Ástarsambönd; What a tricky subject aye!!?

 

 

 

 

Í sjálfsskoðun minni síðustu árin hefur eitt af viðfangsefnunum sem ég skoðaði í fari mínu og lífi verið samskipti mitt við hitt kynið. Þetta er jú þáttur í lífi okkar sem hefur gífurleg áhrif á okkur, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eður ei, enda skipar "hitt kynið" hér um bil helming jarðarinnar.

 

Í þessu ferli hef ég komist að ýmsu og langar mig að deila því með ykkur. Eflaust getur verið gagn af þessum gullkornum fyrir fleiri en einungis sjálfa mig.

 

1) Til þess að geta komist inn í ástarsamband sem maður vill vera í, er bráðnauðsynlegt að vita hvað maður vill. Eftir hverju erum við að leitast? Hvað skiptir okkur máli? Viljum við að viðkomandi standist vissar útlitskröfur, ákveðnar tekjukröfur osfrv. Samfélagið vill kenna okkur að ef við leitumst eftir maka með útlit eða peninga í huga þá séum við grunnhyggin, svo við leyfum okkur ekki að vilja þessa hluti. En allt sem við viljum er leyfilegt að vilja. Það sem skiptir mestu máli er að komast að því hvað það er sem við viljum. Því án þess er bókað mál að við munum ekki fá það sem við viljum og þá líklega ekki verða hamingjusöm. Við viljum það sem við viljum og það er ekkert að fara að breytast þó við förum í afneitun gagnvart því. Það er nauðsynlegt að spyrja sig: Hvað vil ég? Ertu t.d. með ákveðna týpu sem þú fílar? Leyfðu þér þá að vera þar. Hversu miklu skemmtilegra er það að vera með manneskju sem framkallar fiðring í magann við að sjá hana? Ef þú ert með týpu sem þú fílar, þá er pottþétt manneskja þarna úti sem er þessi týpa sem á eftir að fila þig líka.

 

2) Til þess að líða vel í sambandi þarf þrennt: Báðir aðilar þurfa að vera í innra jafnvægi og samskiptin þurfa að vera í jafnvægi. Ef eitthvað af þessu er í ójafnvægi hefur það áhrif á báða hina þættina og báðum aðilum líður illa í sambandinu. Ef "hann" fer úr jafnvægi, hefur það áhrif á samskipti hans við "hana", og henni fer að líða illa - og öfugt. Ef samskiptin fara úr jafnvægi líður báðum aðilum illa. Opin og hreinskilin samskipti er lykilatriði. Þetta er eitthvað sem við höfum öll heyrt en það er hægara sagt en gert að fara eftir. Samkvæmt minni reynslu er nauðsynlegt að átta sig á hver maður er, og hvaða skoðanir, langanir og væntingar maður hefur, til þess að geta tjáð sig opinskátt. En það er ekki nóg því maður þarf líka að finna kjark til að segja skoðanir sinar, langanir og væntingar. Er ekki að undra að mörgum finnist það erfitt!

 

3) Eitt sem ég áttaði mig á nýlega er þetta: Afhverju erum við svona hrædd við ást? Hvað er ást annað en kærleikur? Hvað er kærleikur annað en góð orka? Afhverju ættum við ekki að bjóða góðri orku fagnandi inn í líf okkar? Við erum alltaf að halda aftur af okkur, ekki sýna of mikla ást, því það gæti hrætt viðkomandi í burtu! En viljum við ekki öll fá ást? Ef það hræðir viðkomandi í burtu þá er hann/hún kannski bara ekki tilbúinn að taka á móti ástinni sem þú hefur að gefa. Ég er ekki að segja að við eigum að ganga um og opinbera ást okkar á fólki sem við þekkjum ekki. En ef tilfinningin okkar segir okkur að segja eitthvað, sem felur í sér væntumþykju gagnvart einhverjum, af hverju ekki að fylgja því? Hvað gæti gerst sem væri svona hræðilegt? Hinn tæki ekki á móti því? Greyjið hann/hún. Hann/hún fékk ekki að njóta fallegu orkunnar sem þú varst reiðubúinn að deila með honum/henni. Það gerir þig að engu leiti að minni manneskju fyrir vikið. Þú þorðir að gefa af þér og sýna tilfinningar. Það er ekki eitthvað til að fela eða skammast sín fyrir heldur ber að fagna! Ef allir leyfðu sér að gera þetta yrði heimurinn eflaust kærleiksríkari. Í mínum bókum ætti það með engu móti að túlkast sem nokkurs konar ógn að vera sýnd væntumþykja. Ef þú vilt hana ekki, þá þarftu ekki að taka á móti henni. Auðvitað er þetta ekki svona einfalt, því fyrri reynslur hafa ómeðvitað áhrif á viðbrögð okkar, og slæmt samband úr fortíðinni getur valdið því að núverandi aðstæður virka sem ógnun þrátt fyrir að ekkert sé sameiginlegt með þessu tvennu nema það að þú ert að deita núna og þá varstu í sambandi. Einhvers konar svipuð tilfinning sem þessu fylgir sem getur ruglað kerfið okkar og komið af stað viðbrögðum sem við skiljum ekki einu sinni sjálf. Ég er samt fastlega hlynnt því að leyfa sér að sína kærleika ef hugur og hjarta segja svo til um. Ef þig langar til þess og treystir þér til þess, do it :) Og mundu svo að hvað sem hinn segir eða gerir þá er það algjörlega þér óviðkomandi. Að lifa í kærleika er mjög fallegt fyrirbrigði, og ekki allir sem geta tekið því. Það er líka allt í lagi. En það þýðir ekki að þú þurfir að breita hegðun þinni eða taka það nærri þér þó einhver neiti að taka á móti þeirri gjöf í formi kærleika sem þú vildir gefa.

 

4) Hver er afstaða þín til hins kynsins? Setur þú þig í stellingar gagnvart þeim? Ertu óörugg/óöruggur gagnvart þeim? Áttu erfitt með að greina hvort viðkomandi sé að reyna við þig eða ekki? Reynirðu að hegða þér á ákveðinn hátt til þess að "fæla burt" eða heilla þá/þær, eftir því hvort þú hefur áhuga eða ekki? Getur þú verið frjáls í samskiptum við hitt kynið óháð þeirri staðreynd að þú ert af hinu kyninu og kynferðisorkan gæti truflað samskiptin? Setur þú skoðanir hins kynsins óafvitandi ofar þínum eigin og kynsytra/-bræðra?

 

Ég er kona og þekki þetta aðeins af eigin reynslu, svo ég get aðeins talað með reynslu konu í þessu samhengi. Ég áttaði mig á að ég hafði óafvitandi sett mínar eigin skoðanir, og skoðanir kynsystra minna neðar en skoðanir karlmanna. Allra karlmanna. Það skipti ekki máli hvert samband mitt við viðkomandi var. Ég áttaði mig líka á því að ég skammaðist mín fyrir að vera klár kona. Sérstaklega gagnvart karlmönnum. Þegar ég sagði eitthvað sem sýndi að ég var klár í nálægð karlmanna upplifði ég einhvers konar skammartilfinningu. Þetta kom algjörlega aftan að mér þar sem ég var alin upp af feminista og trúði því í fullri einlægni frá því ég fæddist að karlar og konur væru jöfn og að ég gæti gert allt sem ég vildi, ekki síður en strákarnir. Einhvern vegin komst samfélagið þó inn fyrir vitund mína og litaði skoðanir mínar, hegðun og sjálfstraust. Þetta er, að ég held, eitthvað sem gerist ósjálfrátt vegna þeirra skilaboða sem okkur eru send t.d. í fjölmiðlum, sem og í samfélaginu sjálfu. Ég hef áttað mig á að þegar ég hef séð eitthvað í fari mínu, eins og þetta sem ég var að lýsa, þá smám saman fer það, ef ég held áfram að vera vakandi fyrir því þegar hegðunin poppar upp. Ég held ég geti með fullvissu sagt að ég sé laus við þennan kvilla núna, og stend fast á mínum skoðunum, hvort sem í hlut á samskipti við karlmann eða kvenmann. Auðvitað eru til undantekningar, en þá tek ég eftir því og leiðrétti mig.

 

Ég held líka að ef viðhorf okkar til hins kynsins er á einhvern hátt brenglað á þennan hátt, eins og ég nefni í spurningunum hérna fyrir ofan, þá sé erfiðara að eiga í fallegu ástarsambandi, þar sem jafnvægi, virðing og kærleikur ríkir.

 

5) Persónulegt frelsi. Það er svo frelsandi að fylgja eigin sannfæringu í stað þess að taka sannfæringu annara sem heilögum sannleika og lifa í ótta annarra. Við eigum ekki börnin okkar og við eigum ekki maka okkar. Þó að við viljum að þau geri eitthvað þá er þeim ekki skylt að fylgja því. Öll eigum við eitthvað sem heitir frjáls vilji. Þó við séum ósammála einhverju sem ástvinur okkar vill gera þá eigum við ekki rétt á að banna honum það. Við megum láta vita hvernig okkur líður en við verðum líka að virða rétt hins til að nýta sinn frjálsa vilja, og virða þá ákvörðun sem hann tekur.

 

Það er ógeðslega vont að vera í sambandi þar sem manni eru sífellt gefin skilaboð um að maður eigi að gera hlutina öðruvísi, að okkar leið sé ekki nógu góð. Eða að þurfa sífellt að láta vita af sér þegar maður er einhvers staðar að gera eitthvað. Það er engu líkara en að vera í fangelsi. Maður getur ekki leyft sér að vera á staðnum og notið þess að vera með fólkinu sem maður er með, lifa í augnablikinu, af því maður er sífellt að skoða símann til að sjá hvort makinn hafi sent sms eða hringt. Og ef það er extra skemmtilegt og maður ákveður að vera lengur en upphaflega planið var, að koma heim í öskur, skammir og fíluköst. Höfum gaman að lífinu. Höfum gaman að ástinni. Göngum SAMFERÐA í gegn um lífið, félagar, í stað þess að setja okkur á háan hest og halda að við vitum betur en hinn hvað sé honum/henni fyrir bestu. Segjum okkar skoðun en virðum einnig rétt hins til að vera ósammála. Nú ef þið eruð of ósammála til að þola það, þá er líka alltaf í boði að hætta saman. Ef við þurfum að taka af sjálfum okkur eða ætlast til að hinn taki af sjálfum sér þá er líklega ekki mikil hamingja ríkjandi í sambandinu. Þá vil ég heldur vera ein en bjóða sjálfri mér upp á óhamingjusamt samband.

 

 

 

Að sjálfsögðu má einnig yfirfæra þetta fyrir samkynhneigða. Þó ég sé að tala um samskipti kynjanna, þá eiga þessir punktar einnig við í því samhengi. Ég þekki það bara ekki svo ég kann ekki að fara með það. Að minnsta kosti eiga punktar 1-3 og 5 algjörlega við einnig fyrir samkynhneigða. En ég veit ekki með punkt 4. Hvort það sé öðruvísi þegar maður laðast að sama kyninu eða eins. Enda skiptir það ekki öllu. Ef þú tengir við þetta og þetta getur hjálpað þér á einhvern hátt þá er það aðalmálið.

 

 

Ást og friður <3

 

 

 

Elskum!!!! <3 <3 <3


 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband