Mánudagur, 16.6.2014
Þunglyndi - er það sjúkdómur?
Já alltaf er maður að læra og þroskast og skoðanir manns mega líka breytast.
Ég skrifaði grein í vetur um þunglyndi þar sem ég sagði frá eigin reynslu af sjúkdómnum og gagnrýndi þá stimpla sem samfélagið vill setja á hann, meðal annars hugmyndir um aumingjaskap. Einnig vildi ég opna fyrir opinni og hreinskilinni umræðu á sjúkdómnum og sporna gegn tilhneigingunni til þess að umræða um hann sé gerð að tabú. En það vill hafa í för með sér mikla skömm hjá þeim sem þjást af honum.
Einhverju síðar las ég grein eftir konu sem lýsti því yfir að hún teldi þunglyndi ekki vera sjúkdóm. Hún talaði af eigin reynslu. Hennar skoðun var sú að þunglyndi væri ekki sjúkdómur af því hún væri ekki lengur þunglynd. Ég varð rosalega reið. Ég var sammála því að hægt væri að losna við þunglyndi en mér fannst ofureinföldun að segja það ekki vera sjúkdóm. Eftir því sem ég best veit þarf sjúkdómur ekki að vera ólæknandi til að hægt sé að skilgreina hann sem slíkan. Marga sjúkdóma má jú lækna. T.d. krabbamein. Krabbamein getur dregið til dauða, já. En það er líka hægt að læknast af honum. Sem einnig á við um þunglyndi. Að sama skapi getur þunglyndi, líkt og krabbamein, skotið upp kollinum aftur þrátt fyrir að viðkomandi sé búinn að vera laus við það í lengri eða styttri tíma.
Skoðun mín í dag er þessi:
Ég neita að kalla þunglyndi sjúkdóm, eða að minnsta kosti neita ég að skilgreina mig sem "þunglyndissjúkling". Ég hef mikla trú á mætti orða og hugsana, og tel að það sem við hugsum um okkur sjálf og aðra hafi gífurleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu okkar. Þar af leiðandi finnst mér ég vera að stimpla sjálfa mig sem "sjúkling" ef ég hugsa um sjálfa mig sem þunglyndissjúkling. Mér finnst ég vera að segja líkama mínum og kerfi að ég sé veik. Í staðin hef ég kosið að hugsa um þetta svona: Ég er heil. En viss atvik í fortíð minni höfðu þau áhrif að ákveðin "sníkill", ef svo má að orði komast, tók sér bólfestu í líkama mínum. Sníkill í formi niðurrifshugsana, uppgjafar og andlegs og líkamlegs orkuþrots. Því meira sem ég "fæði" þennan snýkil, því stærri verður hann. Þessvegna, ef ég held áfram að hugsa neikvæðar hugsanir, þá fæði ég þær. Smám saman verða þær svo stórar að ég ræð engan vegin við þær lengur. En ef ég finn "mig" undir þessum sníkli, og leyfi "mér" að vaxa, þá get ég losnað við hann. Þetta er það sem ég er búin að vera að gera síðustu mánuði. "Ég" er orðin mun stærri en sníkillinn. Sníkillinn er skugginn af því sem áður var og núna er ég að vinna í því að reka hann alfarið út og kveðja hann að eilífu.
Hvað stendur þá eftir? Ekki þunglyndissjúklingur. Nei. Bara Vala :)
Ég trúi því líka að það sé ekki að ástæðulausu sem við upplifum þunglyndi og kvíða. Ég tel að þetta séu viðvaranir frá kerfinu okkar um að við séum búin að villast af leið og það sé kominn tími til að nema staðar og skoða hver við erum og hvað við viljum. En það er saga fyrir næsta blogg :)
Ef einhver vill fá frekari upplýsingar um hvaða aðferðir ég hef nýtt mér til að takast á við þunglyndi er þeim hinum sama guðvelkomið að senda mér skilaboð...
Vinnum saman í að byggja okkur upp og hjálpum hvoru öðru að verða besta útgáfan af sjálfum okkur!
Hversu mikið betra samfélagi byggjum við í ef allir væru í ljósinu sínu, óstöðvandi í að láta drauma sína rætast :) <3 Útópíaaaa!!!! ;)
Lifum í kærleika! <3
Namaste <3
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.