(ó)Menningar-nótt?

Ég átti frábært kvöld. Það var Menningarnótt. Ég er tónlistarkona. Mér finnst menning skemmtileg. Finnst það ekki flestum?

Nokkrir vinir mínir komu fram á hinum ýmsu sviðum og ég reyndi að sjá sem flesta. Tvær sungu ljóðasöng í kirkju. Tvær gerðu gjörning í pinkulitlu vélarrými á gömlum báti. Ég fékk að taka óbeinan þátt í öðrum gjörningnum þar sem lag í minni útsetningu var hluti af sýningunni. Það var skemmtilegt.

Ég snýkti mér far með bátnum þegar hinir ýmsu listamenn sem tóku þátt í Vinnslunni fóru á haf út til þess að njóta flugeldasýningarinnar margrómuðu frá nýju sjónarhorni. Það var mjög gaman að sjá Reykjavík frá þessu sjónarhorni. Sérstaklega Hörpu. Flugeldasýningin var flott að vanda, en vindáttin lék okkur grátt þar sem reykmökkurinn frá flugeldunum skyggði á flugeldana sjálfa stóran hluta sýningarinnar. O jæja. Þetta var samt flott. Gaman að sjá flugeldana glampa á Hörpu:)

Heyrðu, svo kemur loka-atriði þessarar Menningarnætur. Það var spuni í boði hóps af unglingum. Ég hafði ætlað að koma við í afmælispartýi vinkonu minnar eftir flugeldasýninguna. Mér mistókst. Síminn minn var batteríslaus og ég var ekki viss hvar ég kæmist inn í húsið þar sem partýið var. Ég vissi ekki alveg hvar partýið var heldur. Ég hitti tvo unga drengi sem leyfðu mér að hringja hjá sér í 118, og pissuðu svo úti í horni.

Vinkona mín var ekki skráð hjá 118 svo ég tók þetta sem merki um að nú ætti Vala að halda heim á leið. Ég setti upp heyrnatólin og hlustaði á Sigur Rós meðan ég rölti í gegn um miðbæinn. Ég hugsaði ekki mikið um hvað var að gerast í kring um mig heldur naut þess að ganga heim eftir góða innspýtingu af eðal-menningu kvöldsins í góðum félagsskap. 

Ég kom við í 10-11 og keypti mér smoothie. Ég stóð í augnablik við borðið í 10-11, sem er staðsett fyrir framan búðargluggann. Ég horfði út um gluggann og þar var hópur ungmenna. Þeir voru að hlæja og hafa gaman. Ég leit niður í sekúndubrot og fannst í annað sekúndubrot að ég hafi séð typpið á einum af þessum ungu drengjum. Ég afréð að þetta hlyti að hafa verið mistúlkun augna minna. Ég fékk mér sopa af smoothi-inum. Ég tók eftir því að strákurinn stóð við gluggann og horfði á mig og svo niður á klofið á sér, ítrekað, til skiptis. Og hló óstjórnlega. Krakkarnir í hópnum hlógu líka, og horfðu á mig eins og þau tryðu ekki sínum eigin augum. Ég áttaði mig fyllilega á hvað var í gangi en ákvað að taka ekki þátt í þessu. Ég horfði fast í andlitið á stráknum en ekki niður. Þau hlógu ennþá meira. Og urðu sífellt meira hissa. Ég sagði: "En hvað þetta er fyndið", yppti öxlum og labbaði út og hélt mína leið.

Ekki sjokkeruð beint. En hissa. Er ég bara svona saklaus eða hafa tímarnir eitthvað breyst frá því ég var 18 ára? Aldrei varð ég vitni að því að strákur beraði sig fyrir ókunnugri konu í búðarglugga á mínum yngri árum.

Ég veit ekki. Mér fannst þetta vægast sagt skondinn endir á hinni margrómuðu Menningarnótt. Unglingadrykkja? Já. Það er gömul saga. En typpasýningar í búðargluggum? Nú segji ég bara eins og gömlu konurnar: "Ég hef aldrei......!!!!" 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband