Þriðjudagur, 22.7.2014
"Helvítis skólakerfi!!!"
Ég er viss um að allir hafa heyrt eða tekið þátt í samræðum sem ýja að innihaldi þessarar setningar. Það er eitthvað sem er ekki alveg að virka í þessu blessaða skólakerfi okkar. Ég átti samtal við vinkonu mömmu rétt í þessu, og langaði mig að blogga út frá þessu samtali.
Hún sagði mér frá því að barnabarn hennar, 10 ára strákur, væri í skóla hjá hjallastefnunni. Hún sagði mér að þegar hún spyrði hann hvernig væri í skólanum, þá svaraði hann hátt og snjallt "rosalega gaman", og þegar hún spyrði hann hvað hann væri að gera, þá svaraði hann "leika okkur". En svo sagði hún mér líka að hún ætti í mjög vitsmunalegum samræðum við þetta 10 ára barn. Þau eru greinilega að gera eitthvað rétt hjá hjallastefnunni, tel ég. Hún sagði mér líka að hún ætti 5 ára barnabarn sem væri í leikskóla hjá Hjallastefnunni, og sagði mér frá skemmtilegu atviki sem átti sér stað fyrir skömmu, þegar hann settist allt í einu á gólfið og krosslagði fæturnar, og hún spurði "hvað ertu að gera". Hann svaraði án þess að blikna "ég er bara aðeins að kjarna mig". Mér finnst þetta svo dásamlegt. Þetta er eitthvað sem allir þurfa að gera. Þegar lífið verður of yfirþyrmandi, eða við finnum að við dettum úr jafnvægi, að taka okkur augnablik til að tengja inn á við. Eins og mjög margir hafa komist að á fullorðinsárum, meðal annars ég. Enn eru margir sem ekki hafa lært þetta. En við sem höfum lært þetta erum einu máli sammála um að þessi lexía sé algjör lífsbjörg, og eigi stóran þátt í bættu líferni okkar í dag. Og bjargi okkur úr mörgum aðstæðum sem okkur þykir ofviða áður en við tökum okkur tíma til að stilla inn á við.
Að mínu mati er skólakerfið komið á það stig, og hefur verið síðan ég var barn, að það elur upp í okkur kvíða, ótta og fullkomnunarátáttu. Sumir halda að fullkomnunarárátta sé af hinu góða, en því er fjarri. Ef við erum haldin þeirri ofsafengnu trú um að við verðum að gera allt fullkomið þá flækist iðulega með henni mikill ótti. Þessi trú felur nefnilega í sér þá hugmynd um að "ef ég er ekki fullkomin(n) þá er ég ómöguleg(ur)". Og enginn vill vera ómögulegur. Þá getum við annað hvort leitast eftir því að vera alltaf fullkomin og gera allt fullkomið, með öðrum orðum, gera ALDREI mistök (sem, ef þú vissir það ekki nú þegar, er óhjákvæmilegt!), eða við getum ákveðið að gefast upp áður en við prófum, því við vitum að við munum ekki geta gert neitt fullkomið. Ég hef prófað báðar öfgarnar. Ég hef gefist upp og sleppt því að reyna, og ég hef gert allt sem ég get til að gera allt fullkomið. Veistu hvað? Ég gat það ekki! Og mér leið eins og ég væri ómöguleg.
Í gegn um sjálfsvinnu mína lærði ég afar mikilvæga lexíu. Það má gera mistök. Ekki bara það, heldur er GOTT AÐ GERA MISTÖK! Veistu af hverju? Þannig lærum við og þroskumst!! Mér finnst oft erfitt að fara inn í verkefni með það hugarfar að ég megi gera mistök, en þegar ég næ því þá er útkoman alltaf sú sama. Mér líður vel á meðan ég vinn verkefnið, og ég stend mig betur af því ég var ekki að flækja hlutina eða setja mér þau markmið að allt yrði að vera fullkomið. Það er nefnilega bara heftandi hugsunarháttur. Ef útkoman verður að vera fullkomin, þá þarf ég að passa hvert einasta skref sem ég tek í átt að þessari útkomu! Úff, tilhugsunin lætur mér líða eins og ég væri í fangelsi, algjörlega heft.
Samfélagið hefur einhvern vegin mótað þessar hugsanir að það sé slæmt að gera mistök. Við lærum þetta sem börn þegar við erum skömmuð fyrir að gera eitthvað "vitlaust" (t.d. að hella niður). En börn verða að fá að gera mistök, þannig læra þau. Og það sama á við um okkur.
Skólakerfið er að sjálfsögðu ekki undanskilið þessum hugsunarhætti samfélagsins. Ég varð fyrir smá uppgötvun fyrir nokkrum mánuðum, þegar ég var að klára námið mitt í LHÍ. Hún var sú, að það er ekkert skrítið að við kunnum ekki að lifa í núinu. Allt skólakerfið er byggt upp þannig að það kennir okkur að lifa ekki í núinu! Það veltur allt á framtíðinni. Þegar ég klára þetta verkefni, þegar ég klára þetta próf, þegar ég klára þennan áfanga, þegar ég klára þessa gráðu........... Þegar, þegar, þegar...... Hvenar endar þetta eiginlega? Megum við einhvern tíma bara slaka á og njóta, eða erum við dæmd til að eltast við ró sem við teljum okkur eignast þegar næsta verkefni klárast? Ég sá skemmtilegt myndband um daginn sem lýsir þessu ferli einstaklega vel: https://www.youtube.com/watch?v=6I2pcIbyq-0
Mín skoðun er sú, að maðurinn er í eðli sínu heill. Skapandi, hugsandi, gefandi, þakklátur, rólegur. En það verður eitthvað rof á eðli okkar í þeirri fyrringu sem nútímasamfélagið er. Okkur er kennt að sækja sífellt í "eitthvað" til að öðlast það sem við þráum. En það sem ég hef komist að, er að þetta "eitthvað" er innra með okkur allan tíman, og eina leiðin til að öðlast það, er að nema staðar, og bara vera. Ég er bara Vala. Ég þarf ekki stimpla eins og "tónskáld", "söngkona", "31 árs", "kona", "dóttir", "systir" osfrv. Þessir hlutir eru ekki ég og skilgreina mig ekki.
Ég er líka algjörlega á þeirri skoðun að til þess að við getum öðlast þetta, fundið okkur, kjarnað okkur, þá þurfum við umhverfi sem gefur okkur frelsi, pláss og tíma til þess. Samfélagslegar kröfur nútímasamfélagsins er ekki umhverfi sem veitir þetta frelsi, og nútímaskólakerfið er það ekki heldur. Það að okkur séu gefnar einkunnir fyrir allt sem við gerum, og að við fáum ekki staðfestingu nema klára ákveðið verkefni eða próf, veldur baráttu innra með okkur. Öll viljum við standa okkur vel. Öll viljum við vera klár, dugleg, "nóg". Með einkunnagjöf verður til ákveðið innra kerfi þar sem við metum eigið ágæti út frá því hvaða tölu við fáum á blaðið. Þetta veldur kvíða. Að svo gefnu að við höfum sterka þrá um að fá háa tölu. Við verðum hrædd um að standa okkur ekki nógu vel, og þá minnkum við í áliti okkar sjálfra, því við gerum ráð fyrir að við minnkum í áliti kennaranna og eflaust fjölskyldu okkar líka, ef við stöndum okkur ekki "nógu vel".
Ég er algjörlega sannfærð um að hjallastefnan sé komin með einhvers konar lausn á þessu vandamáli, og ég vona að stefna þeirra verði tekin til fyrirmyndar í hinu almenna skólakerfi. Draumur minn er að við sköpum umhverfi fyrir börn og fullorðna þar sem þeim líður vel, þar sem þeir fá hvatningu og stuðning, þar sem þeim getur liðið eins og þeir séu mikils virði, en ekki þannig að þau þurfi sífellt að sanna sig til þess að líða ekki eins og þau séu ómöguleg. Þar sem við hugsum í lausnum en ekki vandamálum.
Ég ætla að ljúka þessu á annari sögu sem vinkona hennar mömmu sagði mér.
Hún sagði mér að einu sinni hefði nýútskrifaður kennaranemi komið að vinna á deildinni hjá barnabarni hennar. Honum hefði brugðið svo við, því það væru margir ungir töffarar á þessari deild, og hann hefði orðið frekar óöruggur og ekki fundist hann ráða við bekkinn. Þá hefðu starfsmennirnir brugðist þannig við að þau settu annan kennara inn í bekkinn, sem hafði mika reynslu. Hann hefði hjálpað hinum þar til allt var búið að jafnast, og bæði börnum og kennara leið vel saman.
Þessi saga um samvinnu vakti mig til umhugsunar, því oftar en ekki hef ég heyrt sögur af foreldrum, kennurum og skólastjórum að rífast yfir aðstæðum. Kennarinn sé ekki nógu... "eitthvað", barnið sé of... "eitthvað" ....... Samkvæmt vinkonu mömmu er hugsunarhátturinn hjá Hjallastefnunni sá að "við vinnum saman og finnum lausn" en erum ekki að kenna hver öðrum um og rífast um hluti án þess að leita að lausnum.
Þetta hljómar kannski eins og ég sé að auglýsa Hjallastefnuna, en svo er alls ekki. Ég hef bara velt fyrir mér þessum göllum í skólakerfinu okkar, og það litla sem ég hef heyrt af hjallastefnunni þá virðast þeir vera að finna lausnir á vandamálum sem virðast há hinu almenna skólakerfi.. Hvort Hjallastefnan sé hin eiginlega lausn, eða hvort þróa þurfi ennþá betri leiðir veit ég ekki. En þetta virðist allavega vera góð byrjun á því að brjóta okkur út úr stöðnuðum hugmyndum sem augljóslega eru ekki að virka lengur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.