Fréttirnar og pólitík - hversu mikilvægt?

Ég hef aldrei verið dugleg að fylgjast með fréttum.

Svo líður mér alltaf mjög kjánalega þegar fólk er að ræða eitthvað sem er að gerast í heiminum, og ég hef ekki hugmynd um hvað þau eru að tala um.

Ég hef heldur aldrei verið dugleg að horfa á heimildarmyndir eða lesa málefnaleg skrif. En ég er uppalin í fjölskyldu sem fylgist með fréttum, les málefnaleg skrif, horfir á heimildarmyndir og ræðir heiminn, stjórnmál og fleiri hluti sem "skipta máli". Þessvegna hef ég alltaf barið sjálfa mig niður fyrir að vera ekki duglegri að "passa inn í rammann" sem fjölskyldan mín er búin að setja mér. "Svona á maður að vera". Eða allavega "svona erum við í þessari fjölskyldu", "við erum svona fólk". En fjölskyldan mín er að sjálfsögðu ekkert að segja mér að vera öðruvísi en ég er. Þetta er skynjun mín á umhverfi mínu, raunveruleika mínum. Að ég sé ekki "nógu góð, klár, dugleg að afla mér upplýsinga".

Ég tek þátt í umræðunni og veit margt um margt. Líklega á það stóran þátt að vera alin upp í þessu umhverfi, þar sem ég læri að hugsa á gagnrýnin hátt, og sérstaklega að gagnrýna það sem er að gerast í stjórnmálum. Ég hef skoðanir. En margar, ef ekki allar af mínum skoðunum eru lærðar. Ég heyrði skoðanir foreldra minna og ég tók því sem heilögum sannleika því að það er það sem við gerum sem börn.

Síðustu ár hef ég soldið leyft mér bara að fylgjast ekki með. Satt best að segja hef ég eiginlega misst trúna á stjórnmálum. Mér finnst sagan hafa sýnt okkur að þetta kerfi bara virkar ekki, því miður. Ég hef haldið því fram í sirka 2 ár að það sé algjörlega nauðsynlegt að eitthvað nýtt gerist. Hvað það er, veit ég ekki. En ég tók þá ákvörðun að leyfa mér að einbeita mér að því sem er að gerast innra með mér og sleppa því að hafa áhyggjur af því sem er að gerast fyrir utan mig, þá meðal annars stjórnmálum. Að sjálfsögðu hef ég ennþá skoðanir, en ég nenni ekki að leyfa þeirri neikvæðu orku að búa innra með mér sem myndast við það að hugsa um þetta eða ræða það. 

Ég fór svo núna að hugsa um það hver ástæðan fyrir því gæti verið að ég hefði aldrei fylgst mikið með fréttum eða kynnt mér meira "það sem skiptir máli".

Í fyrsta lagi þá er ég mjög andleg vera. Við erum auðvitað öll andlegar verur. En það er stór hluti af mér, sem ég hef aldrei opnað almennilega á, vegna þess að móðir mín er trúleysingi og mjög skeptísk á allt svona andlegt. Þar af leiðandi hefur stór hluti af mér alla tíð verið sannfærður um að allt sem við kemur andlegum málum sé bull og vitleysa. (Þá á ég að sjálfsögðu ekki við andlegt eins og málefni sálarinnar, heldur allt sem segir að það sé eitthvað til sem ekki er hægt að sanna með vísindunum). Auðvitað varð ég ekki vör við hversu næm ég er, t.d. á orku annara, þegar ég var búin að ákveða að þetta væri allt saman bull. Ég hleypti því ekki einu sinni að. Um leið og ég heyrði fyrst talað um orku, og hvernig sé hægt að finna orkuna í herberginu t.d. fór ég að taka eftir því að ég fann þetta alveg. Samt var 50% af mér að hugsa að konan sem var að segja þetta við mig væri eitthvað klikkuð.

Ég tók þá ákvörðun í byrjun þessa árs að bjóða þennan hluta af mér velkominn. Ég hef lengi barist við þetta en ég áttaði mig á því þegar árið byrjaði að ég gæti neitað því að eilífu að ég finndi fyrir þessum hlutum, en það þýddi ekki að ég myndi hætta að finna fyrir þeim. Ástæðan fyrir því að ég vildi ekki leyfa mér að fara þangað var sú að ég óttaðist álit annara. Ég vildi ekki vera skrítin. Basically. Ég sá fyrir mér hvernig svona spiritual fólk og hippar eru gagnrýndir í bandarískum kvikmyndum, og hvernig mamma talaði um að þetta væri bara bull. Og ákvað að ef ég fylgdi þessu eftir og leyfði mér að opna á þennan andlega hluta af mér, þá yrði ég útskúfuð úr samfélaginu. Ég yrði "þessi skrítna". En þegar ég varð fyrir þessari opinberun þá fann ég líka svo sterkt að ég YRÐI að leyfa mér að fara þangað, því það er SÚ SEM ÉG ER, og á meðan ég neita mér um að fara þangað þá lifi ég í innri baráttu við sjálfa mig, og reyni að móta sjálfa mig í eitthvað sem mér finnst samfélagið krefjast af mér. Þá líður mér aldrei vel í neinu sem ég geri. Það er bara svo einfalt. Svo ég leyfði mér að fara þangað.

Og það gerðist dálítið alveg dásamlegt. Ég komst að því að það er heilt samfélag á Íslandi sem iðkar andlegt líferni. Stækkandi samfélag. Samfélag sem krefst einskis af mér, en tekur mér opnum örmum alveg eins og ég er.

Ég hef líka fundið innri frið og andlega ró sem ég hef aldrei kynnst áður. Andlegt líferni rúlar!!! :)

Í öðru lagi held ég að stór hluti ástæðunnar fyrir því að ég hef ekki verið duglegri að skoða málefnalega hluti sé sá að ég er bara svo ótrúlega mátlaus gagnvart því sem er að gerast í heiminum. Ég get bölvað og öskrað og barið í borðið en ekkert breytist. Ég gæti auðvitað gert eitthvað eins og að fara út í stjórnmál sjálf, en eins og ég var búin að nefna áður hef ég misst trúna á þessu kerfi - einnig sem þunglyndi er ekki besti félagsskapurinn þegar takast skal á við stóra drauma og hugsjónir. Ég held það sé í rauninni eðlileg viðbrögð að forðast það sem lætur manni líða illa, og mér líður bara illa þegar ég heyri og sé hvað er að gerast í heiminum. Nóg er þá af sársaukanum innra með mér án þess að ég sé að bæta sársauka heimsins á hann!

Í þriðja lagi held ég að hluti af ástæðunni sé sá að einhver hluti af mér ákvað einhvern tíma að konur ættu ekki að vera klárar. Bara sætar. Ég veit ekkert hvaðan þetta kom, því móðir mín, feministinn sjálfur, hefur sko alls ekki kennt mér þetta! Ég kenni samfélaginu um, þessum földu skilaboðum sem við sjáum í kvikmyndum, þáttum og auglýsingum. Við tökum ekki einu sinni eftir því að við gerum þetta að okkar eigin hugsunum. Allavega er mjög stutt síðan ég áttaði mig á þessu hjá sjálfri mér. Ég gæti talað endalaust um þetta því ÞETTA GERIR MIG SVO SANNARLEGA REIÐA!!!!!! En...... Namaste... anda inn.. anda út.... ;) - Já ég held að hluti af mér hafi sótt í að lesa frekar tískublöð, læra að mála mig til að fela ófullkomleika minn og ýkja það sem er fallegt við mig, og að sama skapi að velja föt sem gera slíkt hið sama. Jájá.. Allt gott og blessað, ég sé ekkert eftir því, það er ágætt að kunna að gera sig fallegan :) EN mér finnst sorglegt að ég hafi neitað sjálfri mér um það að iðka málefnalegan og andlegan þroska líka. En það er víst allt eins og það á að vera og ég hef bara ratað inn á rétta braut í nokkrum skrefum. Allt sem ég hef lært hefur komið mér þangað sem ég er í dag og ég er þakklát fyrir það allt. :)

 

Ahhhhhh...... Mér líður vel :)

 

P.s. ef einhver er með spurningar um andlega hluti sem hægt er að iðka á Íslandi má sá hinn sami endilega senda mér skilaboð <3

 

Ást og friður <3 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband