Færsluflokkur: Bloggar

Af hverju make-up?

Ég er búin að vera að velta fyrir mér eðli make-ups í dag.

Fór að spá í því, af hverju nota konur make-up?

Fyrir mitt leiti þá byrjaði ég að nota make-up að einhverju ráði í menntaskóla. Þá fór ég að mála mig á hverjum degi og þá byrjaði ég líka að nota meik. Ég var með fína húð þá. Fékk stöku sinnum bólur en engin ör, og ekki margar bólur í einu. Stundum var ég ekki með neinar bólur. Ein stelpa í bekknum notaði meik á hverjum degi og hún var með mikið af bólum. Hún notaði meikið til að fela bólurnar. Hún sagði einu sinni við mig: "Vala, hvernig ferðu eiginlega að því að vera með svona fallega húð?" - Ég hafði engin svör. Ég vissi ekki einu sinni að ég væri með fallega húð, og ég var ekkert sérstaklega mikið að reyna það.

En samt ákvað ég að byrja að nota kanebo meik á hverjum einasta degi, sömu tegund og þessi stelpa notaði. Ég fékk að prófa einu sinni hjá henni og mér fannst ég verða svo "ógeðslega sæt" að ég varð háð þessu. Enda var þetta eins og andlitslituð steypa, svoleiðis sléttaði úr hverri einustu svitaholu svo maður leit út eins og konurnar í tískublöðunum (sem ég veit núna að líta þannig út vegna photo-shop! Það er engin kona með svona húð í alvörunni!!) En ég var eins og dúkka og mér fannst það gaman.

Mér hafði aldrei fundist ég neitt sæt. Stundum voru vinkonur mínar eða mamma mín að segja mér að ég væri sæt en ég hélt þær væru bara að segja það til að láta mér líða betur með sjálfa mig. Ekki að þær meintu í alvörunni að þeim finndist ég vera sæt. En þegar ég kynntist mætti make-ups-ins, þá breyttist þetta viðhorf. Þá byrjaði mér að finnast ég vera sæt þegar ég var máluð, en ljót þegar ég var ómáluð. Ég hætti að fara út úr húsi ómáluð og var með rosalegan kvíða yfir því að fólk gæti séð mig ómálaða. Þá sjaldan að ég brá mér út í hagkaup eða eitthvað álíka, ómáluð, var ég með þvílíkan kvíðahnút í maganum, og vonaði innilega að ég rækist ekki á neinn sem ég þekkti. Þegar það gerðist þá var ég lítil í mér, skammaðist mín fyrir að bera þennan hryllilega ljótleika undir augu tiltekinnar manneskju, horfði ofan í gólfið, þorði ekkert að tala og reyndi að komast í burt eins fljótt og ég gat. Og leið svo illa í svona 2 daga á eftir fyrir að hafa orðið mér til svona mikillar skammar.

Þetta var þegar ég var sirka 18 ára, og það var ekki fyrr en um 10 árum síðar sem ég byrjaði að prófa að vera stundum bara ómáluð. Fyrst um sinn var það einungis þegar ég rétt brá mér út í búð og því um líkt, en smám saman fór ég að þora að mæta t.d. í skólann ómáluð. Það breyttist þó ekki að ég skammaðist mín fyrir ljótleika minn og fannst ég ekki nógu vel tilhöfð. Þetta er svona enn þann dag í dag. Þegar ég mála mig þá er ég mjög sjálfsörugg og finnst ég vera falleg kona. Og það hefur áhrif á það hvernig ég stend, ber mig, geng, og hvernig ég er í félagslegum samskiptum við fólk. Ég lít út fyrir að vera sjálfsörugg. Þegar ég er ómáluð þá er alltaf smá hluti af mér sem finnst ég ekki nógu sæt, ekki nógu góð, og það sést á líkamsburði mínum og félagslegum samskiptum við fólk.

En ég veit ekki af hverju aðrar konur nota make-up. Ég notaði það alltaf til að "fela" mig. Sem grímu. Í dag þá nota ég bara make-up þegar ég fer eitthvað út, nema einstaka sinnum hversdagslega þegar mig langar til þess. En í rauninni langar mig ekkert til að nota make-up. Mig langar að vera falleg ómáluð. Mig langar að finnast ég vera falleg ómáluð. 

Ég byrjaði að fá bólur sama ár og ég byrjaði að nota kanebo make-up. Ég byrjaði að reyna að "venja mig af" kanebo, og við tók viðstöðulaus barátta við bólur og að reyna að finna rétta make-up-ið sem ekki ylli þessum bólum. Í 10 ár barðist ég við bólur og ég er enn með bólur í dag. Stundum ekki mikið. En ég er með ör. Stundum er ég með mjög mikið af bólum. Það skiptir engu máli hvort ég nota meik í dag eða ekki, það virðist ekki hafa áhrif, enda fann ég loksins meik sem er aðeins betra fyrir húðina (bare-minerals.)

Mér finnst bólurnar gera mig ljóta. Kærastinn minn segir að það sé ekki satt. En mér finnst það. Ég held í rauninni að aðal ástæða þess að ég nota make-up í dag sé vegna þess að samfélagið er þannig að konur nota make-up til að ýkja fegurð sína og mér líður betur í þessu samfélagi og í samskiptum við fólk ef mér finnst ég vera falleg.

En fallegustu konur sem ég veit um eru þær sem eru fallegar án make-ups. Sem hafa þessa innri fegurð, þennan ljóma - og það virðist engu máli skipta í hvernig fötum þær eru, hvernig þær standa, hvernig hárið er eða hvort þær séu málaðar. Þær eru bara fallegar. Fallegar konur.

Kannski er ég þannig, ég veit það ekki. En mig langar að sjá mig þannig, í stað þess að finnast ég "skyldug" til að mála mig til að vera "viðurkennd" í samfélaginu. Þó er ég ekki að segja að þetta sé ábyrgð samfélagsins. Kannski er það ábyrgð samfélagsins, kannski er það mín. Kannski örlítið af hvoru....

Af hverju notar þú make-up?


Móðir bloggar - Fæðingarþunglyndi.

Ég hef áður bloggað um þunglyndi. Ég hef bloggað um eigin reynslu af þunglyndi og ég hef komið með eigin pælingar varðandi hugtakið. Nú langar mig aftur að blogga um þunglyndi. En í þetta skiptið langar mig að tala um fæðingarþunglyndi, sem er eitt af þeim orðum sem maður heyrir oft talað um í dag.

Ég vil nefnilega meina að þetta sé ekki þunglyndi. Það fer reyndar eftir því hvernig maður skilgreinir hugtakið. Mín hugmynd er sú að þessi tilfinningarússúbani sem margar konur upplifa eftir að hafa fætt barn, sé algjörlega, og fullkomlega eðlilegur. Þetta er mitt mat. Mín upplifun.

Að vísu er ég ennþá í þessari hringiðu sem margir vilja kalla fæðingarþunglyndi, svo ég er kannski ekki alveg dómbær um það ennþá hvað þetta þýðir. En ég tel mig hafa nokkuð skýra mynd af þessu loksins.

Skoðum aðeins hvað kona, sem er með nýfætt barn í fanginu, hefur upplifað. Hún hefur verið með “sníkjudýr” inni í sér í 9 mánuði, sem tók af fæðunni sem hún borðaði, en gerði hana líka oft á tíðum mjög þreitta. Hún þurfti líka að vakna oft á nóttu til að fara að pissa af því barnið þrýsti á þvagblöðruna hennar. Svo var erfitt að koma sér þægilega fyrir með krílið í maganum, svo hún hefur ekki sofið vel í margar vikur, jafnvel mánuði. Hún hefur jafnvel kastað upp. Jafnvel oft. Henni hefur verið óglatt, hún hefur haft lítið þol, og verið þung í skrefum í margar vikur eða mánuði (fer eftir því hversu mikil áhrif barnið hefur á líkama konunnar.) Hún hefur eflaust samt hugsað með sér með tilhlökkun hversu yndislegt það yrði að fá krílið í hendurnar, og ef til vill fengið nett samviskubit yfir því að hugsanir um erfiðleika tengda meðgöngunni hafi þvælst með. Hún hefur eflaust hlakkað til að “losna við” barnið úr líkamanum, fá líkamann sinn aftur, og finna fyrir því að hún geti verið aðeins léttari á fæti aftur. Kannski hefur bæst ofan á þetta að pabbinn hefur ekki verið nógu stuðningsríkur í þessu erfiða ferli.

Svo kemur að fæðingunni, sem er gífurlegt púl líka. Fæðing er mismunandi upplifun fyrir alla, og hver einasta fæðing er ný upplifun svo ég ætla alls ekki að að alhæfa neitt um það. Langflestar konur eru þó sammála um að það að fæða barn sé í besta falli orkufrekt ferli, í versta falli gífurlegt álag á líkama og sál, og skilur mann eftir í vægu eða rosalegu áfalli eftir átökin. Í kjölfarið fylgir yfirleitt svefnlaus nótt. Þannig var það hjá mér og komst að því að það væri alls ekki óalgengt. Ég var í sjokki og endurupplifði atburði dagsins, m.a. fékk ég “flash-back” af verkjunum. Ég fékk hinsvegar engin verkjalyf, svo þetta á örugglega ekki við um allar. Svo var þessi litla guðdómlega vera liggjandi við hliðina á mér og ég vildi helst horfa á hana alla nóttina til að passa að hún hætti örugglega ekki að anda.

Já, heyrðu, ekki má gleyma brjóstagjöfinni! Fyrir mig var það ótrúlega erfitt! En samt gekk þetta eins og í sögu. Það kom strax broddur, um leið og við prófuðum að leggja hana á brjóstið um það bil 30 mínútum eftir fæðinguna (held ég, tímaskynið var ekki alveg upp á sitt besta á þessu augnabliki). Og hún teygaði mjólkina. Það vantaði ekki. Alveg frá fyrstu tilraun rann mjólkin vel. En fyrir mig var bara nógu erfitt að finna fyrir þessu í líkamanum. Og ég man eftir hormónunum. Mér leið eins og ég væri í vímu. Samt tók ég engin verkjalyf í fæðingunni svo þetta var algjörlega náttúruleg víma. Og það var skrítið. Ég hef meira að segja aldrei tekið vímuefni (nema áfengi) svo þetta var meiriháttar skrítið fyrir mig! Og svo fann ég hvernig mjólkurkirtlarnir voru að fara í gang, og þetta var mjög óþægilegt, verð ég að segja! Líkaminn hafði aldrei áður notað þessa kirtla, og jafnvel þó þeir væru búnir að vera að undirbúa sig síðustu 9 mánuði á undan, þá var samt mjög skrítið og erfitt þegar þeir voru að komast í gang.

Svo þurfti líkaminn minn að stilla sig inn á þarfir barnsins, og það gekk aðeins brösulega í byrjun því ég framleiddi ekki næga mjólk fyrir hana á kvöldin og þá orgaði hún í 3 klukkutíma á hverju kvöldi. Og kærastinn minn á erfitt með skapið sitt, svo hann meikaði ekki þetta org (enda er vægast sagt erfitt að hlusta á svona org í langan tíma og geta ekkert gert fyrir barnið!!!) - hann varð pirraður og reiður og vildi að ég gerði eitthvað. Svo ég var þarna með organdi ungabarn og reiðan mann. FRÁBÆRT!! ….. Eða nei…. Ekki alveg….

Ég elskaði þau bæði. Ég elskaði hana og dáði og mér fannst hún það fallegasta sem ég hafði séð. Hún var fullkomin. Dásemd. En, guð minn almáttugur hvað ég var uppgefin á líkama og sál!! Og ekki hjálpaði að kærastinn varð líka reiður út í mig.



Þetta er bara saga einnar konu. Þetta er ekki alhæfing. EN.. Það er staðreynd að mjög margar konur upplifa erfiðar tilfinningar í kjölfar fæðingar. Og þegar maður horfir á hvað konan hefur þurft að þola, þá finnst mér það alveg eðlilegt. Persónulega vil ég ekki kalla þetta þunglyndi því mér finnst það fela í sér að það sé eitthvað að konunni. Fyrir mér eru þetta fullkomlega eðlileg viðbrögð kerfisins á mjög krefjandi aðstæðum.

 

Svo er framhaldið afar mismunandi eftir einstaklingum. Margir ákveða að láta barnið sitt “gráta það út” til að kenna því að sofa sjálfu, og þá fær móðirin fljótt nætursvefninn sinn. En í dag eru margir sem kjósa að gera þetta ekki. Þá heldur áfram gríðarlegt álag á mömmunni, því það getur æxlast þannig að hún fær ekki nætursvefn í marga mánuði.

Við ákváðum að láta hana ekki “gráta það út”. Þessvegna er ég núna í þessum sporum, að hafa ekki sofið heila nótt í 8,5 mánuði, þar sem dóttir okkar hefur átt erfitt með svefn. Ekki bara það heldur sefur hún yfirleitt ekki langa dúra á daginn, svo ég fæ sjaldan pásu - sem er líka krefjandi.

Það að vera 24-7 á “call back” fyrir manneskju sem skilur mann takmarkað, öskrar þegar hún er ekki sátt og veldur því að maður vaknar í besta falli 1-2svar, í versta falli kannski 20 sinnum yfir nóttina, er erfitt. Sama hvað hver segir. Og þetta er mjög persónubundið. Sum börn sofa tímunum saman án nokkurs vesens. Sum börn gráta nánast aldrei. En það er ekki reglan. Fyrir margar mæður er þetta rosalega krefjandi.

En svo er þetta líka spurning um val. Ég valdi að fara þessa leið og ég stend með henni. Ég tel það vera það besta fyrir barnið mitt.

 

Hugsanir sem ég finn fyrir eru líka t.d. að ég hljóti að vera ömurleg móðir ef ég vil ekki vera með barninu mínu 24-7. Ég veit að þetta er ekki rétt, en þetta er hugsun sem kemur reglulega upp. Þessvegna hef ég líka átt erfiðara með að láta hana í pössun, og jafnvel að skilja hana eftir með pabba sínum. Þetta er einhvers konar togstreita: Ég vil fá pásu, en samt einhvern vegin vil ég ekki fara frá henni!!!! En ég veit að rétta leiðin er að fara frá henni reglulega, því þegar ég geri það, þá finn ég meira hvað ég elska hana, og ég verð skemmtilegri og betri móðir fyrir vikið.

En þetta er eilífur dans. Að finna þetta jafnvægi. Fara í burtu nóg til að geta elskað barnið meira. Veita barninu það sem það þarf en muna líka að hugsa um sjálfa sig, og passa að maður sjálfur fái það sem maður þarf. Svefn, næringu, félagsskap fullorðinna manneskja, tíma einn með makanum, tíma einn!!

 

Dóttir mín á það ennþá stundum til að vekja mig 20 sinnum á nóttu (eins og síðustu vikuna!) en hún á það líka til að vekja mig bara einu sinni. Hún á það til að sofa bara í 30 mínútur í einu á daginn, en hún á það líka til að sofa í 2-3 klst í einu. Ég get örugglega sjálfri mér um kennt að vera ekki búin að koma á meiri rútínu hjá henni, en samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem ég aðhyllist, þá finnur barnið sjálft sinn takt, og mikilvægast sé að veita því það sem það þarf, þegar það þarf það. Það þýðir samt ekki að það sé ekki hægt, með blíðum aðferðum, að koma á meiri svefnrútínu hjá barninu, og er það eitthvað sem við ætlum að leggjast í næstu vikur og mánuði.

En akkúrat núna er ég bara þakklát fyrir að fá stundum tíma fyrir mig meðan hún sefur á daginn, eins og núna. Tíma sem ég nota yfirleitt bara í að fá mér að borða, vinna, eða vinna húsverk - en núna ákvað ég að blogga. Kannski get ég farið að leyfa mér að lesa bók eða horfa á mynd af og til líka :)

En þetta hafa verið vægast sagt strembnir 8,5 mánuðir síðan hún fæddist. Og það er allt í lagi. En það er líka eðlilegt að vera í tilfinningarússíbana á meðan svona krefjandi verkefni tekur allan manns tíma og orku! Það er guðdómlega dásamlegt að fá að vera móðir, og ég er óendanlega þakklát fyrir það (ég hefði aldrei viljað sleppa því!) - en þetta er samt líka - afsakið orðbragðið - DRULLU erfitt!!!

 

Ég veit að þessar svefnlausu nætur líða hjá og eftir sitja ljúfar minningar um litla fingur og dásamlegar stundir með lítið kríli í fanginu að drekka mömmumjólk. Svo ég er þakklát fyrir þennan tíma, þrátt fyrir erfiðleika líðandi stundar.

Ég hlakka til að fá að kynnast litla krílinu betur, sjá hana vaxa og dafna þar til hún verður fullorðin kona og flýgur úr hreiðrinu.. Þangað til ætla ég að leyfa mér að upplifa tilfinningar líðandi stundar, hvort sem þær eru ljúfar eða erfiðar. <3 <3 <3

 


Vinkonur

Ég held ég hafi á sínum tíma verið komin með ágætis orðspor fyrir að þora að tala um hluti sem fæstir þora að tala um, að minnsta kosti á obinberum vetvangi. 

En ég hef einnig gífurlega sterka trú á því að það sé rétt að fylgja innsæinu sínu, og leyfa sér að ganga í gegn um breytingar sem eru órjúfanlegur hluti af lífinu.

Ég hef af þeim sökum bloggað mjög lítið síðustu 2 ár, vegna þess að mér þótti ekki lengur þægilegt að tjá mig á þennan máta. Síðustu vikur og mánuði hef ég þó fundið kynda undir gömlum blossa.

Það sem ég er að takast á við þessa dagana er félagsfælnin mín. Eða eins og ég vil eiginlega kalla hana "vinkonufælni", og hef ég tekið eftir því að hún lýsir sér nánast alveg eins og sambandsfælni. Ég er hinsvegar ekki með sambandsfælni, en hegða mér nákvæmlega eins og sambandsfælin manneskja í samskiptum við alla nema þann sem ég er skotin í/að deita/maka minn.

Síðan ég fór að vinna í sjálfri mér, hef ég séð ákveðið mynstur í því hvernig hlutir, eða vandamál "fara" úr lífi mínu. Hvernig ég næ að þroskast út úr skaðlegu hugsanamynstri og/eða hegðunarmynstrum. Það er að sjá vandamálið(eða hegðunina sem ég vil breyta), sjá óttann sem tilhugsunin um breytingu fylgir, og finna svo kjarkinn til að takast á við vandamálið engu að síður. Þrátt fyrir þann gífurlega ótta sem iðulega fylgir því að breyta einhverju sem maður er búinn að vera fastur í lengi, oft nánast alla ævina. Og sleppa svo tökunum. Og leyfa því að gerast. Vera vakandi. Taka eftir því hvernig mynstrið kemur upp í lífinu. Og taka eftir hegðuninni sem fylgir. Sjá svo óttann á bakvið hegðunina. Og sýna sér umburðarlyndi. Það má ekki gleyma því. Muna að það er alltaf ástæða fyrir ákveðinni hegðun, og í 99% tilfella er lítið hrætt barn á bak við óttann, sem skilur ekkert af hverju það er hrætt. Og ef við förum að rífa okkur niður, þá verður þetta litla hrædda barn bara hræddara, ringlaðra og sorgmæddara.

Núna áðan var ég að gefa barninu mínu brjóst og hugleiða um leið, og þá sá ég þetta allt í einu svo skýrt. Félagsfælnina mína.

Þetta er svo einfalt. Ég óttast að setja mörk. Ég óttast að ég sé ekki nógu ákveðin til að geta sett mörk. Ég óttast að fæla fólk frá ef ég set mörk. Innst inni vil ég alltaf vera fullkomin, þeas. gera allt rétt. ALLT. Þar með talið er að vera góð vinkona. En hvað er góð vinkona? Hver er skilgreiningin á "góðri vinkonu"? Hver og einn þarf að sjálfsögðu að skilgreina það fyrir sjálfan sig. Ég fór að hugsa "hver er mín skilgreining á því hvað er að vera góð vinkona?" Og áttaði mig á svolitlu frekar fyndnu. Mín skilgreining á því að vera góð vinkona er bara hundúrelt!!! Hún er mynduð, ómeðvitað, úr upplýsingum sem ég týndi saman á lífsleiðinni, þegar ég var 5 ára, 9 ára, 12 ára, 16 ára. En líklega ekki lengur en það. Og ég held að það hljóti að vera deginum ljósara að skilgreining á "góðri vinkonu" hlýtur að vera allt öðruvísi hjá fullorðinni konu en hjá 9 ára stelpu. Haha, ég get ekki annað en hlegið þegar ég spái í þessu. Hugmyndir mínar hafa bara ekkert þroskast, því ég hef aldrei spáð í þessu.

 

En þá sé ég líka að ég get skilgreint þetta upp á nýtt. Ég get verið góð vinkona með því að hafa samband við ákveðna prósentu af vinkonum mínum mjög reglulega, innsta hring, og átt svo aðrar vinkonur sem ég hef minna samband við. Ég get verið góð vinkona með því að vera gefandi í samskiptum mínum við alla, ekki bara þær manneskjur sem ég lít á sem vinkonur mínar. Og það er í lagi að svara ekki símanum, það er í lagi að hringja ekki til baka, og það er í lagi að segja nei ef einhver vill hitta mig. En það er líka í lagi að hleypa fólki inn í líf mitt. Það er líka í lagi að svara símanum eða hringja til baka! Ég þarf ekki að vera hrædd. Því ég kann að setja mörk. Og það má setja mörk. Ég er ekki að særa fólk ef ég segji nei, þó að 9 ára stelpan innra með mér haldi það ef til vill. 

Ég vona að þessi uppgötvun mín geti hjálpað einhverjum sem kannast við svipaðan ótta hjá sér :)

 

Ást til ykkar allra!

 

Namaste <3


Nýtt líf

Eins og margir vita missti ég pabba minn fyrir rétt rúmu ári síðan.

Það var hans ákvörðun að fara. Hann féll fyrir eigin hendi.

 

Það þekkja það aðeins þeir sem á það hafa reynt að þetta er áfall engu líku og það er engin leið að koma í orð þeim tilfinningarússíbana sem því fylgir.

Ég hef glímt við alvarlegt þunglyndi frá því ég var unglingur, en áttaði mig þó ekki á því hversu alvarlegt fyrr en um hálfu ári áður en pabbi dó, í kjölfar alvarlegs taugaáfalls. Þegar ég sá alvarleika málsins tók ég þá ákvörðun að setja heilsu mína í forgang. Ég var nýkomin á nýjan og betri stað sem ég hafði ekki upplifað sem fullorðinn einstaklingur þegar pabbi minn tók líf sitt. Þar með varð ég fyrir öðru áfalli. Við tók viðstöðulaus vinna við að takast á við áfallið og alla þá tilfinningaringulreið sem út úr því kom. 

Ég hef ekki fundið fyrir löngun til að blogga í marga mánuði vegna þessa.

Ég kynntist manni tæpum 3 mánuðum eftir að pabbi dó og komst að því í lok ársins 2014 að ég væri barnshafandi. Við eigum von á lítilli stelpu í ágúst. Eins og gefur að skilja hefur þetta einnig haft gífurleg áhrif á mig.

 

Ég samdi ljóð í kvöld þar sem þessar tilfinningar komust að einhverju leiti í orð og langar mig að deila því með ykkur.

Takk fyrir að hlusta <3

 

Nýtt líf

 

Eitt lítið spark

og vonin kviknar.

Ljós í mínu legi

sem kemur með nýtt líf.

Vonin

hún kemur með þér.

 

Eitt andartak

og ástin kviknar.

Fiðringur í hjarta,

sem færir með sér líf.

Ljósið

það flýgur með þér.

 

Eitt lítið bros,

sem til þín brosti breiðu.

Þú í mér kveiktir líf

sem allt mér gefur.

Ástin

hún fæddist fyrst með þér.

 

-----------------------

 

Líf þitt

burt úr heimi þessum hvarf

í andrá einni.

Vorsins ljós

að myrkri varð

með hugsun feigri.

 

---------------------



Þitt litla spark

og vonin kviknar.

Ljós hér innra

sem með sér ber nýtt líf.

Vonin

hún kemur með þér.

 

Eitt lítið spark

og vonin kviknar.

Ljósið hér innra

sem færir með sér líf.

 

Ljósið

sem vonina kveikti..

Ástin

í einni andrá öllu breytti..

Vonin

hún kemur með þér.

 

Vonin

hún kemur með þér.


"Helvítis skólakerfi!!!"

Ég er viss um að allir hafa heyrt eða tekið þátt í samræðum sem ýja að innihaldi þessarar setningar. Það er eitthvað sem er ekki alveg að virka í þessu blessaða skólakerfi okkar. Ég átti samtal við vinkonu mömmu rétt í þessu, og langaði mig að blogga út frá þessu samtali.

Hún sagði mér frá því að barnabarn hennar, 10 ára strákur, væri í skóla hjá hjallastefnunni. Hún sagði mér að þegar hún spyrði hann hvernig væri í skólanum, þá svaraði hann hátt og snjallt "rosalega gaman", og þegar hún spyrði hann hvað hann væri að gera, þá svaraði hann "leika okkur". En svo sagði hún mér líka að hún ætti í mjög vitsmunalegum samræðum við þetta 10 ára barn. Þau eru greinilega að gera eitthvað rétt hjá hjallastefnunni, tel ég. Hún sagði mér líka að hún ætti 5 ára barnabarn sem væri í leikskóla hjá Hjallastefnunni, og sagði mér frá skemmtilegu atviki sem átti sér stað fyrir skömmu, þegar hann settist allt í einu á gólfið og krosslagði fæturnar, og hún spurði "hvað ertu að gera". Hann svaraði án þess að blikna "ég er bara aðeins að kjarna mig". Mér finnst þetta svo dásamlegt. Þetta er eitthvað sem allir þurfa að gera. Þegar lífið verður of yfirþyrmandi, eða við finnum að við dettum úr jafnvægi, að taka okkur augnablik til að tengja inn á við. Eins og mjög margir hafa komist að á fullorðinsárum, meðal annars ég. Enn eru margir sem ekki hafa lært þetta. En við sem höfum lært þetta erum einu máli sammála um að þessi lexía sé algjör lífsbjörg, og eigi stóran þátt í bættu líferni okkar í dag. Og bjargi okkur úr mörgum aðstæðum sem okkur þykir ofviða áður en við tökum okkur tíma til að stilla inn á við.

Að mínu mati er skólakerfið komið á það stig, og hefur verið síðan ég var barn, að það elur upp í okkur kvíða, ótta og fullkomnunarátáttu. Sumir halda að fullkomnunarárátta sé af hinu góða, en því er fjarri. Ef við erum haldin þeirri ofsafengnu trú um að við verðum að gera allt fullkomið þá flækist iðulega með henni mikill ótti. Þessi trú felur nefnilega í sér þá hugmynd um að "ef ég er ekki fullkomin(n) þá er ég ómöguleg(ur)". Og enginn vill vera ómögulegur. Þá getum við annað hvort leitast eftir því að vera alltaf fullkomin og gera allt fullkomið, með öðrum orðum, gera ALDREI mistök (sem, ef þú vissir það ekki nú þegar, er óhjákvæmilegt!), eða við getum ákveðið að gefast upp áður en við prófum, því við vitum að við munum ekki geta gert neitt fullkomið. Ég hef prófað báðar öfgarnar. Ég hef gefist upp og sleppt því að reyna, og ég hef gert allt sem ég get til að gera allt fullkomið. Veistu hvað? Ég gat það ekki! Og mér leið eins og ég væri ómöguleg. 

Í gegn um sjálfsvinnu mína lærði ég afar mikilvæga lexíu. Það má gera mistök. Ekki bara það, heldur er GOTT AÐ GERA MISTÖK! Veistu af hverju? Þannig lærum við og þroskumst!! Mér finnst oft erfitt að fara inn í verkefni með það hugarfar að ég megi gera mistök, en þegar ég næ því þá er útkoman alltaf sú sama. Mér líður vel á meðan ég vinn verkefnið, og ég stend mig betur af því ég var ekki að flækja hlutina eða setja mér þau markmið að allt yrði að vera fullkomið. Það er nefnilega bara heftandi hugsunarháttur. Ef útkoman verður að vera fullkomin, þá þarf ég að passa hvert einasta skref sem ég tek í átt að þessari útkomu! Úff, tilhugsunin lætur mér líða eins og ég væri í fangelsi, algjörlega heft.

Samfélagið hefur einhvern vegin mótað þessar hugsanir að það sé slæmt að gera mistök. Við lærum þetta sem börn þegar við erum skömmuð fyrir að gera eitthvað "vitlaust" (t.d. að hella niður). En börn verða að fá að gera mistök, þannig læra þau. Og það sama á við um okkur.

Skólakerfið er að sjálfsögðu ekki undanskilið þessum hugsunarhætti samfélagsins.  Ég varð fyrir smá uppgötvun fyrir nokkrum mánuðum, þegar ég var að klára námið mitt í LHÍ. Hún var sú, að það er ekkert skrítið að við kunnum ekki að lifa í núinu. Allt skólakerfið er byggt upp þannig að það kennir okkur að lifa ekki í núinu! Það veltur allt á framtíðinni. Þegar ég klára þetta verkefni, þegar ég klára þetta próf, þegar ég klára þennan áfanga, þegar ég klára þessa gráðu........... Þegar, þegar, þegar...... Hvenar endar þetta eiginlega? Megum við einhvern tíma bara slaka á og njóta, eða erum við dæmd til að eltast við ró sem við teljum okkur eignast þegar næsta verkefni klárast? Ég sá skemmtilegt myndband um daginn sem lýsir þessu ferli einstaklega vel: https://www.youtube.com/watch?v=6I2pcIbyq-0 

Mín skoðun er sú, að maðurinn er í eðli sínu heill. Skapandi, hugsandi, gefandi, þakklátur, rólegur. En það verður eitthvað rof á eðli okkar í þeirri fyrringu sem nútímasamfélagið er. Okkur er kennt að sækja sífellt í "eitthvað" til að öðlast það sem við þráum. En það sem ég hef komist að, er að þetta "eitthvað" er innra með okkur allan tíman, og eina leiðin til að öðlast það, er að nema staðar, og bara vera. Ég er bara Vala. Ég þarf ekki stimpla eins og "tónskáld", "söngkona", "31 árs", "kona", "dóttir", "systir" osfrv. Þessir hlutir eru ekki ég og skilgreina mig ekki.

Ég er líka algjörlega á þeirri skoðun að til þess að við getum öðlast þetta, fundið okkur, kjarnað okkur, þá þurfum við umhverfi sem gefur okkur frelsi, pláss og tíma til þess. Samfélagslegar kröfur nútímasamfélagsins er ekki umhverfi sem veitir þetta frelsi, og nútímaskólakerfið er það ekki heldur. Það að okkur séu gefnar einkunnir fyrir allt sem við gerum, og að við fáum ekki staðfestingu nema klára ákveðið verkefni eða próf, veldur baráttu innra með okkur. Öll viljum við standa okkur vel. Öll viljum við vera klár, dugleg, "nóg". Með einkunnagjöf verður til ákveðið innra kerfi þar sem við metum eigið ágæti út frá því hvaða tölu við fáum á blaðið. Þetta veldur kvíða. Að svo gefnu að við höfum sterka þrá um að fá háa tölu. Við verðum hrædd um að standa okkur ekki nógu vel, og þá minnkum við í áliti okkar sjálfra, því við gerum ráð fyrir að við minnkum í áliti kennaranna og eflaust fjölskyldu okkar líka, ef við stöndum okkur ekki "nógu vel".

Ég er algjörlega sannfærð um að hjallastefnan sé komin með einhvers konar lausn á þessu vandamáli, og ég vona að stefna þeirra verði tekin til fyrirmyndar í hinu almenna skólakerfi. Draumur minn er að við sköpum umhverfi fyrir börn og fullorðna þar sem þeim líður vel, þar sem þeir fá hvatningu og stuðning, þar sem þeim getur liðið eins og þeir séu mikils virði, en ekki þannig að þau þurfi sífellt að sanna sig til þess að líða ekki eins og þau séu ómöguleg. Þar sem við hugsum í lausnum en ekki vandamálum.

Ég ætla að ljúka þessu á annari sögu sem vinkona hennar mömmu sagði mér.

Hún sagði mér að einu sinni hefði nýútskrifaður kennaranemi komið að vinna á deildinni hjá barnabarni hennar. Honum hefði brugðið svo við, því það væru margir ungir töffarar á þessari deild, og hann hefði orðið frekar óöruggur og ekki fundist hann ráða við bekkinn. Þá hefðu starfsmennirnir brugðist þannig við að þau settu annan kennara inn í bekkinn, sem hafði mika reynslu. Hann hefði hjálpað hinum þar til allt var búið að jafnast, og bæði börnum og kennara leið vel saman.

Þessi saga um samvinnu vakti mig til umhugsunar, því oftar en ekki hef ég heyrt sögur af foreldrum, kennurum og skólastjórum að rífast yfir aðstæðum. Kennarinn sé ekki nógu... "eitthvað", barnið sé of... "eitthvað" ....... Samkvæmt vinkonu mömmu er hugsunarhátturinn hjá Hjallastefnunni sá að "við vinnum saman og finnum lausn" en erum ekki að kenna hver öðrum um og rífast um hluti án þess að leita að lausnum.

Þetta hljómar kannski eins og ég sé að auglýsa Hjallastefnuna, en svo er alls ekki. Ég hef bara velt fyrir mér þessum göllum í skólakerfinu okkar, og það litla sem ég hef heyrt af hjallastefnunni þá virðast þeir vera að finna lausnir á vandamálum sem virðast há hinu almenna skólakerfi.. Hvort Hjallastefnan sé hin eiginlega lausn, eða hvort þróa þurfi ennþá betri leiðir veit ég ekki. En þetta virðist allavega vera góð byrjun á því að brjóta okkur út úr stöðnuðum hugmyndum sem augljóslega eru ekki að virka lengur. 


Ástarsambönd; What a tricky subject aye!!?

 

 

 

 

Í sjálfsskoðun minni síðustu árin hefur eitt af viðfangsefnunum sem ég skoðaði í fari mínu og lífi verið samskipti mitt við hitt kynið. Þetta er jú þáttur í lífi okkar sem hefur gífurleg áhrif á okkur, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eður ei, enda skipar "hitt kynið" hér um bil helming jarðarinnar.

 

Í þessu ferli hef ég komist að ýmsu og langar mig að deila því með ykkur. Eflaust getur verið gagn af þessum gullkornum fyrir fleiri en einungis sjálfa mig.

 

1) Til þess að geta komist inn í ástarsamband sem maður vill vera í, er bráðnauðsynlegt að vita hvað maður vill. Eftir hverju erum við að leitast? Hvað skiptir okkur máli? Viljum við að viðkomandi standist vissar útlitskröfur, ákveðnar tekjukröfur osfrv. Samfélagið vill kenna okkur að ef við leitumst eftir maka með útlit eða peninga í huga þá séum við grunnhyggin, svo við leyfum okkur ekki að vilja þessa hluti. En allt sem við viljum er leyfilegt að vilja. Það sem skiptir mestu máli er að komast að því hvað það er sem við viljum. Því án þess er bókað mál að við munum ekki fá það sem við viljum og þá líklega ekki verða hamingjusöm. Við viljum það sem við viljum og það er ekkert að fara að breytast þó við förum í afneitun gagnvart því. Það er nauðsynlegt að spyrja sig: Hvað vil ég? Ertu t.d. með ákveðna týpu sem þú fílar? Leyfðu þér þá að vera þar. Hversu miklu skemmtilegra er það að vera með manneskju sem framkallar fiðring í magann við að sjá hana? Ef þú ert með týpu sem þú fílar, þá er pottþétt manneskja þarna úti sem er þessi týpa sem á eftir að fila þig líka.

 

2) Til þess að líða vel í sambandi þarf þrennt: Báðir aðilar þurfa að vera í innra jafnvægi og samskiptin þurfa að vera í jafnvægi. Ef eitthvað af þessu er í ójafnvægi hefur það áhrif á báða hina þættina og báðum aðilum líður illa í sambandinu. Ef "hann" fer úr jafnvægi, hefur það áhrif á samskipti hans við "hana", og henni fer að líða illa - og öfugt. Ef samskiptin fara úr jafnvægi líður báðum aðilum illa. Opin og hreinskilin samskipti er lykilatriði. Þetta er eitthvað sem við höfum öll heyrt en það er hægara sagt en gert að fara eftir. Samkvæmt minni reynslu er nauðsynlegt að átta sig á hver maður er, og hvaða skoðanir, langanir og væntingar maður hefur, til þess að geta tjáð sig opinskátt. En það er ekki nóg því maður þarf líka að finna kjark til að segja skoðanir sinar, langanir og væntingar. Er ekki að undra að mörgum finnist það erfitt!

 

3) Eitt sem ég áttaði mig á nýlega er þetta: Afhverju erum við svona hrædd við ást? Hvað er ást annað en kærleikur? Hvað er kærleikur annað en góð orka? Afhverju ættum við ekki að bjóða góðri orku fagnandi inn í líf okkar? Við erum alltaf að halda aftur af okkur, ekki sýna of mikla ást, því það gæti hrætt viðkomandi í burtu! En viljum við ekki öll fá ást? Ef það hræðir viðkomandi í burtu þá er hann/hún kannski bara ekki tilbúinn að taka á móti ástinni sem þú hefur að gefa. Ég er ekki að segja að við eigum að ganga um og opinbera ást okkar á fólki sem við þekkjum ekki. En ef tilfinningin okkar segir okkur að segja eitthvað, sem felur í sér væntumþykju gagnvart einhverjum, af hverju ekki að fylgja því? Hvað gæti gerst sem væri svona hræðilegt? Hinn tæki ekki á móti því? Greyjið hann/hún. Hann/hún fékk ekki að njóta fallegu orkunnar sem þú varst reiðubúinn að deila með honum/henni. Það gerir þig að engu leiti að minni manneskju fyrir vikið. Þú þorðir að gefa af þér og sýna tilfinningar. Það er ekki eitthvað til að fela eða skammast sín fyrir heldur ber að fagna! Ef allir leyfðu sér að gera þetta yrði heimurinn eflaust kærleiksríkari. Í mínum bókum ætti það með engu móti að túlkast sem nokkurs konar ógn að vera sýnd væntumþykja. Ef þú vilt hana ekki, þá þarftu ekki að taka á móti henni. Auðvitað er þetta ekki svona einfalt, því fyrri reynslur hafa ómeðvitað áhrif á viðbrögð okkar, og slæmt samband úr fortíðinni getur valdið því að núverandi aðstæður virka sem ógnun þrátt fyrir að ekkert sé sameiginlegt með þessu tvennu nema það að þú ert að deita núna og þá varstu í sambandi. Einhvers konar svipuð tilfinning sem þessu fylgir sem getur ruglað kerfið okkar og komið af stað viðbrögðum sem við skiljum ekki einu sinni sjálf. Ég er samt fastlega hlynnt því að leyfa sér að sína kærleika ef hugur og hjarta segja svo til um. Ef þig langar til þess og treystir þér til þess, do it :) Og mundu svo að hvað sem hinn segir eða gerir þá er það algjörlega þér óviðkomandi. Að lifa í kærleika er mjög fallegt fyrirbrigði, og ekki allir sem geta tekið því. Það er líka allt í lagi. En það þýðir ekki að þú þurfir að breita hegðun þinni eða taka það nærri þér þó einhver neiti að taka á móti þeirri gjöf í formi kærleika sem þú vildir gefa.

 

4) Hver er afstaða þín til hins kynsins? Setur þú þig í stellingar gagnvart þeim? Ertu óörugg/óöruggur gagnvart þeim? Áttu erfitt með að greina hvort viðkomandi sé að reyna við þig eða ekki? Reynirðu að hegða þér á ákveðinn hátt til þess að "fæla burt" eða heilla þá/þær, eftir því hvort þú hefur áhuga eða ekki? Getur þú verið frjáls í samskiptum við hitt kynið óháð þeirri staðreynd að þú ert af hinu kyninu og kynferðisorkan gæti truflað samskiptin? Setur þú skoðanir hins kynsins óafvitandi ofar þínum eigin og kynsytra/-bræðra?

 

Ég er kona og þekki þetta aðeins af eigin reynslu, svo ég get aðeins talað með reynslu konu í þessu samhengi. Ég áttaði mig á að ég hafði óafvitandi sett mínar eigin skoðanir, og skoðanir kynsystra minna neðar en skoðanir karlmanna. Allra karlmanna. Það skipti ekki máli hvert samband mitt við viðkomandi var. Ég áttaði mig líka á því að ég skammaðist mín fyrir að vera klár kona. Sérstaklega gagnvart karlmönnum. Þegar ég sagði eitthvað sem sýndi að ég var klár í nálægð karlmanna upplifði ég einhvers konar skammartilfinningu. Þetta kom algjörlega aftan að mér þar sem ég var alin upp af feminista og trúði því í fullri einlægni frá því ég fæddist að karlar og konur væru jöfn og að ég gæti gert allt sem ég vildi, ekki síður en strákarnir. Einhvern vegin komst samfélagið þó inn fyrir vitund mína og litaði skoðanir mínar, hegðun og sjálfstraust. Þetta er, að ég held, eitthvað sem gerist ósjálfrátt vegna þeirra skilaboða sem okkur eru send t.d. í fjölmiðlum, sem og í samfélaginu sjálfu. Ég hef áttað mig á að þegar ég hef séð eitthvað í fari mínu, eins og þetta sem ég var að lýsa, þá smám saman fer það, ef ég held áfram að vera vakandi fyrir því þegar hegðunin poppar upp. Ég held ég geti með fullvissu sagt að ég sé laus við þennan kvilla núna, og stend fast á mínum skoðunum, hvort sem í hlut á samskipti við karlmann eða kvenmann. Auðvitað eru til undantekningar, en þá tek ég eftir því og leiðrétti mig.

 

Ég held líka að ef viðhorf okkar til hins kynsins er á einhvern hátt brenglað á þennan hátt, eins og ég nefni í spurningunum hérna fyrir ofan, þá sé erfiðara að eiga í fallegu ástarsambandi, þar sem jafnvægi, virðing og kærleikur ríkir.

 

5) Persónulegt frelsi. Það er svo frelsandi að fylgja eigin sannfæringu í stað þess að taka sannfæringu annara sem heilögum sannleika og lifa í ótta annarra. Við eigum ekki börnin okkar og við eigum ekki maka okkar. Þó að við viljum að þau geri eitthvað þá er þeim ekki skylt að fylgja því. Öll eigum við eitthvað sem heitir frjáls vilji. Þó við séum ósammála einhverju sem ástvinur okkar vill gera þá eigum við ekki rétt á að banna honum það. Við megum láta vita hvernig okkur líður en við verðum líka að virða rétt hins til að nýta sinn frjálsa vilja, og virða þá ákvörðun sem hann tekur.

 

Það er ógeðslega vont að vera í sambandi þar sem manni eru sífellt gefin skilaboð um að maður eigi að gera hlutina öðruvísi, að okkar leið sé ekki nógu góð. Eða að þurfa sífellt að láta vita af sér þegar maður er einhvers staðar að gera eitthvað. Það er engu líkara en að vera í fangelsi. Maður getur ekki leyft sér að vera á staðnum og notið þess að vera með fólkinu sem maður er með, lifa í augnablikinu, af því maður er sífellt að skoða símann til að sjá hvort makinn hafi sent sms eða hringt. Og ef það er extra skemmtilegt og maður ákveður að vera lengur en upphaflega planið var, að koma heim í öskur, skammir og fíluköst. Höfum gaman að lífinu. Höfum gaman að ástinni. Göngum SAMFERÐA í gegn um lífið, félagar, í stað þess að setja okkur á háan hest og halda að við vitum betur en hinn hvað sé honum/henni fyrir bestu. Segjum okkar skoðun en virðum einnig rétt hins til að vera ósammála. Nú ef þið eruð of ósammála til að þola það, þá er líka alltaf í boði að hætta saman. Ef við þurfum að taka af sjálfum okkur eða ætlast til að hinn taki af sjálfum sér þá er líklega ekki mikil hamingja ríkjandi í sambandinu. Þá vil ég heldur vera ein en bjóða sjálfri mér upp á óhamingjusamt samband.

 

 

 

Að sjálfsögðu má einnig yfirfæra þetta fyrir samkynhneigða. Þó ég sé að tala um samskipti kynjanna, þá eiga þessir punktar einnig við í því samhengi. Ég þekki það bara ekki svo ég kann ekki að fara með það. Að minnsta kosti eiga punktar 1-3 og 5 algjörlega við einnig fyrir samkynhneigða. En ég veit ekki með punkt 4. Hvort það sé öðruvísi þegar maður laðast að sama kyninu eða eins. Enda skiptir það ekki öllu. Ef þú tengir við þetta og þetta getur hjálpað þér á einhvern hátt þá er það aðalmálið.

 

 

Ást og friður <3

 

 

 

Elskum!!!! <3 <3 <3


 

 


Fréttirnar og pólitík - hversu mikilvægt?

Ég hef aldrei verið dugleg að fylgjast með fréttum.

Svo líður mér alltaf mjög kjánalega þegar fólk er að ræða eitthvað sem er að gerast í heiminum, og ég hef ekki hugmynd um hvað þau eru að tala um.

Ég hef heldur aldrei verið dugleg að horfa á heimildarmyndir eða lesa málefnaleg skrif. En ég er uppalin í fjölskyldu sem fylgist með fréttum, les málefnaleg skrif, horfir á heimildarmyndir og ræðir heiminn, stjórnmál og fleiri hluti sem "skipta máli". Þessvegna hef ég alltaf barið sjálfa mig niður fyrir að vera ekki duglegri að "passa inn í rammann" sem fjölskyldan mín er búin að setja mér. "Svona á maður að vera". Eða allavega "svona erum við í þessari fjölskyldu", "við erum svona fólk". En fjölskyldan mín er að sjálfsögðu ekkert að segja mér að vera öðruvísi en ég er. Þetta er skynjun mín á umhverfi mínu, raunveruleika mínum. Að ég sé ekki "nógu góð, klár, dugleg að afla mér upplýsinga".

Ég tek þátt í umræðunni og veit margt um margt. Líklega á það stóran þátt að vera alin upp í þessu umhverfi, þar sem ég læri að hugsa á gagnrýnin hátt, og sérstaklega að gagnrýna það sem er að gerast í stjórnmálum. Ég hef skoðanir. En margar, ef ekki allar af mínum skoðunum eru lærðar. Ég heyrði skoðanir foreldra minna og ég tók því sem heilögum sannleika því að það er það sem við gerum sem börn.

Síðustu ár hef ég soldið leyft mér bara að fylgjast ekki með. Satt best að segja hef ég eiginlega misst trúna á stjórnmálum. Mér finnst sagan hafa sýnt okkur að þetta kerfi bara virkar ekki, því miður. Ég hef haldið því fram í sirka 2 ár að það sé algjörlega nauðsynlegt að eitthvað nýtt gerist. Hvað það er, veit ég ekki. En ég tók þá ákvörðun að leyfa mér að einbeita mér að því sem er að gerast innra með mér og sleppa því að hafa áhyggjur af því sem er að gerast fyrir utan mig, þá meðal annars stjórnmálum. Að sjálfsögðu hef ég ennþá skoðanir, en ég nenni ekki að leyfa þeirri neikvæðu orku að búa innra með mér sem myndast við það að hugsa um þetta eða ræða það. 

Ég fór svo núna að hugsa um það hver ástæðan fyrir því gæti verið að ég hefði aldrei fylgst mikið með fréttum eða kynnt mér meira "það sem skiptir máli".

Í fyrsta lagi þá er ég mjög andleg vera. Við erum auðvitað öll andlegar verur. En það er stór hluti af mér, sem ég hef aldrei opnað almennilega á, vegna þess að móðir mín er trúleysingi og mjög skeptísk á allt svona andlegt. Þar af leiðandi hefur stór hluti af mér alla tíð verið sannfærður um að allt sem við kemur andlegum málum sé bull og vitleysa. (Þá á ég að sjálfsögðu ekki við andlegt eins og málefni sálarinnar, heldur allt sem segir að það sé eitthvað til sem ekki er hægt að sanna með vísindunum). Auðvitað varð ég ekki vör við hversu næm ég er, t.d. á orku annara, þegar ég var búin að ákveða að þetta væri allt saman bull. Ég hleypti því ekki einu sinni að. Um leið og ég heyrði fyrst talað um orku, og hvernig sé hægt að finna orkuna í herberginu t.d. fór ég að taka eftir því að ég fann þetta alveg. Samt var 50% af mér að hugsa að konan sem var að segja þetta við mig væri eitthvað klikkuð.

Ég tók þá ákvörðun í byrjun þessa árs að bjóða þennan hluta af mér velkominn. Ég hef lengi barist við þetta en ég áttaði mig á því þegar árið byrjaði að ég gæti neitað því að eilífu að ég finndi fyrir þessum hlutum, en það þýddi ekki að ég myndi hætta að finna fyrir þeim. Ástæðan fyrir því að ég vildi ekki leyfa mér að fara þangað var sú að ég óttaðist álit annara. Ég vildi ekki vera skrítin. Basically. Ég sá fyrir mér hvernig svona spiritual fólk og hippar eru gagnrýndir í bandarískum kvikmyndum, og hvernig mamma talaði um að þetta væri bara bull. Og ákvað að ef ég fylgdi þessu eftir og leyfði mér að opna á þennan andlega hluta af mér, þá yrði ég útskúfuð úr samfélaginu. Ég yrði "þessi skrítna". En þegar ég varð fyrir þessari opinberun þá fann ég líka svo sterkt að ég YRÐI að leyfa mér að fara þangað, því það er SÚ SEM ÉG ER, og á meðan ég neita mér um að fara þangað þá lifi ég í innri baráttu við sjálfa mig, og reyni að móta sjálfa mig í eitthvað sem mér finnst samfélagið krefjast af mér. Þá líður mér aldrei vel í neinu sem ég geri. Það er bara svo einfalt. Svo ég leyfði mér að fara þangað.

Og það gerðist dálítið alveg dásamlegt. Ég komst að því að það er heilt samfélag á Íslandi sem iðkar andlegt líferni. Stækkandi samfélag. Samfélag sem krefst einskis af mér, en tekur mér opnum örmum alveg eins og ég er.

Ég hef líka fundið innri frið og andlega ró sem ég hef aldrei kynnst áður. Andlegt líferni rúlar!!! :)

Í öðru lagi held ég að stór hluti ástæðunnar fyrir því að ég hef ekki verið duglegri að skoða málefnalega hluti sé sá að ég er bara svo ótrúlega mátlaus gagnvart því sem er að gerast í heiminum. Ég get bölvað og öskrað og barið í borðið en ekkert breytist. Ég gæti auðvitað gert eitthvað eins og að fara út í stjórnmál sjálf, en eins og ég var búin að nefna áður hef ég misst trúna á þessu kerfi - einnig sem þunglyndi er ekki besti félagsskapurinn þegar takast skal á við stóra drauma og hugsjónir. Ég held það sé í rauninni eðlileg viðbrögð að forðast það sem lætur manni líða illa, og mér líður bara illa þegar ég heyri og sé hvað er að gerast í heiminum. Nóg er þá af sársaukanum innra með mér án þess að ég sé að bæta sársauka heimsins á hann!

Í þriðja lagi held ég að hluti af ástæðunni sé sá að einhver hluti af mér ákvað einhvern tíma að konur ættu ekki að vera klárar. Bara sætar. Ég veit ekkert hvaðan þetta kom, því móðir mín, feministinn sjálfur, hefur sko alls ekki kennt mér þetta! Ég kenni samfélaginu um, þessum földu skilaboðum sem við sjáum í kvikmyndum, þáttum og auglýsingum. Við tökum ekki einu sinni eftir því að við gerum þetta að okkar eigin hugsunum. Allavega er mjög stutt síðan ég áttaði mig á þessu hjá sjálfri mér. Ég gæti talað endalaust um þetta því ÞETTA GERIR MIG SVO SANNARLEGA REIÐA!!!!!! En...... Namaste... anda inn.. anda út.... ;) - Já ég held að hluti af mér hafi sótt í að lesa frekar tískublöð, læra að mála mig til að fela ófullkomleika minn og ýkja það sem er fallegt við mig, og að sama skapi að velja föt sem gera slíkt hið sama. Jájá.. Allt gott og blessað, ég sé ekkert eftir því, það er ágætt að kunna að gera sig fallegan :) EN mér finnst sorglegt að ég hafi neitað sjálfri mér um það að iðka málefnalegan og andlegan þroska líka. En það er víst allt eins og það á að vera og ég hef bara ratað inn á rétta braut í nokkrum skrefum. Allt sem ég hef lært hefur komið mér þangað sem ég er í dag og ég er þakklát fyrir það allt. :)

 

Ahhhhhh...... Mér líður vel :)

 

P.s. ef einhver er með spurningar um andlega hluti sem hægt er að iðka á Íslandi má sá hinn sami endilega senda mér skilaboð <3

 

Ást og friður <3 


Þunglyndi - er það sjúkdómur?

Já alltaf er maður að læra og þroskast og skoðanir manns mega líka breytast.

Ég skrifaði grein í vetur um þunglyndi þar sem ég sagði frá eigin reynslu af sjúkdómnum og gagnrýndi þá stimpla sem samfélagið vill setja á hann, meðal annars hugmyndir um aumingjaskap. Einnig vildi ég opna fyrir opinni og hreinskilinni umræðu á sjúkdómnum og sporna gegn tilhneigingunni til þess að umræða um hann sé gerð að tabú. En það vill hafa í för með sér mikla skömm hjá þeim sem þjást af honum.

Einhverju síðar las ég grein eftir konu sem lýsti því yfir að hún teldi þunglyndi ekki vera sjúkdóm. Hún talaði af eigin reynslu. Hennar skoðun var sú að þunglyndi væri ekki sjúkdómur af því hún væri ekki lengur þunglynd. Ég varð rosalega reið. Ég var sammála því að hægt væri að losna við þunglyndi en mér fannst ofureinföldun að segja það ekki vera sjúkdóm. Eftir því sem ég best veit þarf sjúkdómur ekki að vera ólæknandi til að hægt sé að skilgreina hann sem slíkan. Marga sjúkdóma má jú lækna. T.d. krabbamein. Krabbamein getur dregið til dauða, já. En það er líka hægt að læknast af honum. Sem einnig á við um þunglyndi. Að sama skapi getur þunglyndi, líkt og krabbamein, skotið upp kollinum aftur þrátt fyrir að viðkomandi sé búinn að vera laus við það í lengri eða styttri tíma. 

 

Skoðun mín í dag er þessi:

Ég neita að kalla þunglyndi sjúkdóm, eða að minnsta kosti neita ég að skilgreina mig sem "þunglyndissjúkling". Ég hef mikla trú á mætti orða og hugsana, og tel að það sem við hugsum um okkur sjálf og aðra hafi gífurleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu okkar. Þar af leiðandi finnst mér ég vera að stimpla sjálfa mig sem "sjúkling" ef ég hugsa um sjálfa mig sem þunglyndissjúkling. Mér finnst ég vera að segja líkama mínum og kerfi að ég sé veik. Í staðin hef ég kosið að hugsa um þetta svona: Ég er heil. En viss atvik í fortíð minni höfðu þau áhrif að ákveðin "sníkill", ef svo má að orði komast, tók sér bólfestu í líkama mínum. Sníkill í formi niðurrifshugsana, uppgjafar og andlegs og líkamlegs orkuþrots. Því meira sem ég "fæði" þennan snýkil, því stærri verður hann. Þessvegna, ef ég held áfram að hugsa neikvæðar hugsanir, þá fæði ég þær. Smám saman verða þær svo stórar að ég ræð engan vegin við þær lengur. En ef ég finn "mig" undir þessum sníkli, og leyfi "mér" að vaxa, þá get ég losnað við hann. Þetta er það sem ég er búin að vera að gera síðustu mánuði. "Ég" er orðin mun stærri en sníkillinn. Sníkillinn er skugginn af því sem áður var og núna er ég að vinna í því að reka hann alfarið út og kveðja hann að eilífu. 

Hvað stendur þá eftir? Ekki þunglyndissjúklingur. Nei. Bara Vala :)

Ég trúi því líka að það sé ekki að ástæðulausu sem við upplifum þunglyndi og kvíða. Ég tel að þetta séu viðvaranir frá kerfinu okkar um að við séum búin að villast af leið og það sé kominn tími til að nema staðar og skoða hver við erum og hvað við viljum. En það er saga fyrir næsta blogg :) 

 

Ef einhver vill fá frekari upplýsingar um hvaða aðferðir ég hef nýtt mér til að takast á við þunglyndi er þeim hinum sama guðvelkomið að senda mér skilaboð...

 

Vinnum saman í að byggja okkur upp og hjálpum hvoru öðru að verða besta útgáfan af sjálfum okkur!

Hversu mikið betra samfélagi byggjum við í ef allir væru í ljósinu sínu, óstöðvandi í að láta drauma sína rætast :) <3 Útópíaaaa!!!! ;)

 

Lifum í kærleika! <3

Namaste <3


Kveðja til pabba

Mig langaði að eiga textann að laginu sem ég samdi til pabba fyrir jarðarförina hans hérna inni á blogginu mínu.

Svo hér er hann.


Kveðja


Í ljóstýru ligg ég í faðminum þínum

hlýjunni umlukin sef ég í ró.

Þú verndari ástar í öryggi  mínu

Þú engill ljóss sem með hjartanu sá.


Í ævintýraheimi við krakkarnir lékum

reglurnar engar og ímyndun réð.

Af náð þinni máttum við allt, engum kennt um,

þú naust þess og gast ekki neitt að því séð.


Það fór fyrir brjóstið á mömmu þó stundum

að reglurnar vær’ ekki virtar í raun.

En oft er svo gaman að óhlýðnisfundum

í mómenti lifa’ og fá gleði í laun.


Þó seinna meir ljósið sem áður þú áttir

í felur það færi og öryggið brást,

í sál þinni bjó það þó ávallt, og kættir

þú margan með ljúfmennsku, sögum og ást.


Þú kenndir mér margskonar hluti um lífið

Með góðmennsku, gjöfum og reglum og þér.

Með myrkrinu lærðum að halda þó í við

þann þroska sem áfram má vinna í sér.


Nú kveðjum þig, Gummi, með söknuð í hjarta

og minningar umlykja’ um ástir og frið

við syrgjum þig ungan með framtíð svo bjarta

En lífið er hverfult, og sátt finnum við


Allt hefur sinn tilgang, það eitt er víst

við getum ei annað en þakkað þér allt

sem gafst okkur Gummi af einskærri list

það góða og slæma, það gefur víst allt.


Við ósk þína virðum og gefum þér frið

og þökkum svo djúpt fyrir sættir og ró

sem síðustu mánuðir gáfu að lið

Og áfram við gefum það ljós sem í þér bjó.





 


Elsku pabbi minn

Elsku pabbi minn

Ég trúi ekki að þú sért farinn. Þú ert einhvern vegin allt í kring. Hluti af mér. Hluti af bræðrum mínum, sonum þínum sem þú elskaðir svo mikið. Hluti af bræðrum þínum. Ég man eftir sögunum sem þú sagðir mér af þér og bræðrum þínum þegar þið voruð strákar. Og afa. Pabba þínum. Hvað hann kenndi ykkur mikið. Þú leist svo mikið upp til pabba þíns. Þér fannst hann svo frábær pabbi. Ég skil núna að það er líka af því að amma kom illa fram við þig svo pabbi þinn var öruglega svona kletturinn þinn. Hann var fyrirmyndin þín. Ég man þegar við vorum börn, hvernig þú gerðir hluti með okkur sem pabbi þinn hafði gert með þér. Þú last fyrir okkur íslendingasögurnar. Svo man ég líka þegar þú last með okkur andrésblöð á dönsku. Þú þýddir þau fyrir okkur og gerðir það listavel. Þú lékst meira að segja raddirnar. Þú varst alltaf góður í því að lesa fyrir okkur. Ég man að okkur fannst miklu skemmtilegra þegar þú last fyrir okkur en þegar mamma las fyrir okkur af því þú lékst raddirnar en mamma gerði það ekki.

Þú fórst líka með okkur í fjallgöngur og göngutúra í náttúrunni. Og sagðir okkur hvað fjöllin í kring hétu og hvað blómin hétu og hvað steinarnir hétu. Ég tók því sem sjálfsögðum hlut þá. Ég hélt að allir pabbar vissu hvað öll fjöllin hétu, hvað öll blómin hétu og allir steinarnir. En ég geri mér grein fyrir því núna að það gera það ekki allir pabbar. Ég dáist að þessu. Þú varst svo klár pabbi. Þú varst einstaklega klár. Og fyrir það er ég þakklát pabbi minn. Ég er þakklát fyrir að þú hafir gefið mér genin þín því ég er líka klár pabbi, veistu það? Ég held þú vitir það alveg, enda varstu alltaf einstaklega stoltur faðir og stuðningsríkur. Þú vildir okkur alltaf það besta, þú vildir alltaf fyrst og fremst að okkur liði vel. Þú settir aldrei neina pressu á okkur að við yrðum að standa okkur vel og fyrir það er ég þakklát. Þú vildir bara að við værum hamingjusöm og leyfðir okkur alveg að ákveða hvað við vildum gera í lífinu og studdir okkur alveg heilshugar alla leið í því sem við ákváðum að gera. Það er einstakt pabbi minn. Þú varst einstakur, veistu það?

Ég vildi það elsku pabbi minn að þú vissir það. Að þú vissir hvað þú varst hæfileikaríkur og klár. Og góður maður. Ég vildi að þú hefðir haft kjarkinn og styrkinn til að takast á við myrkrið sem þú barðist við alla æfi. Ég tók aldrei eftir vanlíðan þinni fyrr en ég var að verða unglingur. En hún varð augljósari með hverju árinu og myrkrið smitaði út frá sér. Við lenntum í hringiðu sem við gátum ekki stjórnað eða skilið. Það er ekki þér að kenna elsku pabbi minn. Ég var svo reið út í þig í langan tíma. Ég var bara barn og ég skildi þetta ekki. Ég sá bara hvað þú gerðir og sagðir og skildi ekki að þú varst að gera þetta og segja þetta af því myrkrið var orðið sterkara en þú. Að það var ekki þú sem varst að segja þetta og gera þetta heldur myrkrið sem gleypti fallegu sálina þína. Að það síðasta sem þú vildir gera var að særa mig og bræður mína og mömmu mína. En það gerðir þú pabbi minn. Og við vorum öll svo reið út í þig. Svo ótrúlega reið, pabbi minn. Og ég lokaði á þig pabbi. Mér fannst að þú ættir líka að þjást eins og ég þjáðist af þínum völdum. Mér fannst þú ekki eiga skilið ást mína. Mér var illt í sálinni og ég vildi að þér væri líka illt í sálinni. Svo illt, pabbi. Ég óskaði þess. Svo heitt. Svo lengi. Það er sárt að hugsa til þess pabbi minn að ég hafi viljað að þú þjáðist. 

 

En það sem ég gerði mér ekki grein fyrir þá var að þú varst að þjást. Og það var þessvegna sem þú gerðir þessa hluti og sagðir þessa hluti. Vegna þess að þú elskaðir okkur meira en lífið sjálft, og ég finn það í sálinni minni að það er satt. Þú sagðir mér það oft í seinni tíð elsku pabbi minn. Blessi sál þína. Þú varst svo fallegur og einlægur í seinni tíð. Þú fannst fyrir sorginni í hjartanu þínu. Það var svo fallegt þegar ísinn bráðnaði. Þegar þú hættir að vera reiður. Og frekur. Stjórnsamur og tilætlunarsamur. Því þá varstu bara að loka á tilfinningarnar í hjartanu þínu pabbi minn. Þar var sorg sem þú hleyptir ekki inn. En þú opnaðir á sorgina. Það gerðir þú. Og það var svo fallegt. Ég man eftir því þegar það gerðist. Þú breyttist allur. Þú breyttist í framan. Röddin þín breyttist, líkamsstaðan og fasið. Og þú gast grátið pabbi minn. Elsku pabbi. Þegar ég var barn gastu bara grátið þegar þú varst fullur og það var ekki skemmtilegt. Það var mjög sárt að upplifa það. Og ég hafði ekki skilning á því þá að fullorðið fólk þarf líka að gráta.

Ég er þakklát fyrir að þú hafir hleypt sorginni að og lært að gráta. Elsku pabbi minn. Ég vildi óska að þú hefðir haft styrkinn í að hleypa sorginni í gegn um þig. Unnið úr henni. En ég held að hún hafi bara setið í hjartanu þínu. Ég vildi svo innilega elsku pabbi minn að þú hefðir fundið styrkinn til að halda áfram. Þú varst kominn svo langt elsku pabbi minn. Af hverju þurftir þú að gefast upp núna? Elsku pabbi... Elsku pabbi... Elsku besti pabbi minn. Takk fyrir allt. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér, fyrir að hafa verið þess aðnjótandi að hafa sál þína í lífi mínu. Fyrir að hafa fengist að tengjast henni. Þú varst með svo fallega sál. Þú ert svo falleg sál pabbi minn. Einstaklega falleg sál. Nú ert þú í eilífðinni. Og loksins búinn að finna frið. Þú ert líka í hjartanu mínu. Þar sem þú átt heima og hefðir alltaf átt að vera. Ég rak þig þaðan út þegar ég var unglingur en nú ertu kominn aftur heim elsku pabbi minn. Þú ert orðinn hluti af mér. Og þú ert hluti af bræðrum mínum og bræðrum þínum. Ég veit að þú munt ávallt fylgja mér elsku pabbi minn, og vera með mér í einu og öllu. Alveg eins og þegar þú varst á lífi. Ávallt stuðningsríkur. Þó þú hafir ekki alltaf getað sýnt það eða raunverulega verið til staðar. Þá varstu alltaf með í anda elsku pabbi minn.

Ég man þegar þú svafst yfir þig og misstir af tónleikunum mínum sem þú varst búinn að hlakka svo til að sjá elsku pabbi. Þú varst búinn að spyrja mig aftur og aftur hvenar þeir væru aftur. Þú hafðir áhyggjur af að þú myndir missa af þeim held ég. Þá varstu ofurseldur veikindum þínum. Og þú varst svo eyðilaggður. Og auðvitað fannst mér það sárt elsku pabbi minn. Þetta voru fyrstu sólótónleikarnir mínir. Elsku pabbi, þú varst svo stolltu af mér ég man svo vel eftir því. Þú auglýstir þetta á facebook og sagðir öllum hvað þú varst nú stolltur af dóttur þinni elsku pabbi. Það er svo fallegt hvað þú varst stoltur af okkur elsku pabbi og vildir okkur vel. En ég skildi þegar hér kom við sögu að þú vildir auðvitað koma. Mér fannst það sárt að þú værir svona veikur að þú hefðir ekki tök á því að koma, vissulega. En mér þótti óendanlega vænt um að heyra hvað þér þótti leiðinlegt að missa af þeim elsku pabbi minn. Og ég vildi alls ekki að þér liði illa yfir því elsku pabbi minn. En ég held að þú hafir líka alveg skilið það að ég væri ekki sár eða reið út í þig elsku pabbi minn.

Og þú komst á næstu tónleika. Með vinkonu þína meira að segja. Það þótti mér óendanlega vænt um elsku pabbi minn. Og þú alveg geislaðir eftir þá, þú varst svo ánægður með þetta. Og að ég skildi hafa sungið lagið "ó pabbi minn". En hvað ég er fegin núna að ég hafi gert það og þú hafir orðið svona snortinn af að heyra það. Elsku pabbi minn.

Ég elska þig ávallt. Mér þykir mjög leitt að hafa ekki getað veitt þér meiri kærleika, stuðning, og gefið þér meira pláss í lífi mínu og hjarta. Ég hleypti þér inn í hjartað mitt fyrir nokkrum mánuðum síðan og það var svo góð tilfinning. En ég átti erfiðara með að hleypa þér inn í líf mitt. Ég var orðin svo vön því að vera með lokað á þig. Það var erfitt að opna. Ég vissi að það var að koma elsku pabbi minn. Ég var meira að segja búin að ákveða að ég ætlaði að fara í göngutúr með þér í kring um tjörnina í miðbænum og gefa öndunum. Eins og þegar við vorum börn elsku pabbi minn. Við krakkarnir höfðum alltaf svo gaman að því að fara að gefa öndunum elsku pabbi. En ég var of sein. Ég var of upptekin af eigin lífi, eigin baráttum, eigin vanlíðan. Ég sé eftir því elsku pabbi minn. Ég vildi að ég hefði hringt í þig fyrir 3 vkum síðan þegar ég fékk þessa hugmynd í stað þess að bíða betri tíma. Í rauninni af því ég var hrædd. Hrædd við að hleypa þér inn í líf mitt. Líklega af því ég var svo hrædd um að þú myndir bregðast mér aftur. Það var það sem sagan sagði mér að gerðist. Já. þannig er það. Elsku pabbi minn, ég sé eftir því já. En nú verð ég bara að fara með bræðrum mínum og minnast þín. Gefa öndunum og minnast þín. Leyfa þér að vera með okkur í anda. Og ég veit að þú verður það elsku pabbi minn, því þú ert innra með okkur öllum elsku besti pabbinn minn.

 

Takk fyrir allar fallegu minningarnar sem þú gafst mér. Ég er þakklát fyrir að síðustu vikur og mánuði hef ég hleypt þessum fallegu minningum og tilfinningum fram. Ástinni sem ég bar til þín sem barn. Einföldu, hreinu ástinni, áður en þú særðir mig. þar vil ég vera. Ég vil muna eftir ástinni. Ástinni sem þú gafst mér elsku pabbi minn. Og ástinni sem ég gaf þér. Þetta var falleg samband milli okkar. Það varð rof á sambandinu og ástinni en hún var þarna alltaf undir niðri. Ég er svo þakklát fyrir að hafa opnað á þetta áður en þþu kvaddir elsku pabbi minn. Elsku pabbi.

 

Takk fyrir að hjálpa mér með stærðfræði og íslensku. Og tónfræði. og takk fyrir að kenna mér á gítar. Takk fyrir að spila á gítar og syngja jólalög með okkur þegar við vorum krakkar. Takk fyrir að spila fyrir okkur barnaplötur með tónlist, pétur og úlfinn og brúðubílinn. og takk fyrir að kynna okkur fyrir fantasíu. Og takk fyrir að spila klassíska tónlist á kvöldin þegar ég gat ekki sofnað. Takk innilega fyrir það. og þér ótti svo vænt um það líka að geta hjálpað mér svona. Það er svo fallegt elsku pabbi. Takk fyrir það elsku pabbi minn.

 

Yndislega sál, hvíldu í friði <3

Ég hlakka til að hitta þig aftur einhverntíma og þá án alls kjaftæðisins <3 bara tvær sálir <3 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband