Hversu mikið "vitum" við í rauninni?

Ég er mikið búin að vera að hugsa um þetta upp á síðkastið. Ég stend alltaf staðfast í þeirri trú um að ég viti ekki neitt og aðrir viti betur. Samfélagið okkar er líka svolítið uppbyggt með þessu hugarfari. Allt sem við "vitum" vitum við af því einhver annar sagði okkur það, þannig að hversu mikið getum við í rauninni vitað þegar uppi er staðið?

Okkar þjóðfélag byggist mikið til á því að vísindin séu hinn heilagi sannleikur. En ef maður spáir aðeins í því, þá er eina sönnunin okkar fyrir því að vísindin segi satt sú að einhver annar sagði að þau væru sönn. Þá er hægt að leggja fram þau rök að það sé nú hægt að skoða niðurstöður rannsóknanna. Jú það er satt, en hver skrifaði þessar niðurstöður? Einhver þurfti að gera það. Ef það var tölva þá var það samt maður sem hannaði tölvuna og maður sem setti hana saman. Ef það var vél sem setti tölvuna saman þá var það samt maður sem hannaði og bjó til vélina sem bjó til tölvuna.

 Það hefur komið upp aftur og aftur í sögunni að hinir vitrustu menn heims höfðu rangt fyrir sér.

Þá er ég alls ekki að segja að vísindin séu ósönn. Ég er bara að segja að í rauninni vitum við ekki neitt. Við getum aldrei vitað neitt með fullri vissu. Eða hvað?

Mín niðurstaða á þessari vangaveltu er þessi: Það eina sem við getum verið fullviss um er hvernig okkur líður akkúrat í augnablikinu. Ef við þekkjum tilfinningar okkar getum við staðfest hvaða viðbrögð líkaminn sýnir við vissum aðstæðum og tekið mið að því.

Fylgja innsæinu.

Þetta eru engin vísindi. En þetta er aldagömul hugmynd. Er hún nokkuð það röng?

Líkaminn okkar er jú bara lífríki er það ekki? Og eina markmið lífríkis er að lifa af. Er þetta ekki bara þannig að líkaminn okkar er byggður úr milljónum frumna sem allar eru að vinna að einu og sama markmiðinu? Að hjálpa lífríkinu að lifa af. Er þá ekki full ástæða til að hlusta á þessar frumur þegar þær láta í sér heyra? Er kannski hausverkurinn að reyna að segja okkur eitthvað? Magaverkurinn?

Ein vangavelta í lokin: Afhverju virka lyfin sem læknavísindin gefa okkur? Er það af því þau eru svona öflug eða er það kannski líka að hluta til af því við treystum þeim?

Margir velta þeirri spurningu upp þegar talað er um óhefðbundna læknisþjónustu að ástæða þess að hún virki sé af því fólk trúi svo mikið á þetta. En ef þetta virkar skiptir þá einhverju máli hver ástæðan sé? Og hver segir að sama geti ekki gilt um hin hefðbundnu lyf. Samfélag okkar er byggt upp í þeirri trú að þau virki. Hver segir að ástæðan fyrir því að þau geri það, sé ekki sú að við trúum því að þau geri það?

Ég er heldur ekki að segja að ástæðan fyrir því að þau virki sé af því við trúum því. Ég trúi því að þau virki. Ég er aðeins að velta fram þeirri hugmynd að kannski vitum við ekki alveg eins mikið og við höldum að við vitum.

Kannski virka líka óhefðbundin læknavísindi, sem ég hef líka mikla trú á.

En ég veit líka að ég veit ekki neitt.

Og það eina sem ég treysti eru viðbrögð líkama míns. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband