Móðir bloggar - Fæðingarþunglyndi.

Ég hef áður bloggað um þunglyndi. Ég hef bloggað um eigin reynslu af þunglyndi og ég hef komið með eigin pælingar varðandi hugtakið. Nú langar mig aftur að blogga um þunglyndi. En í þetta skiptið langar mig að tala um fæðingarþunglyndi, sem er eitt af þeim orðum sem maður heyrir oft talað um í dag.

Ég vil nefnilega meina að þetta sé ekki þunglyndi. Það fer reyndar eftir því hvernig maður skilgreinir hugtakið. Mín hugmynd er sú að þessi tilfinningarússúbani sem margar konur upplifa eftir að hafa fætt barn, sé algjörlega, og fullkomlega eðlilegur. Þetta er mitt mat. Mín upplifun.

Að vísu er ég ennþá í þessari hringiðu sem margir vilja kalla fæðingarþunglyndi, svo ég er kannski ekki alveg dómbær um það ennþá hvað þetta þýðir. En ég tel mig hafa nokkuð skýra mynd af þessu loksins.

Skoðum aðeins hvað kona, sem er með nýfætt barn í fanginu, hefur upplifað. Hún hefur verið með “sníkjudýr” inni í sér í 9 mánuði, sem tók af fæðunni sem hún borðaði, en gerði hana líka oft á tíðum mjög þreitta. Hún þurfti líka að vakna oft á nóttu til að fara að pissa af því barnið þrýsti á þvagblöðruna hennar. Svo var erfitt að koma sér þægilega fyrir með krílið í maganum, svo hún hefur ekki sofið vel í margar vikur, jafnvel mánuði. Hún hefur jafnvel kastað upp. Jafnvel oft. Henni hefur verið óglatt, hún hefur haft lítið þol, og verið þung í skrefum í margar vikur eða mánuði (fer eftir því hversu mikil áhrif barnið hefur á líkama konunnar.) Hún hefur eflaust samt hugsað með sér með tilhlökkun hversu yndislegt það yrði að fá krílið í hendurnar, og ef til vill fengið nett samviskubit yfir því að hugsanir um erfiðleika tengda meðgöngunni hafi þvælst með. Hún hefur eflaust hlakkað til að “losna við” barnið úr líkamanum, fá líkamann sinn aftur, og finna fyrir því að hún geti verið aðeins léttari á fæti aftur. Kannski hefur bæst ofan á þetta að pabbinn hefur ekki verið nógu stuðningsríkur í þessu erfiða ferli.

Svo kemur að fæðingunni, sem er gífurlegt púl líka. Fæðing er mismunandi upplifun fyrir alla, og hver einasta fæðing er ný upplifun svo ég ætla alls ekki að að alhæfa neitt um það. Langflestar konur eru þó sammála um að það að fæða barn sé í besta falli orkufrekt ferli, í versta falli gífurlegt álag á líkama og sál, og skilur mann eftir í vægu eða rosalegu áfalli eftir átökin. Í kjölfarið fylgir yfirleitt svefnlaus nótt. Þannig var það hjá mér og komst að því að það væri alls ekki óalgengt. Ég var í sjokki og endurupplifði atburði dagsins, m.a. fékk ég “flash-back” af verkjunum. Ég fékk hinsvegar engin verkjalyf, svo þetta á örugglega ekki við um allar. Svo var þessi litla guðdómlega vera liggjandi við hliðina á mér og ég vildi helst horfa á hana alla nóttina til að passa að hún hætti örugglega ekki að anda.

Já, heyrðu, ekki má gleyma brjóstagjöfinni! Fyrir mig var það ótrúlega erfitt! En samt gekk þetta eins og í sögu. Það kom strax broddur, um leið og við prófuðum að leggja hana á brjóstið um það bil 30 mínútum eftir fæðinguna (held ég, tímaskynið var ekki alveg upp á sitt besta á þessu augnabliki). Og hún teygaði mjólkina. Það vantaði ekki. Alveg frá fyrstu tilraun rann mjólkin vel. En fyrir mig var bara nógu erfitt að finna fyrir þessu í líkamanum. Og ég man eftir hormónunum. Mér leið eins og ég væri í vímu. Samt tók ég engin verkjalyf í fæðingunni svo þetta var algjörlega náttúruleg víma. Og það var skrítið. Ég hef meira að segja aldrei tekið vímuefni (nema áfengi) svo þetta var meiriháttar skrítið fyrir mig! Og svo fann ég hvernig mjólkurkirtlarnir voru að fara í gang, og þetta var mjög óþægilegt, verð ég að segja! Líkaminn hafði aldrei áður notað þessa kirtla, og jafnvel þó þeir væru búnir að vera að undirbúa sig síðustu 9 mánuði á undan, þá var samt mjög skrítið og erfitt þegar þeir voru að komast í gang.

Svo þurfti líkaminn minn að stilla sig inn á þarfir barnsins, og það gekk aðeins brösulega í byrjun því ég framleiddi ekki næga mjólk fyrir hana á kvöldin og þá orgaði hún í 3 klukkutíma á hverju kvöldi. Og kærastinn minn á erfitt með skapið sitt, svo hann meikaði ekki þetta org (enda er vægast sagt erfitt að hlusta á svona org í langan tíma og geta ekkert gert fyrir barnið!!!) - hann varð pirraður og reiður og vildi að ég gerði eitthvað. Svo ég var þarna með organdi ungabarn og reiðan mann. FRÁBÆRT!! ….. Eða nei…. Ekki alveg….

Ég elskaði þau bæði. Ég elskaði hana og dáði og mér fannst hún það fallegasta sem ég hafði séð. Hún var fullkomin. Dásemd. En, guð minn almáttugur hvað ég var uppgefin á líkama og sál!! Og ekki hjálpaði að kærastinn varð líka reiður út í mig.



Þetta er bara saga einnar konu. Þetta er ekki alhæfing. EN.. Það er staðreynd að mjög margar konur upplifa erfiðar tilfinningar í kjölfar fæðingar. Og þegar maður horfir á hvað konan hefur þurft að þola, þá finnst mér það alveg eðlilegt. Persónulega vil ég ekki kalla þetta þunglyndi því mér finnst það fela í sér að það sé eitthvað að konunni. Fyrir mér eru þetta fullkomlega eðlileg viðbrögð kerfisins á mjög krefjandi aðstæðum.

 

Svo er framhaldið afar mismunandi eftir einstaklingum. Margir ákveða að láta barnið sitt “gráta það út” til að kenna því að sofa sjálfu, og þá fær móðirin fljótt nætursvefninn sinn. En í dag eru margir sem kjósa að gera þetta ekki. Þá heldur áfram gríðarlegt álag á mömmunni, því það getur æxlast þannig að hún fær ekki nætursvefn í marga mánuði.

Við ákváðum að láta hana ekki “gráta það út”. Þessvegna er ég núna í þessum sporum, að hafa ekki sofið heila nótt í 8,5 mánuði, þar sem dóttir okkar hefur átt erfitt með svefn. Ekki bara það heldur sefur hún yfirleitt ekki langa dúra á daginn, svo ég fæ sjaldan pásu - sem er líka krefjandi.

Það að vera 24-7 á “call back” fyrir manneskju sem skilur mann takmarkað, öskrar þegar hún er ekki sátt og veldur því að maður vaknar í besta falli 1-2svar, í versta falli kannski 20 sinnum yfir nóttina, er erfitt. Sama hvað hver segir. Og þetta er mjög persónubundið. Sum börn sofa tímunum saman án nokkurs vesens. Sum börn gráta nánast aldrei. En það er ekki reglan. Fyrir margar mæður er þetta rosalega krefjandi.

En svo er þetta líka spurning um val. Ég valdi að fara þessa leið og ég stend með henni. Ég tel það vera það besta fyrir barnið mitt.

 

Hugsanir sem ég finn fyrir eru líka t.d. að ég hljóti að vera ömurleg móðir ef ég vil ekki vera með barninu mínu 24-7. Ég veit að þetta er ekki rétt, en þetta er hugsun sem kemur reglulega upp. Þessvegna hef ég líka átt erfiðara með að láta hana í pössun, og jafnvel að skilja hana eftir með pabba sínum. Þetta er einhvers konar togstreita: Ég vil fá pásu, en samt einhvern vegin vil ég ekki fara frá henni!!!! En ég veit að rétta leiðin er að fara frá henni reglulega, því þegar ég geri það, þá finn ég meira hvað ég elska hana, og ég verð skemmtilegri og betri móðir fyrir vikið.

En þetta er eilífur dans. Að finna þetta jafnvægi. Fara í burtu nóg til að geta elskað barnið meira. Veita barninu það sem það þarf en muna líka að hugsa um sjálfa sig, og passa að maður sjálfur fái það sem maður þarf. Svefn, næringu, félagsskap fullorðinna manneskja, tíma einn með makanum, tíma einn!!

 

Dóttir mín á það ennþá stundum til að vekja mig 20 sinnum á nóttu (eins og síðustu vikuna!) en hún á það líka til að vekja mig bara einu sinni. Hún á það til að sofa bara í 30 mínútur í einu á daginn, en hún á það líka til að sofa í 2-3 klst í einu. Ég get örugglega sjálfri mér um kennt að vera ekki búin að koma á meiri rútínu hjá henni, en samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem ég aðhyllist, þá finnur barnið sjálft sinn takt, og mikilvægast sé að veita því það sem það þarf, þegar það þarf það. Það þýðir samt ekki að það sé ekki hægt, með blíðum aðferðum, að koma á meiri svefnrútínu hjá barninu, og er það eitthvað sem við ætlum að leggjast í næstu vikur og mánuði.

En akkúrat núna er ég bara þakklát fyrir að fá stundum tíma fyrir mig meðan hún sefur á daginn, eins og núna. Tíma sem ég nota yfirleitt bara í að fá mér að borða, vinna, eða vinna húsverk - en núna ákvað ég að blogga. Kannski get ég farið að leyfa mér að lesa bók eða horfa á mynd af og til líka :)

En þetta hafa verið vægast sagt strembnir 8,5 mánuðir síðan hún fæddist. Og það er allt í lagi. En það er líka eðlilegt að vera í tilfinningarússíbana á meðan svona krefjandi verkefni tekur allan manns tíma og orku! Það er guðdómlega dásamlegt að fá að vera móðir, og ég er óendanlega þakklát fyrir það (ég hefði aldrei viljað sleppa því!) - en þetta er samt líka - afsakið orðbragðið - DRULLU erfitt!!!

 

Ég veit að þessar svefnlausu nætur líða hjá og eftir sitja ljúfar minningar um litla fingur og dásamlegar stundir með lítið kríli í fanginu að drekka mömmumjólk. Svo ég er þakklát fyrir þennan tíma, þrátt fyrir erfiðleika líðandi stundar.

Ég hlakka til að fá að kynnast litla krílinu betur, sjá hana vaxa og dafna þar til hún verður fullorðin kona og flýgur úr hreiðrinu.. Þangað til ætla ég að leyfa mér að upplifa tilfinningar líðandi stundar, hvort sem þær eru ljúfar eða erfiðar. <3 <3 <3

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband