Vinkonur

Ég held ég hafi á sínum tíma verið komin með ágætis orðspor fyrir að þora að tala um hluti sem fæstir þora að tala um, að minnsta kosti á obinberum vetvangi. 

En ég hef einnig gífurlega sterka trú á því að það sé rétt að fylgja innsæinu sínu, og leyfa sér að ganga í gegn um breytingar sem eru órjúfanlegur hluti af lífinu.

Ég hef af þeim sökum bloggað mjög lítið síðustu 2 ár, vegna þess að mér þótti ekki lengur þægilegt að tjá mig á þennan máta. Síðustu vikur og mánuði hef ég þó fundið kynda undir gömlum blossa.

Það sem ég er að takast á við þessa dagana er félagsfælnin mín. Eða eins og ég vil eiginlega kalla hana "vinkonufælni", og hef ég tekið eftir því að hún lýsir sér nánast alveg eins og sambandsfælni. Ég er hinsvegar ekki með sambandsfælni, en hegða mér nákvæmlega eins og sambandsfælin manneskja í samskiptum við alla nema þann sem ég er skotin í/að deita/maka minn.

Síðan ég fór að vinna í sjálfri mér, hef ég séð ákveðið mynstur í því hvernig hlutir, eða vandamál "fara" úr lífi mínu. Hvernig ég næ að þroskast út úr skaðlegu hugsanamynstri og/eða hegðunarmynstrum. Það er að sjá vandamálið(eða hegðunina sem ég vil breyta), sjá óttann sem tilhugsunin um breytingu fylgir, og finna svo kjarkinn til að takast á við vandamálið engu að síður. Þrátt fyrir þann gífurlega ótta sem iðulega fylgir því að breyta einhverju sem maður er búinn að vera fastur í lengi, oft nánast alla ævina. Og sleppa svo tökunum. Og leyfa því að gerast. Vera vakandi. Taka eftir því hvernig mynstrið kemur upp í lífinu. Og taka eftir hegðuninni sem fylgir. Sjá svo óttann á bakvið hegðunina. Og sýna sér umburðarlyndi. Það má ekki gleyma því. Muna að það er alltaf ástæða fyrir ákveðinni hegðun, og í 99% tilfella er lítið hrætt barn á bak við óttann, sem skilur ekkert af hverju það er hrætt. Og ef við förum að rífa okkur niður, þá verður þetta litla hrædda barn bara hræddara, ringlaðra og sorgmæddara.

Núna áðan var ég að gefa barninu mínu brjóst og hugleiða um leið, og þá sá ég þetta allt í einu svo skýrt. Félagsfælnina mína.

Þetta er svo einfalt. Ég óttast að setja mörk. Ég óttast að ég sé ekki nógu ákveðin til að geta sett mörk. Ég óttast að fæla fólk frá ef ég set mörk. Innst inni vil ég alltaf vera fullkomin, þeas. gera allt rétt. ALLT. Þar með talið er að vera góð vinkona. En hvað er góð vinkona? Hver er skilgreiningin á "góðri vinkonu"? Hver og einn þarf að sjálfsögðu að skilgreina það fyrir sjálfan sig. Ég fór að hugsa "hver er mín skilgreining á því hvað er að vera góð vinkona?" Og áttaði mig á svolitlu frekar fyndnu. Mín skilgreining á því að vera góð vinkona er bara hundúrelt!!! Hún er mynduð, ómeðvitað, úr upplýsingum sem ég týndi saman á lífsleiðinni, þegar ég var 5 ára, 9 ára, 12 ára, 16 ára. En líklega ekki lengur en það. Og ég held að það hljóti að vera deginum ljósara að skilgreining á "góðri vinkonu" hlýtur að vera allt öðruvísi hjá fullorðinni konu en hjá 9 ára stelpu. Haha, ég get ekki annað en hlegið þegar ég spái í þessu. Hugmyndir mínar hafa bara ekkert þroskast, því ég hef aldrei spáð í þessu.

 

En þá sé ég líka að ég get skilgreint þetta upp á nýtt. Ég get verið góð vinkona með því að hafa samband við ákveðna prósentu af vinkonum mínum mjög reglulega, innsta hring, og átt svo aðrar vinkonur sem ég hef minna samband við. Ég get verið góð vinkona með því að vera gefandi í samskiptum mínum við alla, ekki bara þær manneskjur sem ég lít á sem vinkonur mínar. Og það er í lagi að svara ekki símanum, það er í lagi að hringja ekki til baka, og það er í lagi að segja nei ef einhver vill hitta mig. En það er líka í lagi að hleypa fólki inn í líf mitt. Það er líka í lagi að svara símanum eða hringja til baka! Ég þarf ekki að vera hrædd. Því ég kann að setja mörk. Og það má setja mörk. Ég er ekki að særa fólk ef ég segji nei, þó að 9 ára stelpan innra með mér haldi það ef til vill. 

Ég vona að þessi uppgötvun mín geti hjálpað einhverjum sem kannast við svipaðan ótta hjá sér :)

 

Ást til ykkar allra!

 

Namaste <3


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband