Miðvikudagur, 31.8.2016
Af hverju make-up?
Ég er búin að vera að velta fyrir mér eðli make-ups í dag.
Fór að spá í því, af hverju nota konur make-up?
Fyrir mitt leiti þá byrjaði ég að nota make-up að einhverju ráði í menntaskóla. Þá fór ég að mála mig á hverjum degi og þá byrjaði ég líka að nota meik. Ég var með fína húð þá. Fékk stöku sinnum bólur en engin ör, og ekki margar bólur í einu. Stundum var ég ekki með neinar bólur. Ein stelpa í bekknum notaði meik á hverjum degi og hún var með mikið af bólum. Hún notaði meikið til að fela bólurnar. Hún sagði einu sinni við mig: "Vala, hvernig ferðu eiginlega að því að vera með svona fallega húð?" - Ég hafði engin svör. Ég vissi ekki einu sinni að ég væri með fallega húð, og ég var ekkert sérstaklega mikið að reyna það.
En samt ákvað ég að byrja að nota kanebo meik á hverjum einasta degi, sömu tegund og þessi stelpa notaði. Ég fékk að prófa einu sinni hjá henni og mér fannst ég verða svo "ógeðslega sæt" að ég varð háð þessu. Enda var þetta eins og andlitslituð steypa, svoleiðis sléttaði úr hverri einustu svitaholu svo maður leit út eins og konurnar í tískublöðunum (sem ég veit núna að líta þannig út vegna photo-shop! Það er engin kona með svona húð í alvörunni!!) En ég var eins og dúkka og mér fannst það gaman.
Mér hafði aldrei fundist ég neitt sæt. Stundum voru vinkonur mínar eða mamma mín að segja mér að ég væri sæt en ég hélt þær væru bara að segja það til að láta mér líða betur með sjálfa mig. Ekki að þær meintu í alvörunni að þeim finndist ég vera sæt. En þegar ég kynntist mætti make-ups-ins, þá breyttist þetta viðhorf. Þá byrjaði mér að finnast ég vera sæt þegar ég var máluð, en ljót þegar ég var ómáluð. Ég hætti að fara út úr húsi ómáluð og var með rosalegan kvíða yfir því að fólk gæti séð mig ómálaða. Þá sjaldan að ég brá mér út í hagkaup eða eitthvað álíka, ómáluð, var ég með þvílíkan kvíðahnút í maganum, og vonaði innilega að ég rækist ekki á neinn sem ég þekkti. Þegar það gerðist þá var ég lítil í mér, skammaðist mín fyrir að bera þennan hryllilega ljótleika undir augu tiltekinnar manneskju, horfði ofan í gólfið, þorði ekkert að tala og reyndi að komast í burt eins fljótt og ég gat. Og leið svo illa í svona 2 daga á eftir fyrir að hafa orðið mér til svona mikillar skammar.
Þetta var þegar ég var sirka 18 ára, og það var ekki fyrr en um 10 árum síðar sem ég byrjaði að prófa að vera stundum bara ómáluð. Fyrst um sinn var það einungis þegar ég rétt brá mér út í búð og því um líkt, en smám saman fór ég að þora að mæta t.d. í skólann ómáluð. Það breyttist þó ekki að ég skammaðist mín fyrir ljótleika minn og fannst ég ekki nógu vel tilhöfð. Þetta er svona enn þann dag í dag. Þegar ég mála mig þá er ég mjög sjálfsörugg og finnst ég vera falleg kona. Og það hefur áhrif á það hvernig ég stend, ber mig, geng, og hvernig ég er í félagslegum samskiptum við fólk. Ég lít út fyrir að vera sjálfsörugg. Þegar ég er ómáluð þá er alltaf smá hluti af mér sem finnst ég ekki nógu sæt, ekki nógu góð, og það sést á líkamsburði mínum og félagslegum samskiptum við fólk.
En ég veit ekki af hverju aðrar konur nota make-up. Ég notaði það alltaf til að "fela" mig. Sem grímu. Í dag þá nota ég bara make-up þegar ég fer eitthvað út, nema einstaka sinnum hversdagslega þegar mig langar til þess. En í rauninni langar mig ekkert til að nota make-up. Mig langar að vera falleg ómáluð. Mig langar að finnast ég vera falleg ómáluð.
Ég byrjaði að fá bólur sama ár og ég byrjaði að nota kanebo make-up. Ég byrjaði að reyna að "venja mig af" kanebo, og við tók viðstöðulaus barátta við bólur og að reyna að finna rétta make-up-ið sem ekki ylli þessum bólum. Í 10 ár barðist ég við bólur og ég er enn með bólur í dag. Stundum ekki mikið. En ég er með ör. Stundum er ég með mjög mikið af bólum. Það skiptir engu máli hvort ég nota meik í dag eða ekki, það virðist ekki hafa áhrif, enda fann ég loksins meik sem er aðeins betra fyrir húðina (bare-minerals.)
Mér finnst bólurnar gera mig ljóta. Kærastinn minn segir að það sé ekki satt. En mér finnst það. Ég held í rauninni að aðal ástæða þess að ég nota make-up í dag sé vegna þess að samfélagið er þannig að konur nota make-up til að ýkja fegurð sína og mér líður betur í þessu samfélagi og í samskiptum við fólk ef mér finnst ég vera falleg.
En fallegustu konur sem ég veit um eru þær sem eru fallegar án make-ups. Sem hafa þessa innri fegurð, þennan ljóma - og það virðist engu máli skipta í hvernig fötum þær eru, hvernig þær standa, hvernig hárið er eða hvort þær séu málaðar. Þær eru bara fallegar. Fallegar konur.
Kannski er ég þannig, ég veit það ekki. En mig langar að sjá mig þannig, í stað þess að finnast ég "skyldug" til að mála mig til að vera "viðurkennd" í samfélaginu. Þó er ég ekki að segja að þetta sé ábyrgð samfélagsins. Kannski er það ábyrgð samfélagsins, kannski er það mín. Kannski örlítið af hvoru....
Af hverju notar þú make-up?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.