Hvað er kynferðisofbeldi?

Mig langar að tala aðeins um kynferðisofbeldi.

Hvað er kynferðisofbeldi?

Lengi vel hélt ég að kynferðisofbeldi væri það sama og nauðgun. Það er að segja, ég var með ákveðna hugmynd um nauðgun. Ég sá fyrir mér stelpu sem lá í húsasundi og maður ofan á henni, hún annaðhvort dauðadrukkin og rænulaus eða öskrandi, bítandi og klórandi.

Nýlega komst ég að því að það eru til margar tegundir af nauðgunum. Hvað þýðir orðið nauðgun? Ef maður greinir það? Nauð-gun. Að vera tekinn nauðugur. Að vera neyddur til kynlífs. Aðal áherslan er á að maður sé neyddur til einhvers.

Ein besta lýsingin á því sem ég er að tala um kemur fram í sketchi í "fáðu já" myndbandinu. Þegar stelpan neyðir hamborgarann ofan í strákinn. "Jú fáðu þér smá.. svona.. fáðu þér!!" 

Ég veit ekki hver skilgreiningin á nauðgun er. En ég veit að þegar maður er neyddur til að gera eitthvað sem maður vill ekki, þá líður manni illa. Þegar mörkin manns eru ekki virt, þá líður manni illa.

Þegar ég heyrði "nei þýðir nei" frasann sem unglingur, þá sá ég fyrir mér að strákurinn væri að reyna að fá stelpu til að stunda kynlíf með sér, hún segði nei, og þá réðist hann á hana með ofbeldi og nauðgaði henni.

Ég hef hinsvegar verið í þannig aðstæðum að ég hef valið að stunda kynlíf með einstaklingi, sem vildi gera hluti sem ég vildi ekki. Þegar ég sagði nei, nauðaði viðkomandi í mér. Ég sagði nei þrisvar sinnum, en ég gafst upp á endanum. Auðvitað er ábyrgðin mín megin. Ég fór heim með honum. Ég stundaði kynlíf með honum. Ég fór gegn eigin innsæi. EN ábyrgðin er líka hans megin! Þó að ég sé ekki öskrandi á hann: "NEIII!! HÆTTUUU!!" þá þýðir það ekki að ég sé að samþykkja hvað sem er. Við þurfum að geta sagt nei ef við viljum ekki gera eitthvað og við þurfum að treysta því að hinn aðilinn virði það!!!!

Ég skrifa þetta blogg til að vekja fólk til umhugsunar. Þá sérstaklega stráka, án þess að gera þá að "vonda kallinum".

Ég sendi viðkomandi einstaklingi póst og sagði honum mína upplifun, að hann hefði ekki virt mörkin mín og mér hefði hreinlega liðið eins og mér hefði verið nauðgað eftir þetta. Hann var alveg miður sín. Sagði að hann hefði alls ekki upplifað þetta þannig og honum fannst hræðilegt að heyra mig nota orðið nauðgun.

Mér fannst mjög gott að fá þetta svar, en það staðfestir líka grun minn um að karlmenn átti sig oft ekki á því að þeir eru að vaða yfir mörk okkar kvennanna. Við konurnar erum heldur ekki nógu duglegar að virða eigin mörk og standa fast á okkar. En mér finnst alveg mega vekja karlmenn til umhugsunar hvað þetta varðar. Ef þið eruð að stunda kynlíf, hvort sem það er "one night stand", kærasta, bólfélagi eða eiginkonan. Ef hún segjir nei. Plís, virðiði það!!!! Útkoman er svo miklu betri en annars því þannig fáið þið að öllum líkindum konu sem treystir ykkur og líður vel með ykkur. Og þið getið verið fullkomlega sáttir með að hafa sofið hjá henni vitandi að hún hafi viljað það og notið þess alla leið! Ef það er eiginkonan þá eru örugglega miklu fleiri gjafir sem þið fáið á móti, miklu betri en ein fullnæging. Ást, virðing, vinátta, kærleikur, jafnvægi, öryggi, samvinna...

Klámvæðingin hefur brenglað hugsunarhátt okkar allra varðandi kynlíf. Við konur erum ekki kynlífsdúkkur sem stynjum eftir pöntun og við lítum ekki út eins og barbídúkkur.

Konur, lærum að njóta kynlífs, hættum að gera "það sem honum finnst gott" og menn, hlustið á hvað konurnar eru að reyna að tjá!!!!

Með þessu meina ég þó ekki að okkur beri aðeins að hugsa um okkur sjálf í kynlífi. En ef við erum ekki að hlusta á okkur sjálf og hvað okkur finnst gott, til hvers erum við þá að þessu? Til að hinum líði vel? :)

Það er eins og að fá sér ís af því vini manns langar í ís og maður vill ekki að honum líði illa að borða hann einn. Ef við njótum hans ekki, afhverju þá að borða hann!!?? 

Fyrir utan það að besta kynlífið er klárlega þegar hinn aðilinn nýtur sín, svo það græða báðir á því að við hlustum á okkur sjálf, virðum eigin mörk - OG virðum mörk hins!!!! 

Og hananú! ;) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hlýt að teljast skrítinn karlmaður þar eð ég hef aldrei gengið gegn vilja konu í kynlífi (allavega ekki fengið að heyra annað), spyr alltaf hvort það sem við erum að gera er í lagi.  Og þetta með þessa blessuðu klámvæðingu, hvað er málið með hana.  Er ekki bara verið að reyna að láta klám líta út fyrir að vera slæmur hlutur af því það eru aðilar sem eru á móti klámi.  Þetta er svona svipað eins og að kenna tölvuleikjum um ofbeldisverk.  Það er bara einn aðili sem er ábyrgur þegar á þér er brotið og það er sá sem braut á þér. 

Og eitt að lokum, það kemur alveg fyrir að karlmenn segja nei og viðbrögðin sem koma þá eru oft svakaleg þó svo að það fylgi því líklega sjaldnar nauðgun.

Einar Vidarsson (IP-tala skráð) 26.3.2014 kl. 16:10

2 identicon

Ég sagði aldrei að allir karlmenn gengju gegn vilja kvenna í kynlífi. Þú ert ekkert skrítinn karlmaður að gera það ekki. Ég er viss um að það er fullt af karlmönnum sem koma fram við konur af fullkominni virðingu. En staðreyndin er samt sú að nauðgun er algengt fyrirbæri og svo virðist sem þeim fjölgi síður en að þeim fækki, sem er mjög alvarlegt vandamál og ber að taka það alvarlega. Varðandi klámvæðinguna, þá er staðreyndin sú að klám einkennist yfirleitt af því að konurnar eru sýndar á mjög niðrandi hátt. Þær eru nánast sýndar eins og þær séu ekki manneskjur heldur hlutir sem karlmaðurinn ýtir, teygir og segjir til, og gerir það sem hann vill gera við hana. Það er ekki eins og hún njóti þess í rauninni, samt stynur hún eins og enginn sé morgundagurinn. Ég er að tala af reynslu vegna þess að ég stundaði kynlíf meira fyrir hinn aðilann heldur en fyrir sjálfa mig, og ég þekki ekki kvenmann sem hefur ekki sömu sögu að segja. Án þess að gera okkur grein fyrir því nota bene - fyrr en við förum að skoða þetta og þá áttum við okkur á því að þetta er ekki alveg heilbrigður hugsunarháttur. Maður sér þetta líka á þeim klæðaburði sem viðgengst hjá konum og stúlkum. Við höfum gengist við þeim viðtekna hugsunarhætti að það eina sem skipti máli sem kvenmaður sé að vera sexý. Og við veljum klæðnað til að ná þessu fram. Ef við fáum ekki athygli karlmanna finnst okkur við vera ljótar. Þetta er líka eitthvað sem ég sá hjá sjálfri mér og flestöllum konum sem ég þekki. Ég er hætt þessu en það krafðist mikillar sjálfsvinnu að snúa þessum hugsunarhætti við. Og að sjálfsöðgu eru til undantekningar. En samfélagið hendir til þessum skilaboðum úti um allt. Þetta er orðið svo mikið að við erum orðin samdauna þessu og áttum okkur ekki einu sinni á því hvað þetta er sjúkt. Eina leiðin til að snúa þessari þróun við er að vera vakandi fyrir þessu og tala um þetta og er það ástæða mín fyrir því að skrifa þetta blogg. Eins og ég tek skýrt fram í því þá er ég ekki að gera karlmenn að neinum vondum karli, og að sjálfsögðu á þetta við í báðar áttir - enda segji ég líka "aðilar", þetta á við um bæði kynin. Ástæðan fyrir að ég skrifa þetta svona er vegna þess að ég hef aðeins reynsluna sem kvenmaður og hvernig karlmenn hafa komið fram við mig, einnig sem ég hef rætt þessa hluti við konur með svipaða reynslu. Ég hef ekki rætt þessa hluti við karlmenn. Og ég held að það hljóti að vera deginum ljósara að karlmenn eru líklegri sem gerendur kynferðisofbeldis en konur, ekki aðeins vegna þess að þeir eru líkamlega sterkari og agressívari af náttúrunnar hendi heldur hefur samfélagið byggst upp með kvenfyrirlitningu og kúgun á kvenmönnum úti um allan heim. Við erum að sjálfsögðu á betri stað hvað þetta varðar heldur en mörg önnur heimssvæði, en þetta er þó staðreynd. Við erum ennþá í þróun. Það er ekki jafnrétti. En það mjakast hægt og hægt í réttu áttina.

Ég veit það hljómar líklega eins og ég sé reið út í karlmenn og vilji kenna þeim um en það er alls ekki svoleiðis. Ég er reið, já. En ég er reið út í aðstæðurnar, ekki ákveðið kyn. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að breytingar gerast hægt og mér finnst fullkomlega eðlilegt að við séum ekki komin lengra en við erum komin. Það eru aðeins 2 kynslóðir síðan konur voru heimavinnandi húsmæður og það var varla inn í myndinni fyrir þær að vera útivinnandi. En ég tel mikilvægt að vera vakandi fyrir þessum hlutum, svo að hugsunarháttur okkar geti smám saman breyst, eina manneskju í einu, eina kynslóð í einu. Svo að það geti komið að þeim degi að það verði fullkomið jafnrétti og konum finnist þær ekki þurfa að gera út á kynþokka sinn til að fá samþykki karlmanna.

Vala Yates (IP-tala skráð) 28.3.2014 kl. 17:09

3 identicon

Og eitt annað: Ég tek ábyrgð á því að hafa ekki verið ákveðnari með að segja nei við ákveðnum hlutum. Ef ég hefði hinsvegar verið ákveðnari og hann hefði samt gert þá, semsagt með valdi, það sem við köllum alla jafna nauðgun, þá hefði ábyrgðin verið alfarið hans megin. En ef ég virði ekki eigin mörk og samþykki eitthvað þá hlýtur allavega hluti af ábyrgðinni að vera mín megin, ekki satt?

Vala Yates (IP-tala skráð) 28.3.2014 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband