Ragneiður... Ég neita að vera meðvirk!!! :)

Kunningjavinkona mín Sigga Soffía sem er dansari og vinnur við að ferðast um heiminn og dansa í margskonar sýningum skrifaði status á facebook um daginn þar sem hún var að hvetja Íslendinga til að hætta að vera svona meðvirkir áhorfendur. Hún gagnrýndi það hvernig við klöppum eins og við eigum lífið að leysa og stöndum upp á nánast hverri einustu sýningu. Hún sagði eitthvað á þá leið: Hættið að vera svona meðvirk! Ef þið fílið ekki sýninguna, ekki klappa, og það má líka bara púa!

Ég ætla að taka hana mér að fordæmi og halda áfram að efna áramótaheitið mitt um að segja allt sem mér finnst ég þurfa að segja jafnvel þótt ég sé hrædd, og segja mína skoðun á nýju íslensku óperunni Ragnheiði sem frumsýnd var síðasta laugardag. 

Ég ætla að voga mér að segja það hér á veraldarvefnum að ég var ekki hrifin af tónlistinni. Ég virðist þó vera á meðal afar fárra sála þessarar skoðunar. 

Ég veit ekki hvað það er. Mér fannst tónlistin falleg. En mér fannst hún eiginlega OF falleg. Mér fannst ekki vera neitt í gangi. Ég held ég hafi heyrt fyrstu spennuna í hljómi þegar var liðið á seinni hluta annars kafla, og kórinn söng einradda alveg þar til í blálokin - sem mér fannst bara vera sóun á góðum kór! Mér finnst fallegt að láta kóra syngja einradda svona inn á milli sem ákveðinn effect, en að mínu mati skiptir fjölbreytni afar miklu í tónlist. Að nota hljóðfærin sem maður er með á sem fjölbreyttastan máta og nýta það sem maður hefur. Mér finnst léleg nýting á svona flottum kór að láta hann syngja einradda nánast allan tímann.

Mér leiddist fyrsta hálftímann vegna þess að mér leið eins og ég væri að "af-læra" það sem ég hef lært í Listaháskólanum. Eins og heilanum mínum væri ofboðið því þetta var allt of auðmelt. Eins og ég væri neydd til að borða barnamat þegar líkaminn minn vill fá brokkolí, eitthvað staðfast, almennilegt til að melta. Ég íhugaði það alvarlega að labba út því mér fannst þetta bara óþæjilegt! En svo eftir þennan fyrsta hálftíma fannst mér þetta aðeins skána og eitthvað aðeins farið að gerast í tónlistinni.

Mér fannst vanta allt "krydd", eitthvað til að gera þetta áhugavert, spennandi, nýstárlegt. Hvað er nýsköpun? Tónlist er sífellt að þróast og má sérstaklega nefna að síðan í byrjun 20. aldar hafa afar flottir hlutir verið að gerast. Afturhvarf í gamla stíla getur verið mjög athyglisvert og fallegt, en mér finnst samt persónulega alltaf nauðsynlegt að bæta einhverju við. Mér leið eins og ég væri að horfa á Disney mynd. Ekki misskilja, ég elska Disney tónlist, en mig langar ekki að horfa á Disney-óperu.

Reyndar fannst mér annar kaflinn betri en sá fyrsti, og þegar tók að líða á seinni hluta kaflans gerðust nokkrir svolítið áhugaverðir hlutir.

Mér finnst tækifæri eins og þetta, ný al-íslensk ópera bjóða upp á svo mikla möguleika á sviði nýsköpunar og þykir mér miður að nýta ekki svoleiðis tækifæri til fulls. Við eigum ótal mörg glæsileg tónskáld sem hafa setið á skólabekkjum í mörg ár og stúderað tónlist fram og til baka. Af hverju var ekki eitt af þeim fengið til að semja tónlistina?

Mér fannst allt annað við sýninguna frábært; Söngurinn, leikurinn, búningarnir, ljósin, sviðsmyndin, hljómsveitin. Ég hefði viljað heyra þetta með tónlist eftir alvöru tónskáld. Sorrý með mig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband