Óðurinn til magans míns

Ég hata magann minn. Ég hef alltaf hatað hann. Nei, það er reyndar ekki alveg rétt. Ég hataði hann ekki þegar ég var barn. En alveg síðan ég fór að spá í útliti, sem hefur líklega verið eitthvað í kring um 11-12 ára (ef ekki yngra - let's face it), hef ég hatað magann minn.

Ég er þannig vaxin að ég er með granna og langa leggi. Ég er þakklát fyrir það, þetta þykir víst voða fallegt í okkar samfélagi. Þetta fékk ég að vita þegar ég var 13 ára og fór í mini-pils í fyrsta skipti. Mamma horfði á mig og sagði "sjá þessa leggi!". Mamma sem by the way er algjör feministi og ól mig upp með þær hugmyndir að útlitið skipti ekki máli heldur gáfurnar og að fegurðin kæmi að innan. Ágætis tilraun hjá henni en því miður er ég alin upp á jörðinni þar sem önnur öfl en mæður hafa ýmis áhrif á ungar stúlkur í mótun. Sterkari öfl sem hafa meira vald á hugum ungra stúlkna en fallegar tilraunir mæðra til að fæða okkur á hugmyndum sem breyta okkur úr ungum stúlkum í sterkar, sjálfsöruggar konur. 

Ég kynntist því hvernig "sætu stelpurnar" í skólanum hugsuðu. Ég sá bíómyndir, tónlistarmyndbönd og fleira frameftir þeim götunum. Mig langaði að vera með mjóan maga. Þetta var eitthvað sem mikið var talað um í vinkonuhópnum. Flatur magi. Ég var ekki með flatan maga. Ég var með bumbu. Ég var ekki feit. En ég var með bumbu. Mér fannst ég feit. Ég vildi flatan maga.

Nú er ég 30 ára gömul. Ég horfi á magann minn í speglinum nánast á hverjum einasta degi, stundum oftar en einu sinni. Ég hugsa yfirleitt eitthvað ljótt um hann því mér finnst hann ekki nógu flottur, ekki nógu flatur, of mikil bumba. Ég er grönn, en ég er ekki með flatan maga. Og mig langar að vera eins og fyrirsæturnar, mig langar að vera með flatan maga! Ennþá! Eftir meira en 15 ár er ég ennþá að hugsa um þetta!

Og by the way þá eru fyrirsæturnar sem ég er að miða mig við 14 ára. Þær eru ekki konur, þær eru stelpur. Það er ekki líkamlega mögulegt fyrir mig að vera eins vaxin og þær. Ég kæmist því næst með því að svelta mig, sem er eitthvað sem ég hef líka prófað oftar en einu sinni. Það er voða gaman að vera mjór en það er þreitandi að vera alltaf svangur, að ég tali nú ekki um sjúkdómana sem herja á mann vegna lélegs ónæmiskerfis. 

Ég er með ristilkrampa. Ég fæ reglulega slæma magaverki. Ég á erfitt með meltingu og er viðkvæm fyrir ýmsum matartegundum. Glútenóþol, mjólkuróþol og viðkvæm fyrir hvítum sykri. Ef ég borða ekki rétt þá blæs ég út og lít út fyrir að vera ólétt. Eins og þið getið ýmindað ykkur þá er það ekki neitt sem lætur mig elska magann minn meira! Ó nei! Ég bókstaflega HATA hann þegar þetta gerist.

Ég hef líka kynnst alls konar óhefðbundum lækningaraðferðum og er farin að trúa því að hugsanir og andleg líðan tengist líkamlegri líðan alveg óskaplega mikið. Ég er farin að trúa því að það sé ekki tilviljun að ég hati magann minn og að ég sé alltaf með ristilkrampa og illt í maganum.

Það má kalla það væmni en ég trúi því að við þurfum að elska líkamann okkar til þess að hann virki sem best. Að við þurfum að vera þakklát fyrir allt sem hann gerir fyrir okkur. Það er ekkert sjálfsagt að vinna allan daginn, stundum úr hlutum sem rosalega erfitt er að vinna úr, eins og maginn okkar gerir fyrir okkur. Við förum ekkert alltaf vel með magann okkar og ætlumst til þess að hann vinni úr allskonar matvörum sem erfitt er að vinna úr, t.d. unnum kjötvörum, áfengi, sælgæti o.fl.

Mig langar að læra að elska magann minn. 

Mig langar að losna undan oki staðlaðra útlitsýminda um fegurð.

Mig langar að finnast ég falleg alveg eins og ég er, en ekki eins og ég vildi að ég væri. Mig langar að finnast ég falleg án þess að vera með næringarskort.

Here's trying. Eitt skref í einu.

Þetta blogg er skref nr. 1 


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fín grein, smá-triste, en vísdómsleg og lýsir hugrekki í erfiðri baráttu.

Elskaðu magann þinn! Hugsaðu fyrst og fremst um heilsuna og góða hreyfingu, og forðastu frekar mikil kolefni og sykur heldur en fitu.* Léttar bumbur geta verið miklu sætari en flatir magar! - a man's view! - en óléttubumbur eru þó sætastar!

* http://www.mbl.is/smartland/heilsa/2013/08/06/8_astaedur_til_ad_ottast_ekki_mettada_fitu/

Jón Valur Jensson, 7.8.2013 kl. 02:00

2 identicon

Hæ Vala mín. Góđur pistill hjá þér. Sýnist þú vera á réttri leiđ međ þessar hugsanir þínar. Ég man eftir því eftir mína fyrstu međgöngu og hafđi léttst svo mikiđ og vóg rétt um 50 kíló og fólk í röđum hrósađi mér fyrir hvađ ég leit vel út þó ég væri í raun næstum horuđ! Mér fannst þađ meiriháttar þá en í dag fer þetta hátterni fólks á sínum tíma í minn garđ í taugarnar á mér og sýna óábyrga hegđun gagnvart ungri konu.

Bryndís Ýr (IP-tala skráð) 8.8.2013 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband