Nýtt líf

Eins og margir vita missti ég pabba minn fyrir rétt rúmu ári síðan.

Það var hans ákvörðun að fara. Hann féll fyrir eigin hendi.

 

Það þekkja það aðeins þeir sem á það hafa reynt að þetta er áfall engu líku og það er engin leið að koma í orð þeim tilfinningarússíbana sem því fylgir.

Ég hef glímt við alvarlegt þunglyndi frá því ég var unglingur, en áttaði mig þó ekki á því hversu alvarlegt fyrr en um hálfu ári áður en pabbi dó, í kjölfar alvarlegs taugaáfalls. Þegar ég sá alvarleika málsins tók ég þá ákvörðun að setja heilsu mína í forgang. Ég var nýkomin á nýjan og betri stað sem ég hafði ekki upplifað sem fullorðinn einstaklingur þegar pabbi minn tók líf sitt. Þar með varð ég fyrir öðru áfalli. Við tók viðstöðulaus vinna við að takast á við áfallið og alla þá tilfinningaringulreið sem út úr því kom. 

Ég hef ekki fundið fyrir löngun til að blogga í marga mánuði vegna þessa.

Ég kynntist manni tæpum 3 mánuðum eftir að pabbi dó og komst að því í lok ársins 2014 að ég væri barnshafandi. Við eigum von á lítilli stelpu í ágúst. Eins og gefur að skilja hefur þetta einnig haft gífurleg áhrif á mig.

 

Ég samdi ljóð í kvöld þar sem þessar tilfinningar komust að einhverju leiti í orð og langar mig að deila því með ykkur.

Takk fyrir að hlusta <3

 

Nýtt líf

 

Eitt lítið spark

og vonin kviknar.

Ljós í mínu legi

sem kemur með nýtt líf.

Vonin

hún kemur með þér.

 

Eitt andartak

og ástin kviknar.

Fiðringur í hjarta,

sem færir með sér líf.

Ljósið

það flýgur með þér.

 

Eitt lítið bros,

sem til þín brosti breiðu.

Þú í mér kveiktir líf

sem allt mér gefur.

Ástin

hún fæddist fyrst með þér.

 

-----------------------

 

Líf þitt

burt úr heimi þessum hvarf

í andrá einni.

Vorsins ljós

að myrkri varð

með hugsun feigri.

 

---------------------



Þitt litla spark

og vonin kviknar.

Ljós hér innra

sem með sér ber nýtt líf.

Vonin

hún kemur með þér.

 

Eitt lítið spark

og vonin kviknar.

Ljósið hér innra

sem færir með sér líf.

 

Ljósið

sem vonina kveikti..

Ástin

í einni andrá öllu breytti..

Vonin

hún kemur með þér.

 

Vonin

hún kemur með þér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband