokkuð svona marga tónlistarmenn? Er ekki nóg að hafa bara þessa allra bestu, til að hafa nokkra geisladiska?"


En málið er að ég er ekki aumingi. Pabbi minn er það ekki heldur. Við erum bæði ótrúlega duglegt fólk. Hann var að díla við allskonar þegar ég var að alast upp og hann gerði sitt besta, og ég er með sjúkdóm sem heitir þunglyndi. Ég veit ekki hvort ég fékk þennan sjúkdóm í gegn um blóðið frá pabba mínum eða hvort það var vegna þeirra aðstæðna sem ég ólst upp í. Kannski er það blanda af þessu báðu. Líklega.


En ég hafði alla burði til að ná langt þegar ég var lítil. Ég var orkumikil, jákvæð, vinsæl og hugmyndarík, og hafði stjórnunarhæfileika. Ég stjórnaði fullorðna fólkinu og börnunum. Ég hreif alla með mér inn í ævintýraheima sem ég bjó til. Ég hló mikið, lék mér, ég söng og dansaði og ég var alltaf að teikna. Ég var hæfileikarík, teiknaði mjög vel og var mússíkölsk. Ég var klár, og fljót að læra að lesa. Foreldrar mínir hvöttu mig áfram og hjálpuðu mér með heimanámið svo það varð hluti af daglegu lífi að vinna heimavinnuna. Þegar ég varð eldri fékk ég hátt á prófum og stóð mig mjög vel í náminu. Sem unglingur var ég hávaxin og grönn og falleg.


Ég hafði í raun alla burði til að ná langt í lífinu. En ég fékk þennan sjúkdóm sem unglingur og vegna þess að það var aldrei gripið inn og blaðinu snúið við, þá grasseraði hann endalaust.


Ég sá í raun aldrei hversu rosalega veik ég var fyrr en loksins fyrir nokkrum mánuðum síðan þegar ég fór í þunglyndispróf. Þá sá ég að þetta er rosalegur sjúkdómur sem ég hef dragnast með í gegn um árin og hann dregið úr mér allan þrótt. Ég ákvað líka að ég myndi ekki slaka á fyrr en ég væri búin að reyna öll ráð sem mér dytti í hug til að vinna bug á þessum sjúkdómi. Ég er svo ÓTRÚLEGA heppin að eiga móður sem styður mig í einu og öllu, og hefur hún verið mér ómetanleg hjálp í þessari baráttu þar sem hún var tilbúin að styrkja mig fjárhagslega til að takast á við þetta. Það er mikill peningur sem fer í þetta.


Síðustu mánuði hef ég verið óvinnufær vegna þessara veikinda, samt dragnaðist ég í gegn um skólann, með miklum herkjum, vegna þess að starfsmenn skólans sýndu mér skilning og vegna þess að móðir mín gat stutt mig fjárhagslega. Annars hefði ég þurft að fresta náminu og lifa á bótum. Það var ekkert annað sem ég gat gert þessa mánuði nema vinna mig út úr erfiðleikunum. Það var vinnan mín.


En fyrsta skrefið er að átta sig á vandamálinu. Vegna þess að ég áttaði mig ekki á hversu stórt vandamál ég var að glíma við og vegna þess að samfélagið segir okkur að þunglyndi sé aumingjaskapur og aumingjaskapur sé eitthvað til að skammast sín yfir, að við eigum að geta gert allt sem við viljum ef við erum nógu ákveðin, og vegna þess að ég er ótrúlega ákveðin manneskja, þá einhvern vegin drattaðist ég í gegn um lífið, haldandi að ég væri alveg eðlileg eins og allir hinir, að ég eigi að geta lifað lífinu eins og þeir og gert það sem þeir gera. Og alltaf þegar það tókst ekki þá reif ég mig niður fyrir aumingjaskapinn. Þetta er eilífur vítahringur.


Ég endaði í andlegu gjaldþroti. Ég fékk taugaáfall.


Þetta spinnur endalaust upp á sig. En ég hef ýmsa kosti sem hafa bjargað lífi mínu, t.d. það hvað ég er ákveðin. Ég neitaði að gefast upp. Ef ég hefði ekki þennan eiginleika hefði ég kannski ákveðið að taka eigið líf einhvern tíman á lífsleiðinni. Þá væri ég ekki hér til að segja þessa sögu.


Hversu margir hafa ekki mömmu til að styðja sig andlega og fjárhagslega? Hversu margir búa ekki við þá blessun að hafa fengið ómetanlegan stuðning í barnæsku sem þau búa við alla æfi vegna þess að það skapaði ákveðni sem drífur þau áfram?


Hversu margir gefast upp?


Hversu margir telja það vera þeim að kenna að þeir lentu hér, eða að minnsta kosti að þau eigi það skilið og engin leið sé til að grafa sig upp úr því?


Það er örugglega erfiðasta verkefni sem nokkur þarf að glíma við, að vinna sig út úr svona áföllum. Að rifja upp hluti sem er svo sárt að hugsa um að maður verður veikur við það. Við getum ekki tekist á við þessa hluti nema við fáum gífurlegan stuðning frá einhverjum, hvort sem það eru manns nánustu eða einhver utanaðkomandi t.d. sálfræðingur. Það er ekki fyrr en þá sem við getum loksins fundið fyrir þeim frið og þeirri ró sem felst í því að trúa því innilega að maður sé öruggur, algjörlega öruggur.

Það er ekkert líf að lifa í ótta alla daga. Ég óska þess ekki neinni sál. Og ég skil vel að fólk sjái sér ekkert annað fært en að taka eigið líf vegna þess að það ræður ekki við að takast á við þetta hjálparlaust.


Mér finnst alveg hræðilegt hvernig samfélagið hefur þróast, og þessar viðteknu venjur og hugmyndir um duglegt fólk og aumingja. Við erum öll bara fólk. Mannlegar verur. Lífverur. í alvöru, við erum ÖLL EINS. Við lifum ólíkum lífum, við fáum ólík tækifæri, það er eini munurinn. Við erum öll frábær, við erum öll hæfileikarík og dugleg, ef við fáum tækifæri til að sjá það og trúa því, og tækifæri til að blómstra.


Eigum við sem erum í þeirri stöðu að þurfa að vinna okkur út úr erfiðleikum það í alvöru skilið að lifa verra lífi? Er það bara allt í lagi að við fremjum sjálfsmorð? Lifum í eymd?


Sú hjálp sem nú er til staðar er aðeins til fyrir tilstilli mikilla barrátta í gegn um söguna. Verkalýðsfélög, ódýr læknisþjónusta, og bætur. Það er ekki sjálfsagt og sífellt er verið að reyna að gera lítið úr þessu og draga þetta til baka. Einkavæða allt. Tala um skatta á neikvæðan máta.


Hvað þýðir misjöfnuður? Fyrir fólk sem situr á sínum háa hesti með sínar gullhrúgur þá er það bara jákvætt er það ekki? En hafið þið hugsað út í hvað þetta þýðir fyrir fólk með geðræn vandamál? Er það í alvörunni í lagi að fólk þjáist allt sitt líf?


Ég gerði ekkert rangt. Ég fæddist og ég lifði. Og ég er einhvern vegin og eitthvað gerðist. Og ég kom út sem taugahrúga. Ég valdi það ekki. Ég kann ekki að stjórna því.


Ef þessi þróun heldur áfram þá þýðir það bara enn fremur að fólk eins og ég hefur engin tól til að takast á við sína erfiðleika, og við fremjum sjálfsmorð eða lifum í eymd allt okkar líf. Eða eitthvað ennþá verra, eins og þegar fólk leiðist út í glæpi og eiturlyf. Þá er fólk beinlínis farið að vinna samfélaginu mein.


Af hverju ekki frekar að reyna að efla þessar og fleiri lausnir fyrir fólk, gera hlutina þannig að það verði aðeins auðveldara að vinna sig út úr erfiðleikunum því ég get alveg sagt ykkur af eigin raun að það er ÓGEÐSLEGA erfitt að takast á við svona hluti. Það er margra ára vinna, og tekur á andlega og líkamlega.


Hversu mikið betra fyrir samfélagið væri það, ef þessu fólki væri veittur sá stuðningur sem þau þurfa til að hjúkra sér aftur til heilsu og styrks. Til að finna hvar hæfileikar þeirra liggja og efla þannig efnahaginn? Í stað þess að þau séu “byrði á samfélaginu” vegna “aumingjaskapar síns”.


Ég er kannski draumóramanneskja en ég held að þetta sé hægt.


Ég ætla að enda á tilvitnun úr einu ástsælasta barnaleikriti okkar Íslendinga, sem við notum gjarnan til að kenna börnunum okkar fallegar og réttar hugsanir (sem við erum miður dugleg að tileinka okkur sjálf!!)


“Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.”

Ást og friður til ykkar allra <3

 

 

 

P.s. Ef þið viljið deila greininni á facebook til þess að stuðla að viðhorfsbreytingu varðandi sjúkdóminn eða þið teljið hana geta hjálpað einhverjum er það guðvelkomið <3

 

 


 


Hversu mikið "vitum" við í rauninni?

Ég er mikið búin að vera að hugsa um þetta upp á síðkastið. Ég stend alltaf staðfast í þeirri trú um að ég viti ekki neitt og aðrir viti betur. Samfélagið okkar er líka svolítið uppbyggt með þessu hugarfari. Allt sem við "vitum" vitum við af því einhver annar sagði okkur það, þannig að hversu mikið getum við í rauninni vitað þegar uppi er staðið?

Okkar þjóðfélag byggist mikið til á því að vísindin séu hinn heilagi sannleikur. En ef maður spáir aðeins í því, þá er eina sönnunin okkar fyrir því að vísindin segi satt sú að einhver annar sagði að þau væru sönn. Þá er hægt að leggja fram þau rök að það sé nú hægt að skoða niðurstöður rannsóknanna. Jú það er satt, en hver skrifaði þessar niðurstöður? Einhver þurfti að gera það. Ef það var tölva þá var það samt maður sem hannaði tölvuna og maður sem setti hana saman. Ef það var vél sem setti tölvuna saman þá var það samt maður sem hannaði og bjó til vélina sem bjó til tölvuna.

 Það hefur komið upp aftur og aftur í sögunni að hinir vitrustu menn heims höfðu rangt fyrir sér.

Þá er ég alls ekki að segja að vísindin séu ósönn. Ég er bara að segja að í rauninni vitum við ekki neitt. Við getum aldrei vitað neitt með fullri vissu. Eða hvað?

Mín niðurstaða á þessari vangaveltu er þessi: Það eina sem við getum verið fullviss um er hvernig okkur líður akkúrat í augnablikinu. Ef við þekkjum tilfinningar okkar getum við staðfest hvaða viðbrögð líkaminn sýnir við vissum aðstæðum og tekið mið að því.

Fylgja innsæinu.

Þetta eru engin vísindi. En þetta er aldagömul hugmynd. Er hún nokkuð það röng?

Líkaminn okkar er jú bara lífríki er það ekki? Og eina markmið lífríkis er að lifa af. Er þetta ekki bara þannig að líkaminn okkar er byggður úr milljónum frumna sem allar eru að vinna að einu og sama markmiðinu? Að hjálpa lífríkinu að lifa af. Er þá ekki full ástæða til að hlusta á þessar frumur þegar þær láta í sér heyra? Er kannski hausverkurinn að reyna að segja okkur eitthvað? Magaverkurinn?

Ein vangavelta í lokin: Afhverju virka lyfin sem læknavísindin gefa okkur? Er það af því þau eru svona öflug eða er það kannski líka að hluta til af því við treystum þeim?

Margir velta þeirri spurningu upp þegar talað er um óhefðbundna læknisþjónustu að ástæða þess að hún virki sé af því fólk trúi svo mikið á þetta. En ef þetta virkar skiptir þá einhverju máli hver ástæðan sé? Og hver segir að sama geti ekki gilt um hin hefðbundnu lyf. Samfélag okkar er byggt upp í þeirri trú að þau virki. Hver segir að ástæðan fyrir því að þau geri það, sé ekki sú að við trúum því að þau geri það?

Ég er heldur ekki að segja að ástæðan fyrir því að þau virki sé af því við trúum því. Ég trúi því að þau virki. Ég er aðeins að velta fram þeirri hugmynd að kannski vitum við ekki alveg eins mikið og við höldum að við vitum.

Kannski virka líka óhefðbundin læknavísindi, sem ég hef líka mikla trú á.

En ég veit líka að ég veit ekki neitt.

Og það eina sem ég treysti eru viðbrögð líkama míns. 


Ástar-ótti... Nýja fóbían??

Ég las þessa grein í kvöld: http://thoughtcatalog.com/ryan-oconnell/2012/12/you-need-to-go-after-the-things-you-want/

Hún fjallar um það hversu tilfinningalega dofin við erum orðin til þess að standast kröfur deit-menningarinnar. Við eigum alltaf að virka svo cool, róleg og yfirveguð, annars erum við álitin geðveik, needy eða of tilfinningasöm. Sem kallar á þau viðbrögð að við deyfum tilfinningar okkar til þess að þær séu ekki of skýrar. Og höfum svo ekki hugmynd um hvað hinum aðilanum býr í brjósti af því hann er að gera slíkt hið sama. Hvenær varð eiginlega glæpur að búa yfir tilfinningum? Eins og fram kemur í greininni þá er það augljóslega hluti af því að vera manneskja að eiga frekar stórann bakpoka fullann af allskonar tilfinningum. Mörg okkar kunna ekki einu sinni á þessar tilfinningar lengur, svo aftengd erum við orðin. Við vitum ekki hvernig okkur líður, hvað við viljum, og höfum ekki hugmynd um það hvernig við eigum að bregðast við ef einhver annar þorir að sýna sínar tilfinningar! Það er eins og það sé búið að hleypa út einhverju risastóru leyndarmáli sem við höfum eytt rosalegri vinnu í að halda leyndu. (psst! "Við erum tilfinningaverur".) 

Afhverju erum við svona hrædd við að elska? Það eina sem mér dettur í hug er að við getum átt það á hættu að særast. Jú, það er vissulega frekar óskemmtileg lífsreynsla. En það er einmitt það. Það er lífsREYNSLA. Það er hluti af því að vera manneskja. Hluti af lífinu. Og verður líka til þess að við þroskumst. Ef við kjósum að takast á við særindin en ekki hlaupa burt frá þeim á einhvern hátt (með áfengi, eiturlyfjum, kynlífi, nammi osfrv.) 

Ég hef gert sjálfa mig auðsæranlega oftar en einu sinni, og oftar en einu sinni hef ég særst á því. Og lokað mér aðeins meira eftir hvert sár í von um að læra "leikinn" og snúa á örlögin, koma í veg fyrir að særast aftur. Og þó hef ég gert það aftur, gert mig auðsæranlega, eftir þessar afdrifaríku ákvarðanir, og særst. Aftur. Ég held að ég sé bara frekar mikil tilfinningavera. Ég bara get ekki læst hjartanu endanlega inni í geymslu - það sleppur alltaf út ... :)

En svo þegar strákur þorir að sýna mér athygli þá hleyp ég yfirleitt í hina áttina! Hvað er það eiginlega? Og ég veit fyrir víst að ég er alls ekki ein. Ég held að örugglega svona 99% vinkvenna minna og kunningja séu á sama máli. Og við bara skiljum þetta ekki!

En eru þetta ekki bara tvær afleiðingar af einu og sama vandamálinu? Við erum hrædd við að elska.

Geri hver það sem hann vill, en ég ætla að æfa mig í að vera óhræddari við að sýna tilfinningar mínar :)

Ég held að ef við gerðum það öll yrði heimurinn að ögn betri vistarverum <3 

Ást og friður! 

 

 


(ó)Menningar-nótt?

Ég átti frábært kvöld. Það var Menningarnótt. Ég er tónlistarkona. Mér finnst menning skemmtileg. Finnst það ekki flestum?

Nokkrir vinir mínir komu fram á hinum ýmsu sviðum og ég reyndi að sjá sem flesta. Tvær sungu ljóðasöng í kirkju. Tvær gerðu gjörning í pinkulitlu vélarrými á gömlum báti. Ég fékk að taka óbeinan þátt í öðrum gjörningnum þar sem lag í minni útsetningu var hluti af sýningunni. Það var skemmtilegt.

Ég snýkti mér far með bátnum þegar hinir ýmsu listamenn sem tóku þátt í Vinnslunni fóru á haf út til þess að njóta flugeldasýningarinnar margrómuðu frá nýju sjónarhorni. Það var mjög gaman að sjá Reykjavík frá þessu sjónarhorni. Sérstaklega Hörpu. Flugeldasýningin var flott að vanda, en vindáttin lék okkur grátt þar sem reykmökkurinn frá flugeldunum skyggði á flugeldana sjálfa stóran hluta sýningarinnar. O jæja. Þetta var samt flott. Gaman að sjá flugeldana glampa á Hörpu:)

Heyrðu, svo kemur loka-atriði þessarar Menningarnætur. Það var spuni í boði hóps af unglingum. Ég hafði ætlað að koma við í afmælispartýi vinkonu minnar eftir flugeldasýninguna. Mér mistókst. Síminn minn var batteríslaus og ég var ekki viss hvar ég kæmist inn í húsið þar sem partýið var. Ég vissi ekki alveg hvar partýið var heldur. Ég hitti tvo unga drengi sem leyfðu mér að hringja hjá sér í 118, og pissuðu svo úti í horni.

Vinkona mín var ekki skráð hjá 118 svo ég tók þetta sem merki um að nú ætti Vala að halda heim á leið. Ég setti upp heyrnatólin og hlustaði á Sigur Rós meðan ég rölti í gegn um miðbæinn. Ég hugsaði ekki mikið um hvað var að gerast í kring um mig heldur naut þess að ganga heim eftir góða innspýtingu af eðal-menningu kvöldsins í góðum félagsskap. 

Ég kom við í 10-11 og keypti mér smoothie. Ég stóð í augnablik við borðið í 10-11, sem er staðsett fyrir framan búðargluggann. Ég horfði út um gluggann og þar var hópur ungmenna. Þeir voru að hlæja og hafa gaman. Ég leit niður í sekúndubrot og fannst í annað sekúndubrot að ég hafi séð typpið á einum af þessum ungu drengjum. Ég afréð að þetta hlyti að hafa verið mistúlkun augna minna. Ég fékk mér sopa af smoothi-inum. Ég tók eftir því að strákurinn stóð við gluggann og horfði á mig og svo niður á klofið á sér, ítrekað, til skiptis. Og hló óstjórnlega. Krakkarnir í hópnum hlógu líka, og horfðu á mig eins og þau tryðu ekki sínum eigin augum. Ég áttaði mig fyllilega á hvað var í gangi en ákvað að taka ekki þátt í þessu. Ég horfði fast í andlitið á stráknum en ekki niður. Þau hlógu ennþá meira. Og urðu sífellt meira hissa. Ég sagði: "En hvað þetta er fyndið", yppti öxlum og labbaði út og hélt mína leið.

Ekki sjokkeruð beint. En hissa. Er ég bara svona saklaus eða hafa tímarnir eitthvað breyst frá því ég var 18 ára? Aldrei varð ég vitni að því að strákur beraði sig fyrir ókunnugri konu í búðarglugga á mínum yngri árum.

Ég veit ekki. Mér fannst þetta vægast sagt skondinn endir á hinni margrómuðu Menningarnótt. Unglingadrykkja? Já. Það er gömul saga. En typpasýningar í búðargluggum? Nú segji ég bara eins og gömlu konurnar: "Ég hef aldrei......!!!!" 


Óðurinn til magans míns

Ég hata magann minn. Ég hef alltaf hatað hann. Nei, það er reyndar ekki alveg rétt. Ég hataði hann ekki þegar ég var barn. En alveg síðan ég fór að spá í útliti, sem hefur líklega verið eitthvað í kring um 11-12 ára (ef ekki yngra - let&#39;s face it), hef ég hatað magann minn.

Ég er þannig vaxin að ég er með granna og langa leggi. Ég er þakklát fyrir það, þetta þykir víst voða fallegt í okkar samfélagi. Þetta fékk ég að vita þegar ég var 13 ára og fór í mini-pils í fyrsta skipti. Mamma horfði á mig og sagði "sjá þessa leggi!". Mamma sem by the way er algjör feministi og ól mig upp með þær hugmyndir að útlitið skipti ekki máli heldur gáfurnar og að fegurðin kæmi að innan. Ágætis tilraun hjá henni en því miður er ég alin upp á jörðinni þar sem önnur öfl en mæður hafa ýmis áhrif á ungar stúlkur í mótun. Sterkari öfl sem hafa meira vald á hugum ungra stúlkna en fallegar tilraunir mæðra til að fæða okkur á hugmyndum sem breyta okkur úr ungum stúlkum í sterkar, sjálfsöruggar konur. 

Ég kynntist því hvernig "sætu stelpurnar" í skólanum hugsuðu. Ég sá bíómyndir, tónlistarmyndbönd og fleira frameftir þeim götunum. Mig langaði að vera með mjóan maga. Þetta var eitthvað sem mikið var talað um í vinkonuhópnum. Flatur magi. Ég var ekki með flatan maga. Ég var með bumbu. Ég var ekki feit. En ég var með bumbu. Mér fannst ég feit. Ég vildi flatan maga.

Nú er ég 30 ára gömul. Ég horfi á magann minn í speglinum nánast á hverjum einasta degi, stundum oftar en einu sinni. Ég hugsa yfirleitt eitthvað ljótt um hann því mér finnst hann ekki nógu flottur, ekki nógu flatur, of mikil bumba. Ég er grönn, en ég er ekki með flatan maga. Og mig langar að vera eins og fyrirsæturnar, mig langar að vera með flatan maga! Ennþá! Eftir meira en 15 ár er ég ennþá að hugsa um þetta!

Og by the way þá eru fyrirsæturnar sem ég er að miða mig við 14 ára. Þær eru ekki konur, þær eru stelpur. Það er ekki líkamlega mögulegt fyrir mig að vera eins vaxin og þær. Ég kæmist því næst með því að svelta mig, sem er eitthvað sem ég hef líka prófað oftar en einu sinni. Það er voða gaman að vera mjór en það er þreitandi að vera alltaf svangur, að ég tali nú ekki um sjúkdómana sem herja á mann vegna lélegs ónæmiskerfis. 

Ég er með ristilkrampa. Ég fæ reglulega slæma magaverki. Ég á erfitt með meltingu og er viðkvæm fyrir ýmsum matartegundum. Glútenóþol, mjólkuróþol og viðkvæm fyrir hvítum sykri. Ef ég borða ekki rétt þá blæs ég út og lít út fyrir að vera ólétt. Eins og þið getið ýmindað ykkur þá er það ekki neitt sem lætur mig elska magann minn meira! Ó nei! Ég bókstaflega HATA hann þegar þetta gerist.

Ég hef líka kynnst alls konar óhefðbundum lækningaraðferðum og er farin að trúa því að hugsanir og andleg líðan tengist líkamlegri líðan alveg óskaplega mikið. Ég er farin að trúa því að það sé ekki tilviljun að ég hati magann minn og að ég sé alltaf með ristilkrampa og illt í maganum.

Það má kalla það væmni en ég trúi því að við þurfum að elska líkamann okkar til þess að hann virki sem best. Að við þurfum að vera þakklát fyrir allt sem hann gerir fyrir okkur. Það er ekkert sjálfsagt að vinna allan daginn, stundum úr hlutum sem rosalega erfitt er að vinna úr, eins og maginn okkar gerir fyrir okkur. Við förum ekkert alltaf vel með magann okkar og ætlumst til þess að hann vinni úr allskonar matvörum sem erfitt er að vinna úr, t.d. unnum kjötvörum, áfengi, sælgæti o.fl.

Mig langar að læra að elska magann minn. 

Mig langar að losna undan oki staðlaðra útlitsýminda um fegurð.

Mig langar að finnast ég falleg alveg eins og ég er, en ekki eins og ég vildi að ég væri. Mig langar að finnast ég falleg án þess að vera með næringarskort.

Here&#39;s trying. Eitt skref í einu.

Þetta blogg er skref nr. 1 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband